Leita í fréttum mbl.is

Bilið milli T-rex og Texas

Hér á blogginu höfum við nokkur dæmi um menn sem boða biblíulega sköpun sem vísindalegan sannleik. Þeir hafna því að maðurinn sé afurð náttúrulegra ferla, þróunar í gegnum aldir og milljónir ára. Slíkir sköpunarsinnar eiga blessunarlega ekki miklu fylgi að fagna hérlendis, og flestum finnst það kannski ekki skipta öllu máli hvort maðurinn sé ættaður frá Afríku eða Antartíku. Og mjög fáir verða spenntir yfir þróunarlegum uppruna ávaxtaflugunnar, Drosophila melanogaster (sem er reyndar ávaxta og vínelskandi skepna - eins og við sum)

Barátta sköpunarsinna hefur samt víðtækari áhrif, og er hluti af stærra samhengi, sérstaklega í Bandaríkjunum.

Málið sem ég vill benda ykkur á hér, án þess að fjalla um af neinu gagni eru breytingar á kennsluskrá Texas fylkis. Sköpunarsinnar hafa í rúman áratug reynt að hafa áhrif á skoðanir almennings í bandaríkjunum, með því að fá kennsluskrár fylkja eða sveitarfélaga endurskoðaðar og breytt til samræmis við þeirra hugmyndir (þar hefur sköpunarsaga biblíunar sama vægi og öll þekking okkar á jarðfræði, geimfræði og líffræði).

Þeir fengu kennsluskrá Kansas breytt fyrir tæpum áratug, sem betur fer var "education board" fellt í næstu kosningum og kennsluskráin færð til fyrra horfs.

Nýjasta tilbrigðið er barátta "education board" í Texas, nema hvað nú er ekki bara horft til kennslu sem snýr að uppruna mannsins. Markmiðið er að endurskrifa alla sögu Bandaríkanna. Thomas Jefferson er felldur af stalli, og þar með hugmyndin um aðskilnað ríkis og kirkju. Það er fleira í þessum dúr, og flest ótrúlegra en manni gæti dottið í hug.

Það er ekki tilviljun að Texas hafi orðið fyrir valinu. Höfunda kennslubóka taka mið af kennsluskrám stærstu kaupenda sinna við skrif á kennslubókum. Og þar sem Kalifornía er á hausnum, þá eykst vægi Texas...þið afsakið fúkyrðin en ...andskotinn er að losna.

Við íslendingar könnumst nú reyndar vel við spunameistara og endurskrifun sögunar af bláum höndum og grænum fingrum, en þetta slær allt út. Þið hreinlega verðið að lesa grein í the Guardian um þetta mál, og reynið í "æsanna" bænum að finna sem mest út um þetta mál.

Texas schools board rewrites US history with lessons promoting God and guns


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Fyrir nokkrum árum kom í vinnuna til okkar nýútskrifaður doktor í fiskaeitthvað, ættaður úr biblíubeltinu. Honum þótti merkilegt að við gætum kynnt afbrygðamyndun bleikju í þingvallavatni sem þróun frá sameiginlegum landnámsstofni sem hefði orðið þar innlyksa (fyrir um 8000 árum), án þess að lenda í veseni vegna sköpunarsinna!

Þrumaði svo þessu dæmi á helsta predikara vitrænnar hönnunar hér á blogginu og hann afgreiddi þetta sem svo að jú, vissulega gætu lífverur breyst í tímans rás, en sú breyting væri neikvæð þar sem eiginleikar lífverunnar þynntust út og eftir stæði afbrygði sem væri veikara fyrir en fyrirrennarinn...

Segi nú eins og Steinríkur: "Þessir rómverjar eru klikk...!"

Haraldur Rafn Ingvason, 17.5.2010 kl. 18:11

2 Smámynd: Arnar

Maður verður að hafa smá von fyrir hönd Texasbúa, önnur ríki hafa verið að kæfa viðlíka frumvörp í nefndum nýlega.  Sá þetta td. nýlega hjá NCSE: Antievolution legistlation in Missouri dies.

En talandi um sköpunarsinna, var akkurat að ljúka við að lesa yfir greinina; First Large-Scale Formal Quantitative Test Confirms Darwin's Theory of Universial Common Ancestry á Science Daily.

Spennandi að sjá hvernig sköpunarsinnar svara því, minn peningur fer á að guðinn þeirra hafi verið svo latur að hann stalst til að nota óhóflega copy/paste..

Arnar, 17.5.2010 kl. 21:17

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Haraldur

I bæklingum sköpunarsinna sjá þeir bara eina útgáfu af náttúrulegu vali, þ.e. hreinsandi val sem fjarlægir skaðlegar breytingar. Þeim virðist fyrirmunað að viðurkenna að einstaka sinnum verði til hagstæð afbrigði (vegna tilviljanakenndra stökkbreytinga), sem veljast síðan alveg náttúrulega. Það er jákvætt val, sem hefur byggt upp alla meiriháttar eiginleika lífvera, og sem er sífellt að slípa og betrumbæta þær.

Tek undir með Steinríki, í þessum sem flestu öðru.

Nafni

Takk fyrir skemmtilega ábendingu. Mér sárnar samt að vísindamenn og fræðimenn þurfi að eyða orku sinni í að viðhalda þekkingarstiginu. Að mannlegri veröld steðja margar ógnir, og við þurfum á sérfræðingum að halda til að takast á við hrun vistkerfa, eyðingu náttúruauðlinda, hönnun lyfja og þróun meðferðarúrræða.

Veröld okkar byggð á þekkingu er fjarri því að vera örugg, við þurfum einnig að verjast atlögum þeirra sem vilja grafa undan vísindum og einstökum niðurstöðum, að því er virðist af trúarlegum og pólitískum ástæðum.

Fer í að lesa greinina á Science Daily. Að mínu viti þarf ekki nýtt próf til að meta þessa tilgátu, milljón vísindagreinar hafa verið birtar í líffræði og engin þeirra hefur getað hnekkt tilgátu Darwins um þróunartréð.

Arnar Pálsson, 18.5.2010 kl. 07:43

4 Smámynd: Vendetta

Það er rétt hjá þér Arnar, það er sorglegt hvað þessi örlitli minnihluti (sem álítur sjálfan sig meirihluta) hefur mikil völd í USA. Sköpunarsinnum hefur löngum verið annt um að telja almenningi trú um að the founding fathers hafi verið trúaðir. Ekkert er fjarri sanni. Þeir höfðu megnustu óbeit bæði á biblíunni svo og kirkjunni vegna trúarofsóknanna í Evrópu.

Ég veit um tvo sköpunarsinna hér á moggabloginu, hann Mofa okkar og svo hvítasunnugaurinn Snorra í Betel. Ég hef líka sterkan grun um að Jón Valur sé ekki beint Darwinisti.   Ef maður les færslur Snorra um risaeðlur eða skrif Mofa um gen og DNA, þá er augljóst að þeir lesa vísindalegar greinar eins og fjandinn les biblíuna.

Og það sem einkennir þetta fólk, er að þeir treysta sér ekki til að birta athugasemdir samstundis eins og við hin. Þessi hræðsla við athugasemdir einkennir líka marga vinstrimenn og femínista á vísis-blogginu, þar sem ég var um tíma. Menn sem hafa beinlínis neitað að birta mjög sakleysislegar athugasemdir frá mér. Það læðist að mér sá grunur, að það sé vegna þess, að sköpunarsinnar (og femínistar) eiga erfitt með að færa rök fyrir staðhæfingum sínum. Að tilfinningarnar og blindan nái yfirráðum.

Vendetta, 18.5.2010 kl. 17:43

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það má stundum sjá líkindi milli þeirra sem afneita vísindunum á bak við gróðurhúsakenninguna og þeirra sem eru sköpunarsinnar. Reyndar eru sumir af þeim sem eru hvað mest áberandi í umræðunni gegn gróðurhúsakenningunni sköpunarsinnar, sérstaklega í Bandaríkjunum, þannig að þessi líkindi eru ekkert undarleg í sjálfu sér.

Því tengt, þá samþykkti löggjafarþingið í South Dakota að hvatt yrði til þess að kenndar væru ýmsar aðrar (undarlegar) ástæður þess að jörðin væri að hlýna - samhliða gróðurhúsakenningunni - m.a. stjörnuspeki 

Höskuldur Búi Jónsson, 18.5.2010 kl. 20:15

6 Smámynd: Vendetta

Höski, ég er ekki sammála. Ég álít að kenningin um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum sé orðin að trúarbrögðum.

Vendetta, 18.5.2010 kl. 21:32

7 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vendetta: Þú segir nokkuð, ég hef ekki orðið var við að þú viljir klára rökræður við mig á loftslagsblogginu - mögulega af því að ég vitnaði í vísindamenn, en notaðist ekki við tilfinningarök eins og þú.

Kenningin um hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda er studd vísindalegum mælingum, gerðar með vísindalegum aðferðum. Það er því ekki nóg að álíta að þau vísindi séu byggð á trúarbrögðum, án frekari rökfærslu. Það minnir óneitanlega á rök sköpunarsinna.

En mér finnst gaman að því að þú skulir segja:

Og það sem einkennir þetta fólk, er að þeir treysta sér ekki til að birta athugasemdir samstundis eins og við hin.

Því þetta er nákvæmlega það sem við erum að verða vitni að varðandi aðal efasemdamennina um hlýnun Jarðar hér á Íslandi (ég get nefnt dæmi, en þú getur auðveldlega giskað á það). Við á loftslag.is höfum verið að benda þeim á vísindaleg rök gegn rökleysunum sem svífa þar yfir vötnum og fyrir vikið erum við út í kuldanum hjá þeim. Ef við spyrjum óþægilegra spurninga, þá er ólíklegt að athugasemdir okkar birtist yfir höfuð.

En hvað um það, við erum þó allavega sammála um að vísindin skipti máli hvað varðar þróunarkenninguna - þó vísindin virðist skipta þig minna máli, þegar kemur að umræðu um loftslagsbreytingar.

Höskuldur Búi Jónsson, 18.5.2010 kl. 23:03

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Höski

Þeir sem afneita loftslagsvísindunum hafa sótt töluvert í reynslu þeirra sem afneita þróunarkenningunni. Þetta er staðreynd.

Reyndar sóttu þeir líka í reynsluheim sígarettuframleiðenda, sem náðu að halda uppi málþófi um áratuga skeið þrátt fyrir mjög sterk vísindaleg rök.

Markmiðið er ekki endilega að vinna rökræðu, frekar að þyrla upp ryki til að fresta ákvarðanatöku, eða afvegaleiða umræðuna. Smjörklípu einhver?

Vendetta

Eftir því sem ég kemst næst þá eru yfirgnæfandi rök fyrir því að áhrif mannsins valdi hnattrænum veðurfarsbreytingum. Það er eðilegt að vera tortrygginn á stórar ályktanir, dogma hafa áður risið og fallið.

Ég lít á hnattræna hlýnum sem EINA af mörgum slæmum afleiðingum lífstíls vesturlandabúa. Með því að berjast gegn hnattrænni hlýnun þá berjumst við líka gegn öðrum slæmum afleiðingum lífstílsins, ss. mengun og eyðingu lífríkis og auðlinda.

Arnar Pálsson, 19.5.2010 kl. 09:09

9 Smámynd: Arnar

yeah

Arnar, 19.5.2010 kl. 09:49

10 Smámynd: Arnar

Þetta var að sjálfsögðu Jesus & Mo sem kom út 18.5.2010, eða sama dag og þessar pælingar með líkindi milli sköpunarsinna og hlýnun-af-völdum-manna-afneitara var í gangi hér.

Great minds think a like eh?

Arnar, 19.5.2010 kl. 09:52

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hér er svo grein úr New Scientist (sem kom út 15. maí), og kemur fram á Jesus & Mo teikningunni hér að ofan. Þar er rætt um muninn á efasemdum og afneitun (fróðleg lesning að mínu mati):

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.5.2010 kl. 10:29

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir teiknimyndina og tengil á grein Michaels Shermer. Sceptic magazine - http://www.skeptic.com/ - sem hann var/er? ritstjóri fyrir er alltaf skemmtileg lesning. 

Arnar Pálsson, 19.5.2010 kl. 11:38

13 Smámynd: Vendetta

Nei, ég afneita ekki vísindalegum aðferðum í sambandi við hlýnun jarðar, þvert á móti. Þegar ég t.d benti annað hvort Höska eða vini hans á fyrir nokkrum mánuðum að áreiðanleg gögn fyrir íshockey-kúrfuna (kerfisbundnar hitamælingar) næðu aðeins 200 ár aftur í tímann og þeir sem teiknuðu hana á sínum tíma extrapóleruðu einfaldlega kúrfuna fyrir 1800 aftur í fornöld með beinni, láréttri línu, þá svöruðu þeir í stuttu máli aðeins að kúrfan væri rétt. En hún er aðeins rétt fyrir sl. 200 árin, hitt er skáldskapur. Það eru einmitt heimildir (m.a. rannsóknir á setlögum og árhringum) um miklar hitasveiflur bæði í fornöld og á miðöldum, sveiflur sem virðast vara yfir ákveðin lengd tímabils. Á þeim tíma var iðnbyltingin ekki einu sinni byrjuð og eina verulega magn gróðurhúsalofttegunda þá voru þær sem komu frá náttúrunni sjálfri (m.a. metan og SO2), meðan útleiðsla á koltvíildi var hverfandi. Hvað orsakaði þá hnattræna hlýnun? Og hvað orsakaði hnattræna kólnun sem kom inn á milli? Þegar þessu hefur verið svarað á óyggjandi hátt mun koma í ljós, að sveiflurnar eru ekki af mannavöldum og þess vegna er árangurslaust fyrir mannkynið að berjast gegn því.

Svo var hitt atriðið, með koltvíildið. Ég hélt því fram, að til þess að breyta hitastigi hnattrænt, þyrfti aukningin af koltvíildi í andrúmsloftinu að vera mun meiri en þessi örfáu prómill. Einangraðar tilraunir í vernduðu umhverfi á rannsóknarstofu gefa ekki rétta mynd af raunverulegum aðstæðum og áhrifum. Ég legg til að við bíðum í svona 5 - 6 ár og sjáum hvort ekki hitastigið lækkar verulega alveg óháð útleiðslu af CO2. Ef það kólnar þrátt fyrir óbreytta útleiðslu í USA, Rússlandi, Kína og Indlandi og þrátt fyrir langvarandi eldgos á Íslandi og Kamtshatka, hvaða rök eru þá eftir fyrir ykkur, Höski? Og hvernig stendur á því að þrátt fyrir fölsun á gögnum varðandi bráðnun jökla í Himalaya af hálfu IPCC, þá starfar þessi nefnd ótrauð áfram eins og ekkert hafií skorizt? Það eru ótal spurningar sem hafa vaknað sem enn ekki hefur verið svarað, ólíkt þróunarkenningunni, sem hefur "þróazt" vísindalega, þ.e.a.s. annað hvort hafa allar nýjar rannsóknir eða uppgötvanir stutt þróunarkenninguna eða þá að kenningin var aðlöguð að breyttri þekkingu en samt innan ramma kenningarinnar. Það eru engin vísindaleg gögn sem styðja sköpun/vitræna hönnun, en hvað varðar loftlagsbreytingar af mannavöldum er ekki búið að sýna óyggjandi fram á eitt né annað og það verður sennilega ekki gert fyrr en eftir 10 ár.

Í mínum huga er það eina sem hægt er að gera í stöðunni, ef hlýnun og kólnun er af náttúruvöldum að aðlaga sig. Mér finnst mikið alvarlegri hætta á útrýmingu dýrategunda vegna þess að hundruðum ferkílómetra af regnskógi sé eytt í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu en þær fáu tegundir sem deyja út af völdum hlýnunar. Baráttan gegn þessari gengdarlausum ágangi á náttúruna og náttúruauðlindir er brýn, en hefur fallið í skuggann fyrir baráttunni gegn hnattrænni hlýnun, sem er töpuð fyrirfram. 

Hins vegar var þessi kenning sem IPCC, loftslag.is, Al Gore og fleiri eru talsmenn fyrir gripin fegins hendi af stjórnmálamönnum og embættismönnum víðs vegar um heiminn sem sáu annað hvort möguleika á nýjum skattaálögum (sem var og gert) eða gróða í sambandi við kvótasölu eða afsökun fyrir aðgerðarleysi í sambandi við náttúruhamfarir.

Over and out.

Vendetta, 19.5.2010 kl. 13:38

14 Smámynd: Vendetta

Arnar Guðmundsson: Ertu ekki hræddur um að islamskir öfgamenn setji fatwa á síðuna hans nafna þíns? Þú veizt að þeim er ekkert sérstaklega vel við teikningar af Moe?

Vendetta, 19.5.2010 kl. 13:44

15 Smámynd: Arnar

Sé það núna, hann verður líklega af stórum notendahóp þegar bloggið hans verður bannað í Pakistan, Saudi Arabíu og Íran.

Arnar, 19.5.2010 kl. 17:09

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vendetta:

Þú skrifar margt, en nú ætla ég (vinur hans Höska) í fjarveru Höska að skoða nokkrar af þínum staðhæfingum:

Þegar ég t.d benti annað hvort Höska eða vini hans á fyrir nokkrum mánuðum að áreiðanleg gögn fyrir íshockey-kúrfuna (kerfisbundnar hitamælingar) næðu aðeins 200 ár aftur í tímann og þeir sem teiknuðu hana á sínum tíma extrapóleruðu einfaldlega kúrfuna fyrir 1800 aftur í fornöld með beinni, láréttri línu, þá svöruðu þeir í stuttu máli aðeins að kúrfan væri rétt. En hún er aðeins rétt fyrir sl. 200 árin, hitt er skáldskapur. Það eru einmitt heimildir (m.a. rannsóknir á setlögum og árhringum) um miklar hitasveiflur bæði í fornöld og á miðöldum, sveiflur sem virðast vara yfir ákveðin lengd tímabils.

Ég man ekki eftir neinum áreiðanlegum gögnum frá þér varðandi íshokkíkylfuna, en þú hefur bent okkur á "heimildarmyndina" The Global Warming Swindel, en hún byggir ekki á vísindum, né vísindakenningum og hefur leikstjórinn verið staðinn að því að falsa gögn. Við aftur á móti bentum þér á gögn og færðum rök fyrir því hversvegna hokkíkylfan er ekki tómur skáldskapur, þú svaraðir því ekki frekar, þrátt fyrir stór orð þar um...sjá hér í athugasemdum, þar sem okkar svör koma líka fram.

Hinn parturinn, þar sem þú nefnir að við vitum um hitasveiflur á miðöldum og fornöldum vegna rannsókna, þá spyr ég þig, hverskonar rannsóknum  heldur þú að hokkíkylfan byggi á. Smá hint - m.a. á rannsóknum á setlögum og árhringjum ásamt fleiri proxí gögnum, sjá umfjöllun um hokkíkylfuna; Er búið að strauja hokkíkylfuna? eða mýtan - Hokkíkylfan er röng

Og hvað orsakaði hnattræna kólnun sem kom inn á milli? Þegar þessu hefur verið svarað á óyggjandi hátt mun koma í ljós, að sveiflurnar eru ekki af mannavöldum og þess vegna er árangurslaust fyrir mannkynið að berjast gegn því.

Reyndar finnst mér alltaf hálf undarlegt að biðja um að sanna eitthvað í náttúruvísindum á óyggjandi hátt, vísindi verða seint annað en einskonar nálgun. En hvað um það, það eru til miklar rannsóknir á því einmitt hvers vegna fyrri loftslagsbreytingar eru taldar hafa orðið, það er engin að halda því fram að CO2 sé eini þátturinn sem hefur áhrif á loftslag jarðar, þó svo sá þáttur sé talin vera veigamikill þáttur núverandi hlýnunar, þó svo náttúrulegar sveiflur í hitastigi eigi sér stað nú sem áður.

Svo var hitt atriðið, með koltvíildið. Ég hélt því fram, að til þess að breyta hitastigi hnattrænt, þyrfti aukningin af koltvíildi í andrúmsloftinu að vera mun meiri en þessi örfáu prómill.

Aukningin er frá 280 ppm til 390 ppm nú, sem er um 38% aukning CO2 í andrúmsloftinu, það þykir mér dálítil aukning, og þeim vísindamönnum sem rannsaka málið telja það líka vera marktæk aukning og muni hafa áhrif á loftslag.

Ég legg til að við bíðum í svona 5 - 6 ár og sjáum hvort ekki hitastigið lækkar verulega alveg óháð útleiðslu af CO2. Ef það kólnar þrátt fyrir óbreytta útleiðslu í USA, Rússlandi, Kína og Indlandi og þrátt fyrir langvarandi eldgos á Íslandi og Kamtshatka, hvaða rök eru þá eftir fyrir ykkur, Höski?

Við höfum beðið í allavega 20 ár of lengi. T.d. eru síðustu 12 mánuðir heitasta 12 mánaða tímabil síðan mælingar hófust, þrátt fyrir lágdeyðu í sólinni...

Og hvernig stendur á því að þrátt fyrir fölsun á gögnum varðandi bráðnun jökla í Himalaya af hálfu IPCC, þá starfar þessi nefnd ótrauð áfram eins og ekkert hafií skorizt?

Þessa villu er ekki hægt að telja vera fölsun, það voru t.d. vísindamenn sem bentu á hana. Eitt atriði varðandi hana er t.d. að það er ósamræmi á milli þess sem kemur fram í skýrslu vinnuhóps 1 (sem skoðar vísindin á bak við fræðin) og vinnuhóps 2, þar sem villan kom fram. Það að það komi fram villur í skýrslu á borði við skýrslu IPCC sem er um 3000 síður (ef ég man rétt), getur vart komið á óvart, og sjálfsagt eru þær fleiri.

Það eru engin vísindaleg gögn sem styðja sköpun/vitræna hönnun, en hvað varðar loftlagsbreytingar af mannavöldum er ekki búið að sýna óyggjandi fram á eitt né annað og það verður sennilega ekki gert fyrr en eftir 10 ár.

Af hverju 10 ár...? Í vísindum er aðeins eitt sem er betra en bein mæling, gerð í hinum raunverulega heimi, en það eru margar sjálfstæðar beinar mælingar sem allar vísa á sömu niðurstöðu. Það eru til mörg bein sönnunargögn sem öll benda til að fingraför mannkyns hafi áhrif á hnattræna hlýnun, sjá nánar, Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina

Hins vegar var þessi kenning sem IPCC, loftslag.is, Al Gore og fleiri eru talsmenn fyrir gripin fegins hendi af stjórnmálamönnum og embættismönnum víðs vegar um heiminn sem sáu annað hvort möguleika á nýjum skattaálögum (sem var og gert) eða gróða í sambandi við kvótasölu eða afsökun fyrir aðgerðarleysi í sambandi við náttúruhamfarir.

Fyrst langar mig að nefna að vísindarannsóknir þær sem liggja að baki kenningum um hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda eru ekki gerð af Al Gore (hann er ekki vísindamaður), okkur á loftslag.is eða þá heldur IPCC sem slíks. Mér þykir líka sem að "kenningar" um að stjórnmálamenn og embættismenn hafi gripið þessu "fegins hendi" vera heldur langsóttar, þar sem þetta mál hefur hingað til ekki fengið athygli þessara sömu manna nema að litlu leiti og þá mest í orði en ekki á borði.

Mér sýnist nú að þegar mörg af þeim rökum sem sett hafa verið fram á móti loftslagsvísindunum séu frekar illa rökstudd og hvet ég þig Vendetta til að opna hug þinn og passa þig á rangtúlkunum eins og þær sem birtast í "heimildamyndum" á borð við "The Global Warming Swindel" og bloggsíðum sem halda viðlíka rökleysum á lofti.

Mbk.
Sveinn Atli
Ritstjóri á loftslag.is

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.5.2010 kl. 21:30

17 Smámynd: Vendetta

Takk fyrir að svara athugasemd minni. Ég mun hugsa málið eins og endranær.

Vendetta, 20.5.2010 kl. 11:21

18 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Verði þér að góðu Vendetta, nú er ráð að leggjast undir feld og skoða hlutina með gagnrýnum og opnum huga

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.5.2010 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband