Leita í fréttum mbl.is

Meistaraflóð

Lærdómur af bók er eitt. Það að læra með því að gera er allt annað. Ímyndið ykkur að reyna að læra fótbolta með því að lesa. Eins og knattspyrnumenn þurfa að æfa, bæði líkama og huga, þurfa vísindamenn að æfa sig.

Í líffræðinni þá fá nemendur að kljást við verkefni og að skrifa ritgerðir í BS námi sínu. Sumir kjósa einnig að vinna lítil rannsóknarverkefni. Það er einnig töluvert um að fólk sem hafi áhuga á rannsóknum fari í Meistaranám, þar sem það takist á við alvöru rannsóknarspurningar, safni gögnum, geri tilraunir og skrifi ritgerð eða vísindagrein.

Margir af þessum meistaranemum eru að ljúka verkefnum sínum nú á vordögum. Í dag fram á  föstudagin verða kynnt fjölmörg meistaraverkefni í líffræði, lífefnafræði og læknisfræði. Þau spanna allt frá krabbameinsfrumum til Beitukónga, vistkerfi Laxár í Aðaldal til lungnaþekju.

Eftirfarandi er vissulega upptalning, en vonandi gefur hún hugmynd um þann fjölbreytileika sem er í rannsóknum á svið lífvísinda innan Háskóla Íslands.

Beitukóngur (Buccinum undatum L.) – Vistfræði og stofnerfðafræði - Meistaravörn Hildar Magnúsdóttur - Askja stofa 132 kl. 15:00 19 maí 2010. Úr tilkynningu:

Beitukóngur (Buccinum undatum L.)  er sjávarsnigill sem lifir neðan fjöru að 50 m dýpi og finnst víða í N-Atlantshafi. Í Evrópu og Kanada er hann veiddur til manneldis, þ.á.m. á Íslandi.

Lífsöguþættir og formfræði beitukóngs í Breiðafirði voru rannsökuð á árunum 2007-2008 og þessir þættir bornir saman milli 10 stöðva innan fjarðarins. Stofnerfðafræði beitukónga í Breiðafirði, Húnaflóa og Færeyjum var einnig rannsökuð og borin saman við mun á útlitseinkennum þeirra milli þessara svæða.

Tvær meistaravarnir verða við Læknadeild í dag og tveir á morgun. Öll erindin fara fram í Læknagarði.

Berglind Ósk Einarsdóttir mun fjalla um "Mögnun og genatjáning á litningasvæði 8p12-p11 í brjóstaæxlum - Líkleg markgen mögnunarinnar tilgreind." Miðvikudaginn 19. maí 2010, kl. 14:00. 

"Tjáning og starfrænt hlutverk prótein tyrosín fosfatasa 1B in brjóstaþekjufrumum" - Bylgja Hilmarsdóttir. Miðvikudaginn 19. maí 2010, kl. 16:00.

Ari Jón Arason mun fjalla um "Skilgreining á lungnavef manna: tjáningarmynstur týrósín kínasa viðtaka og sprouty próteina in situ og í þrívíðu ræktunarmódeli." Fimmtudaginn 20. maí 2010, kl. 14:00.

Ívar Þór Axelsson - “Myndun greinóttrar formgerðar lungnaþekjufruma í þrívíðri rækt”.  Fimmtudaginn 20. maí 2010, kl. 16:00

Föstudaginn 21 maí 2010 verður síðan önnur holskefla af meistarafyrirlestrum, nú flestir í líffræði.

Hrygningargöngur, hrygningarstaðir og afkoma laxa í Laxá í Aðaldal og hliðarám hennar - Kristinn Ólafur Kristinsson, kl 10:00 í stofu 132 í Öskju. Úr tilkynningu:

Laxá í Aðaldal á upptök sín í Mývatni, einu frjósamasta vatni Evrópu þegar miðað er við hnattræna legu þess. Hún rennur að mestu á hraunbotni og ber fram mikið af sandi....

Ganga merktra laxa mótaðist af sjávaraldri og tímasetningu göngunnar. Stórlaxar höfðu lengri og breytilegri gönguferil en smálaxar og tengist það sjávaraldri en ekki fisklengd. Hluti merktra laxa var á ferð upp og niður ána áður en þeir lögðust, á meðan aðrir gengu rakleitt á hrygningastað, og var það jafnt hlutfall stór- og smálaxa sem sýndi þess háttar atferli.

Kl 12:00 mun Gintarė Medelytė flytja erindi um áhrif skóga á hryggleysingja í íslenskum straumvötnum (Influences of forests on invertebrate communities in Icelandic streams). úr tilkynningu:

Á sumrin var þéttleiki hryggleysingja meiri en á veturna og hæst í lækjum á vatnasviðum með birkiskóg, sem voru einnig með mestan plöntulífmassa á bökkum lækjanna og mestan þörungalífmassa.

Kl 12:30 mun Ásta Rós Sigtryggsdóttir flytja sína meistarvörn í Efna og lífefnafræði. Erindið heitir, Hlutverk sameinda-sveigjanleika í hitastigsaðlögun subtilisín-líkra serín próteinasa. Úr tilkynningu:

Helsti munur ensíma úr lífverum sem aðlöguð eru að mismunandi hitastigi er sá að kuldaaðlöguð ensím hafa yfirleitt hærri hvötunargetu við lág hitastig en miðlungshitakær og hitakær ensím, hins vegar eru þau ekki eins stöðug gagnvart hita. Þessir eiginleikar hafa verið tengdir auknum sveigjanleika myndbyggingar kuldakærra ensíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband