Leita í fréttum mbl.is

Gróðurvinir í sókn

Sambýli okkar við náttúruna er margslungið. Skógar hafa orðið að víkja fyrir okkur mönnunum. Í Evrópu er mjög lítið eftir af upprunalegum skógi, sem aldrei hefur verið hogginn. Sem betur fer eru stórir skógar í Afríku, Ameríku og Asíu sem maðurinn hefur aldrei nytjað.

Það er mjög jákvætt að heyra að vesturlönd ætli að sameinast um að vernda slíka skóga, og verja til þess almennilegum fjármunum. 

Hérlendis er fá tré eftir til að vernda, og áherslan hefur lengi verið á skógrækt. Gróðurvinir eru eitt lofsvert framtak í þá veru. Um er að ræða hóp fólks sem hefur það að áhugamáli að rækta tré og bæta nánasta umhverfi sitt. Ég er sérstaklega stoltur af því að segja að Gróðurvinir eru nemendur líffræði við HÍ sem leggja áherslu á að fegra og betrumbæta háskólasvæðið. Af fésbókarsíðu Gróðurvina.

Hugmyndin er sú að auka gróður á vel völdum stöðum á háskólasvæðinu, núverandi nemendum og komandi kynslóðum til yndisauka.

Gróðurvinir eru nú orðnir um 200 á fésbókinni, þar má einnig sjá myndir af verkefnum. Ég hvet fólk til að ganga í lið með gróðurvinum HÍ eða stofna sín eigin hópa með álíka lofsverð markmið. Við getum betrumbætt veröld okkar.

Fjallað var um gróðurvini í fréttablaðinu 13 maí 2010. Af vefnum visir.is.

Gróðurvinir háskólans græða upp bakgarðinn

Jón Ásgeir Jónsson stundar nám í líffræði við Háskóla Íslands. Honum leiddist gróðurleysið á háskólasvæðinu og hefur stofnað hóp sem hann allar Gróðurvini til að bæta úr því.
"Í kringum háskóla erlendis eru vel skipulögð gróðurrík svæði sem fólk sækir í að vera á. Á svæðinu kringum Öskju eru hins vegar engin tré. Í kringum háskóla erlendis eru vel skipulögð gróðurrík svæði sem fólk sækir í að vera á. Á svæðinu kringum Öskju eru hins vegar engin tré. Ef þú vilt gera heiminn betri þá skaltu byrja í bakgarðinum heima hjá þér er stundum sagt og þar sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á trjám og gróðri
datt mér í hug að gera eitthvað sjálfur," segir Jón Ásgeir.
Hann hóaði því í samnemendur sína í líffræðinni og eru meðlimir orðnir hátt í 200 manns á Facebook. Gróðurvinir hafa þegar hist tvisvar í vor og unnið við gróðursetningu á svæðinu milli Öskju og Norræna hússins. Vinnan fer fram í samvinnu við Pál Melsted, garðyrkjustjóra HÍ.


mbl.is Milljörðum varið í verndun skóga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Úff.. ef þú hefur einhver ítök þarna mættirðu alveg benda Gróðurvinum á að rölta með garðyrkjustjórann í kringum VRI-VRIII.  Hefur kannski eitthvað skánað en umhverfið þar á bakvið var hálf ömurlegt þegar ég var þarna fyrir 10-15 árum síðan.  Eiginlega eini gróðurinn var á bílastæðinu við háskólabíó og svo við blokkina á bakvið VR-I.

Arnar, 27.5.2010 kl. 11:12

2 Smámynd: Vendetta

Það þyrfti að gróðursetja svona á bilinu 30 - 40 milljónum trjáa á Íslandi. Það eru stór landsvæði á láglendi sem fengju ekki aðeins andlitsslyftingu heldur líka skjólgarða með því. T.d. er ekki eitt einasta tré á öllu Snæfellsnesinu, og það gefur ásýnd hrjóstrugrar og fráhrindandi náttúru. Þar mætti taka til hendinni.

Og ég er ekki að tala um einhvað kjarr og runna, heldur alvöru tré: Birki, reyni, furu, jafnvel útlenzk tré eins og eikur og popla þar sem því verður við komið. Í Skaftafellsskógi eru harðgerð, hávaxin tré eins og Síberíulerki og fleiri. Hvers vegna þessir þrír skógar á Suð-Austurlandi, Austur- og Norðurlandi voru látnir nægja á sínum tíma þegar þörfin var svo mikil, veit ég ekki.

Ég geri mér grein fyrir að þessi vinna er gífurlega kostnaðarsöm og tekur marga áratugi, en einhvern tíma verður að byrja, þrátt fyrir andstöðu fólks sem heldur því fram að skóglendi á Íslandi sé "eins og hýjungur á kinn ungrar konu", eins og einhver skrifaði um daginn. Ég vil frekar snúa þessu við og segja að náttúra Íslands er eins og gapandi sár, lítið annað en urð og grjót. Skóglendur og trjáraðir meðfram ræktuðum ökrum eins og sést víðast hvar í öðrum Evrópulöndum yrðu hrein augnakonfekt.

Hvað varðar þessa setningu: "Á landnámsöld var landið viði vaxið milli fjalls og fjöru" sem skólabörnum er kennt, þá hef ég oft hugsað um hvers konar viður þetta væri. Fyrst aðal náttúrulegi gróðurinn í dag eru kjarr og hríslur, var það þá þannig líka á landnámsöld? Ætli það hafi þá verið nokkur prýði að því? Þótt vissulega hafi verið gagn að því (bundið jarðveginn). Ég minnist ekki að hafa séð mikið skrifað um það.

En ég verð nú að viðurkenna að ég hef heldur ekki lesið mörg náttúrufræðirit. Ég les helzt aldrei neitt nema að það sé amk. tvær stærðfræðijöfnur og rökyrðingar á hverri síðu.

Vendetta, 27.5.2010 kl. 13:04

3 Smámynd: Arnar

Náttúruvernd og skórækt virðist reyndar fara illa saman.  Hef heyrt eitthvað um árekstra þar á milli.

Td. var víst einhvern tíman til umræðu um að fella öll tré á Þingvöllum sem var skipulega plantað því það stóð í vegi fyrir einhverri alþjóðlegri þjóðgars vottun.

Það er víst munur á skógi og náttúrulegum sjálfsáðum skógi.

Arnar, 27.5.2010 kl. 14:02

4 Smámynd: Vendetta

Svona skilyrði fyrir þjóðgarðsvottun finnst mér fáránleg. Hvers vegna var þá ekki farið fram á að Valhöll og Þingvallakirkja yrðu rifin? Ekki eru þessar byggingar af völdum náttúrunnar.

Vendetta, 27.5.2010 kl. 14:26

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Ég veit að það var ákveðin mótsögn í upprunalega pistlinum.

Náttúruverndin er sterk í manni, en einnig þörfin eftir trjám (furðuleg árátta finnst ykkur ekki?).

Ég er ekki (lengur) fylgjandi því að flytja inn mikið af erlendum tegundum til landsins, í nafni skógræktar. Engu að síður veit ég að elri óx hér fyrr í jarðsögunni, og að náttúra Íslands er ekki óspillt (eftir landnám var skógi eytt - eins og Vendetta benti á). Beit og skógarhögg leiddu til þess að landið varð eins nakið og það er.

Arnar Pálsson, 27.5.2010 kl. 15:16

6 Smámynd: Vendetta

Sl. 30 ár hefur Reykjavík tekið miklum stakkaskiptum. Í bernsku minni voru reynitré í húsgörðum í Þingholtunum einu trén sem sáust, annars staðar í borginni var ekki stingandi strá. Nú eru tré víðsvegar á grænum svæðum, þótt víðar mættu þau vera. Það gerir gífurlegan mun fyrir þessa borg, sem áður líktist alvarlegu skipulagsslysi.

Vendetta, 27.5.2010 kl. 15:36

7 Smámynd: Arnar

Náttúruverndin er sterk í manni, en einnig þörfin eftir trjám (furðuleg árátta finnst ykkur ekki?).

Tiltölulega stutt síðan við komum niður úr trjánum svo það er kannski ekki svo furðulegt

Arnar, 27.5.2010 kl. 15:59

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Vendetta

Ég er sammála þér með að trén hafa bjargað miklu í borginni, og gætu gert hana miklu notalegri. Þeim mætti skilyrðislaust fjölga, en auðvitað velja réttar tegundir og allt það.

Arnar

Mér hefur alltaf fundist þetta forvitnilegt, hvernig græni liturinn virkar á mann, og hversu mikinn frið maður finnur í skógi eða fjöruborðinu. Ég hef ekki lesið mér til um þetta af neinni alvöru, en ef ég man rétt er jákvæð fylgni milli milli nálægt við græn svæði og heilsufars borgarbúa.

Það er athyglisvert að velta fyrir sér hvernig þetta virkar og hvort við getum ekki ræktað þessa eiginleika og betrumbætt umhverfi okkar til þess að auka vellíðan borgaranna.

Arnar Pálsson, 27.5.2010 kl. 16:13

9 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Með 16-17 þúsund einstaklinga á atvinnuleysisskrá þá ætti ekki að vera erfitt að finna mannskap til að fara og planta niður einhverjum milljóna trjáa.

Núna er náttúrulega besti tíminn til þess þar sem að hægt er að nota öskuna sem áburð (heyrði/las einhverntímann/einhverstaðar að viss tegund af eldfjallaösku væri ein besta gróðurbót sem til er.

Þetta er bara spurning um vilja valdhafa til að gera eitthvað sem gerir rosa mikið gagn til langstíma litið. En eins og alltaf þá einskorðast aðgerðavilji valdhafa við 4 ár fram í tímann.

Tómas Waagfjörð, 27.5.2010 kl. 20:14

10 Smámynd: Arnar Pálsson

Tómas

Það væri skynsamlegt að fara í skógræktarátak núna. Það þyrfti ekki að planta í hverja þúfu. Bara að girða af ákveðin svæði, planta á nokkra staði og láta síðan fræregn og tímann sjá um restina.

Stígagerð í þjóðgörðum var eitt af meðulum Rosevelts við kreppunni miklu, sem skaffaði vinnu fyrir 500.000 manns og byggði upp einstaka auðlind fyrir ferðamenn og heimamenn.

Arnar Pálsson, 29.5.2010 kl. 16:11

11 identicon

Mér finnst nú fallegra að hafa tvílembu í garðinum en ljóta hríslu.

Annars eru íslensku trén okkar falleg eins og birkið og reynirinn.

Jóhannes (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 01:07

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhannes

Við í borginni megum ekki halda sauðfé. Ég væri alveg til í að vera með nokkrar skepnur í bakgarðinum en seint myndi ég fórna hríslunum mínum.

Arnar Pálsson, 30.5.2010 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband