Leita í fréttum mbl.is

Þjóðgarðar í sjó

Maður hugsar ekki um það sem maður ekki sér. Þess vegna er svona auðvelt að gleyma þjáningum bræðra okkar í Afríku eða Haítí, og þess vegna eigum við svo bágt með að vernda lífríki hafsins.

Norður Ameríka byggðist frekar hratt, miðað við t.d. Evrópu, og þá gátu einstaklingar upplifað það hvernig landinu var umbreytt af mönnum. Skógar viku fyrir ökrum, árbakkar breyttust í borgir og óbyggðir í opnar námur. Miðað við það sem maður lærði í umhverfisfræðinni í gamla daga, var þetta lykillinn að því að fólk stofnaði þjóðgarða og verndarsvæði. Það áttaði sig á því að náttúran víkur fyrir manninum, og að ef við gætum okkar ekki, þá getum við eytt einstökum tegundum og eyðilagt undur náttúrunar.

Hafið er okkur flestum hulið. Við sjáum lífríki fjörunnar, og finnum til með fuglum löðrandi í olíu (sbr nýjasta olíuslysið í Mexíkóflóa - Ógn við okkur sjálf), eða fugla sem eru fullir af plastdrasli sem þeir héldu æti (Plastfjallið). En afgangurinn af hafinu er okkur að mestu fjarlægur og ókunnur. Hvað er svo sem þar að vernda?

Staðreynd málsins er að hafið er ótrúlega auðugt, fjölbreytileiki sjávarlífsins er stórkostlegur og að miklu leyti ókannaður. Og sumar þjóðir vita um mikilvægi kóralrifja og vernda þau af fremsta megni (þótt nægar séu ógnirnar - sbr. slys nú á vormánuðum, sem reyndar fór betur en á horfðist - meðvitund um náttúruna). Hugmyndir um verndun hafsins og lífríkis þess hafa aðallega verið tengdar nýtingu á auðlindum þess, en ekki um verndun náttúrunnar vegna.

Sigríður Kristinsdóttir hefur verið að kanna hugmyndir um þjóðgarða í sjó, og hvort tími sé tilkominn að stofna slíka garða við strendur Íslands. Hún mun kynna niðurstöður meistaraverkefnis síns í fyrirlestri miðvikudaginn* 26 maí 2010, kl 15:00 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Úr tilkynningu:

Víða um heim eru verndarsvæði í sjó (MPAs; Marine Protective Areas) notuð til að stjórna fiskveiðum, auk þess sem þau eru mikilvægt tæki til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og til að vernda náttúru- og menningarminjar. Í þessum rannsóknum var skoðuð gagnsemi þess að stofna verndarsvæði í sjó og lagt mat á reynslu annara þjóða af slíku, m.a. reynslu Ástrala af Þjóðgarðinn Kóralrifið mikla. Ennfremur var lagt mat á það hvernig slík verndarsvæði gætu hjálpað til að uppfylla betur þá alþjóðasamninga sem Íslendingar eru aðilar að, auk þess sem metið var hvort fiskistofnar og lífríki við strendur Íslands gæti notið góðs af verndarsvæðum. Hér á landi
hefur fyrst og fremst verið stuðst við kvótakerfi til að stýra nýtingu fiskistofna, en auk þess hefur skyndilokunum verið beitt á ákveðnum svæðum til þess að vernda smáfisk. Eins og víða annarsstaðar í heiminum hafa nytjastofnar við Ísland hins vegar minnkað þrátt fyrir aðgerðir til að koma í veg fyrir slíkt.

Verndarsvæði í sjó hafa ekki verið stofnuð með tilliti til verndunar líffræðilegrar fjölbreytni en hér er lagt til að byrjað sé á því að skoða svæðið sunnan Reykjanesskaga að Vestmannaeyjum og jafnvel austur fyrir Vestmannaeyjar, með það í huga að stofna einhverskonar verndarsvæði í sjó.

*Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu stóð föstudagur í stað miðvikudags. Sem dugði til þess að ég missti af fyrirlestrinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband