Leita í fréttum mbl.is

Skraut eða heiðarleiki

Lítið skreyttur fiskur er ljótur.

Mikilvægast er samt að dýr skilji hvaða einstaklinga er heppilegast að æxlast við. Kanína sem þráir gíraffa kynferðislega er vitanlega þróunarfræðileg blindgata. Einnig eru þau dýr líklegri til að eignast afkvæmi sem gera hosur sínar grænar fyrir gagnstæðu kyni.

Hjá mörgum tegundum eru karl og kvendýr mjög ólík í útliti, t.d. blikar og æðarkollur eða ljón og ljónynjur. Iðullega er karldýrið meira skreytt, vegna þess sem Darwin kallaði kynjað val. Lykilatriðið er að kvendýrin kosta meiru til við myndun eggja en karldýr við myndun sæðisfruma. Þær eru því kröfuharðari á maka, og reyna að velja hann vel.

Tilgátan er sú að skraut sé merki um heilbrigði, bara þeir sem séu virkilega frískir geta eytt orku í að skreyta sig (Það mætti taka dæmi úr mannlífinu hér, bera saman heimilislaust fólk í Moskvu og einhverja Hollywood gleðipinna).

  • Ein opin spurning er, hversu heiðarlegt er skrautið?
  • Önnur er, ef skrautið þitt er lélegt, geturu svindlað?

Nýleg rannsókn Jonathan Evans og félaga á gúbbífiskum tekst á við þessar spurningar. Þar náðu minna skreyttir fiskar (kallaðir ljótir) að svindla með því að framleiða kröftugara sæði. Kvenfiskarnir lögðu niður egg sín fyrir skrautlega karla, en þeir "ljótu" sprautuðu sínu kröftuga sæði út, og það náði að frjóvga eggin á undan sæði skrautfisksins. Önnur dæmi um svona "svindl" finnast hjá löxum, þar sem litlir læðupúkar smjúga með botninum og skvetta svili sínu yfir eggin.

Svona samkeppni milli sæðisfruma er algeng í dýraríkinu. Talið er að eistu prímata séu í stærra lagi vegna þess að kvendýrin makist iðullega við mörg karldýr, og því sé sá sem sem "leggi henni til" flestar sæðisfrumur líklegastur til að feðra afkvæmið*. Hjá ávaxtaflugum, sem geyma sæði margra karldýra í sæðissekknum sínum (eitthvað fyrir Grefilinn), er hatröm samkeppni milli sæðisfruma (sperm competition). Þar er stundaður efnahernað (efni í sæðisvökva sem eyða sæðisfrumum keppinauta), eitrað er fyrir kvendýrinu (efni sem draga úr löngun hennar til að makast við karldýr), og víggirðingum komið fyrir (vökvinn inniheldur hlaupkennd efni, sem virka eins og getnaðarvarnarhetta inni í kvenflugunni).

Samskipti kynjanna taka á sig margar myndir. Skraut og heiðarleiki geta farið saman en sannleikurinn er að blessaðar kynfrumurnar neyða dýrin til að prufa mjög furðulega hluti í kynlífinu.

*Reyndar sker maðurinn sig úr hér, eistu okkar eru með þeim minnstu meðal prímata, en á móti kemur að löngunin vitjar okkar oftar.

Sjá einnig:

Hin kenning Darwins

Í laufskálanum tifa maríuhænur

BBC 2 júní 2010 Less attractive fish have 'better sperm' (frétt mbl.is er næstum orðrétt þýðing á pistlinum á BBC).


mbl.is Ljótir framleiða betra sæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Hef ætíð þótt lítt skreyttur...

Haraldur Rafn Ingvason, 2.6.2010 kl. 21:20

2 Smámynd: Vendetta

"... bera saman heimilislaust fólk í Moskvu og einhverja Hollywood gleðipinna".

Hollywood gleðipinnar eru einmitt ekki heilbrigðir, yfirleitt þvert á móti. Svampar og kókaínfíklar, sem deyja fyrir aldur fram. Vildi bara nefna það.

Eins gott að það sem þú skrifar um á aðeins við um dýraríkið. Ekki myndi ég vilja þurfa að vera að skreyta mig til að fá kvenhylli óskreyttra kvenna. Auk þess hata ég alla samkeppni þar sem ég sjálfur er þátttakandi.

Vendetta, 2.6.2010 kl. 21:30

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Haraldur

Mikill  hárvöxtur og liðaður hefur löngum þótt prýði djarfra og hugprúðra herra.

Vendetta

Álit mitt á Hollywood fólkinu er álíka mikið og þitt. Ég vildi benda á það því mörgum finnst slíkt fólk fagurt og öfundsvert.

Baráttan um maka tekur á sig margar myndir. Hjá okkar tegund er kröftugt sæði kostur, þó ekki sé um beina samkeppni að ræða. Sæðið okkar þarf hins vegar ekki að synda 50 cm eða meira í opnu hafi.

Samkeppni okkar um kvenhylli og aðdáun sambræðra okkar fer fram á marga vegu með skreytingum (eins og hári Haraldar, eða aukanöflunum mínum), aukabúnaði (jakkafötum, jeppum, þyrlum, og fleiri dauðum hlutum) eða orðsnilld (fagurgala, spaugi eða blöndu af hvorutveggja).

Ég held þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af því að skreytingar þínar fari í súginn. Við karlpeningurinn höfum greinilega fegurðarskyn, og XX berandi meðlimir tegundarinnar eru fjarska duglegar að hafa sig til.

Arnar Pálsson, 3.6.2010 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband