Leita í fréttum mbl.is

Líf með hvítabjörnum

Hið íslenska náttúrufræðifélag stendur fyrir röð fræðsluerinda. Næsta erindi heitir "Komur hvítabjarna til Íslands á undanförnum árum. Hvernig brugðumst við þeim? Hvað höfum við lært?“ og verður flutt af Dr. Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Erindið verður síðdegis (mánudaginn 25. október) kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju*, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Ágripið.
Í júnímánuði árið 2008 gengu tveir hvítabirnir á land í Skagafirði og sá þriðji gekk á land í Þistilfirði í janúar árið 2010. Sá fyrri sem gekk á land í Skagafirði sást fyrst við Miðmundarfjall við Þverárfjallsveg þann 3. júní og sá síðari þann 16. júní við bæinn Hraun II á utanverðum Skaga. Hvítabjörninn sem gekk á land í Þistilfirði sást fyrst við bæinn Sævarland 27. janúar. Í öllum þessum tilfellum voru birnirnir í miklu návígi við fólk. Þessar hvítabjarnarkomur vöktu mikla athygli og oft hörð viðbrögð bæði innanlands og utan, kannski ekki síst vegna þess að dýrin voru öll felld. Rétt um 20 ár voru liðin síðan hvítabjörn gekk síðast á land á Íslandi í Haganesvík í Fljótum í Skagafirði árið 1988. Sá björn var einnig felldur. Frá því að fyrsti hvítabjörninn kom á land árið 2008 hefur farið fram mikil umræða á Íslandi um viðbrögð vegna komu þeirra og hvernig við eigum að bregðast við. Í því máli eru mjög skiptar skoðanir. Umhverfisráðherra skipaði starfshóp sem fór yfir viðbrögð vegna landgöngu hvítabjarna fljótlega eftir að síðari björninn kom til landsins 2008. Niðurstaða starfshópsins, sem byggð er á áliti 16 innlendra og erlendra sérfræðinga á sviði hvítabjarnarfræða, er að skynsamlegast sé að fella þá hvítabirni sem til landsins koma miðað við öryggissjónarmið, stofnstærðarsjónarmið og kostnað við björgunaraðgerðir. Í dag eru í gildi lög frá árinu 1994 þar sem hvítabirnir eru friðaðir á Íslandi og er lagt bann við veiðum á hvítabjörnum á sundi eða á hafís. Heimilt er þó í þeim lögum að fella hvítabirni ef þeir ógna fólki eða búfénaði. Til þess að framfylgja niðurstöðu starfshópsins þarf því að breyta lögunum.
Í fyrirlestrinum mun Þorsteinn fara yfir atburðarásina í tengslum við komu hvítabjarnanna til landsins og aðkomu starfsmanna Náttúrustofu Norðurlands vestra að henni. Hann mun einnig fjalla um ástand hvítabjarnanna og velta upp nokkrum spurningum um framtíð þessara mála hér á landi.

Sjá einnig pistil um uppruna hvítabjarna: Ísbirnir og pöndur að fornu og nýju


mbl.is Viðbrögð við komu hvítabjarna rædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband