Leita í fréttum mbl.is

Það hófst allt með frumdýri...

Elisabeth Blackburn velti fyrir sér hvernig litningaendar eru eiginlega varðveittir í frumum við skiptingar. Það leiddi hana að frumdýrinu Tetrahymena sem er einnar frumu lífvera með mikinn rekstur. Þessi frumdýr eru í raun þykjustu fjölfrumungar. Þeir eru með tvo kjarna, annar er með eðlilegt sett af genum frá báðum foreldrum á stórum og heilbrigðum litningum. Þessi kjarni (svokallaði litli kjarni - micronuclei) er varðveittur þangað til litla frumdýrið finnur sér lífsförunaut (eða skammtímaást). Hinn kjarninn er aftur á móti mjög undarlegur. Í honum má finna mörg, mörg afrit af hverju einasta geni frumdýrsins, og litningarir eru allir brotnir upp. Það þýðir að í þessum stórkjarna (macronucleii) eru ótrúlega margir litningaendar.

378px-Tetrahymena_thermophilaTetrahymena thermophila af wikimedia commons.

Þess vegna fór Elisabeth Blackburn að leita að þáttum sem gátu varið litningaendanna í stórkjörnum frumdýrsins. Og hún uppskar telómerasa, flóka ensíms og RNA sameindar, sem getur bætt við litningaenda og komið í veg fyrir að þeir styttist við hverja skiptingu (sjá lýsingu á vandamálinu í Galsi og eilíft líf).

Hún hlaut einnig nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2009, ásamt samstarfsmönnum sínum Carol W. Greider og Jack W. Szostak.

Litningaendar tengjast öldrun - ef þeir verða of stuttir eyðileggjast mikilvæg gen og litningarnir verða óstöðugir. Þeir tengjast einnig krabbameinum, algengt er að sjá of langa litningaenda í krabbameinsfrumum. Einnig sýndu Þórunn Rafnar og félagar hjá decode að breytileiki í telomerasa hefur áhrif á líkurnar á nokkrum gerðum krabbameina:

Önnur af þeim tveim stökkbreytingum sem fundust á þessu svæði er í TERT geninu, sem skráir fyrir víxlrita ensímflókans telomerasa. Eins og við höfum rætt áður er telomerasi nauðsynlegur fyrir viðhald litningaenda og líklega sem slíkur fyrir stöðugleika erfðamengisins (Urður, verðandi og skuld).

Elisabeth mun halda fyrirlestur á afmælisári HÍ á næsta ári. Hún er öndvegis fyrirlesari, skýr með notalegan talanda og framsetningu. Rannsóknirnar eru fyrsta flokks og spurningarnar stærri en lífið sjálft...eða næstum því.

Aukalega:

Ef grant er að gáð eru fréttir mbl.is og dv.is snarpar þýðingar á frétt the Guardian. Slík vinnubrögð sleppa kannski þegar verið er að fræða fólk um fjölda marka í fótboltaleik, en stundum skolast vísindin til í meðförum fréttamanna sbr. (Þýðingarþjónusta mbl.is) sem fjallar einmitt...um litningaenda og telómerasa.

Ítarefni:

The Guardian Ian Sample 28 nóvember 2010.Harvard scientists reverse the ageing process in mice – now for humans

Um nóbelsverðlaunin 2009 - CCCCAA


mbl.is Snúa við öldrun í músum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Góð umfjöllun hjá þér Arnar - eins og alltaf! Ég hlakka mikið til komu nóbelsverðlaunahafans Elisabeth Blackburn til Íslands í vor og ekki spillir fyrir að músarannsóknin sem hér er fjallað um er runnin undan rifum Ronald DePinho sem er aðalhöfundur Nature greinar frá 2000 sem markaði upphafið að doktorsnámi mínu og þeim rannsóknum sem ég stunda nú ;o)

Sigríður Klara Böðvarsdóttir, 30.11.2010 kl. 12:11

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Sigga

Það verður gaman að sjá Elisabeth flytja erindið sitt.

Ég veit ekkert um þennan Ronald, en stúdían er forvitnileg. 

Arnar Pálsson, 30.11.2010 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband