Leita í fréttum mbl.is

Umfjöllun um erfðabreyttar plöntur í sjónvarpinu

Erfðabreyttar plöntur eru komnar aftur í umræðuna, vegna þingsályktunartillögu sem hefst á þessum orðum "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum eigi síðar en 1. janúar 2012."

Þrjátíu og sjö erfðafræðingar hafa lagst gegn þessari þingsályktunartillögu, m.a. vegna þess hversu illa rökstudd hún er, sbr. Athugasemd til Alþingis. 

Kastljós tók málið fyrir í gær (14. febrúar 2010) og ræddi við Hákon Már Oddsson* sem er, ef mínar heimildir eru réttar, einn forkólfa vefsíðunnar www.erfdabreytt.net. Þóra Arnórsdóttir ræddi við hann og er sjón sögu ríkari. Hann m.a. vænir vísindamenn við Landbúnaðarháskólann um ófagleg vinnubrögð og líkir vísindamönnum við viðskiptaskólamenntaða hrunverja.

Það er skemmtileg tilviljun að sama kvöld var fjallað um ORF líftækni í þætti Ara Trausta um íslensk vísindi (Þáttinn má nálgast á vef RUV - Nýsköpun íslensk vísindi).

Viðbót 16. febrúar 2011. Mér finnst Ari komast ónákvæmlega að orði, þegar hann segir að niðurstöður bendi til að EGF droparnir frá SIF cosmetics virki vel. Ég veit ekki um neinar formlegar rannsóknir á þessum dropum, aðeins samantektir um "upplifun" kúnnanna og hefðbundnar staðhæfingar fallegs fólks í auglýsingabæklingum.

*Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistilsins var Hákon Már gerður Hauksson. Velvirðingar er beðist á þessum mistökum. Bestu þakkir til Aðalsteins Sigurgeirssonar sem benti á skyssuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, þetta var dálítið kostulegt viðtal við kvikmyndagerðarmanninn. Skólabókardæmi um mann sem skilur ekki alveg hvernig vísindi virka.

Við munum spjalla við Eirík Steingrímsson (að öllum líkindum) í Vísindaþættinum á þriðjudaginn í næstu viku.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 15.2.2011 kl. 14:33

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Sævar

Það er leiðinlegt að fólk skuli vera svona smeykt við þessa nýju tækni, því hún hefur margt gott til brunns að bera.

Gaman að heyra að Eiríkur Steingrímsson verði mögulega gestur vísindaþáttarins, vinsamlegast láttu mig vita ef af verður.

Arnar Pálsson, 15.2.2011 kl. 16:51

3 Smámynd: Kristján Bjarni Guðmundsson

Ég er ekkert sérstaklega á móti erfðabreytingu, hinsvegar verður að hafa í huga að ef útiræktun verður leyfð er óhjákvæmilegt að erfðabreytta byggið muni á endanum annaðhvort krossvíxlast við venjulegt bygg eða dreifa sér á fleiri staði og það er eitthvað sem verður ómögulegt að taka til baka. Það þarf ekki að vera slæmt þótt allt bygg á íslandi verði á endanum með erfðabreytt gen, en það þarf allavega að vera nokkuð ljóst að það munu verða afleiðingarnar.

Kristján Bjarni Guðmundsson, 15.2.2011 kl. 23:54

4 identicon

Það er ekki óhjákvæmilegt Kristján.

Það er í fyrsta lagi ekki mikil hætta á að byggið krossvíxlist, því bygg er aðallega sjálffrjógvandi planta og ef það er ekki ræktað við hliðina á venjulegu byggi ætti hættan að vera lítil.

Í öðru lagi er planið hjá ORF að slá byggið áður en fræinn ná fullum þroska og því er lítil hætta á að það sái sér annarsstaðar. Auk þess ef það nær að sá sér er bygg á mörkum útbreiðslusvæðis síns og því litlar líkur á að það nái að vaxa villt.

Ef svo ólíklega vildi til að byggið blandaðist er auðvelt að ganga úr skugga um það með einföldu PCR-hvarfi hvort að plantan innihaldi erfðabreytingu eða ekki. Það er því hægt að velja plöntur sem eru með erfðabreytinguna úr.

Jóhannes (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 10:12

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Heldur yfirvegaðri umfjöllun í kastljósinu í gær (16. feb.) um þetta efni. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu...

Haraldur Rafn Ingvason, 16.2.2011 kl. 10:55

6 Smámynd: Kristján Bjarni Guðmundsson

@Jóhannes

Að segja að það sé ekki mikil hætta á krossvíxli þýðir einmitt að það er einhver hætta á því, og eftir því sem lengri tími líður því meira aukast líkurnar.

Vandamálið er að ef einhver gerir mistök einhverstaðar í ferlinu, t.d. að ekki er slegið á réttum tíma eða dýr komast í uppskeruna þá er skaðinn skeður.

Þessi umræða minnir mig dálítið á minkabúin. Þar var haldið á sínum tíma að lítlar líkur væru á að minkur gæti sloppið út, fjölgað sér og þrífist á Íslandi.

Kristján Bjarni Guðmundsson, 16.2.2011 kl. 12:58

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Kristján

Tilraun vísindamannanna við Landbúnaðarháskólann (Jónatan Hermansson og félagar IAS 2010) var þannig háttað að þeir reyndu að hámarka líkurnar á víxlun á milli afbrigða, fjarlægð milli plantna var mjög stutt og þær ræktaðar við kjöraðstæður.

Samt voru þær ákaflega óalgengar (0.0003%).

Með því að rækta erfðabreytta byggið í meira en 100 metra fjarlægð  frá öðru byggi, ættu líkurnar því að vera hverfandi.

Eftir því sem ég kemst næst ætlar ORF að skera kornið áður en það nær fullum þroska. Ófullþroskað korn getur ekki fjölgað sér.

Þetta er ekki hliðstætt við minkaræktun. Minkur er rándýr sem á sér ekki náttúrulega óvini hérlendis. Bygg er viðkvæm kornplanta sem þarfnast hjálpar mannsis við að fjölga sér. Ef svo ólíklega vildi til að krossvíxl yrðu, þá væri auðvelt að eyða erfðabreytta bygginu.

Annars þætti mér gaman að vita hvað þú telur svona hættulegt við erfðabreytt bygg? Er það hættulegt í sjálfu sér, eða er um eitthvað annað að ræða?

Arnar Pálsson, 16.2.2011 kl. 13:31

8 identicon

Varðar: "Kastljós tók málið fyrir í gær (14. febrúar 2010) og ræddi við Hauk Má Hákonarson sem er, ef mínar heimildir eru réttar, einn forkólfa vefsíðunnar www.erfdabreytt.net."

Það er kannski aukaatriði, en hann heitir Hákon Már Oddsson og er hann háskólakennari (við lista- og fjölmiðlasvið Listaháskóla Íslands).

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 19:26

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk kærlega fyrir Aðalsteinn, þetta var óheppileg skyssa af minni hálfu. Ég leiðrétti þetta í pistlinum.

Arnar Pálsson, 21.2.2011 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband