Leita í fréttum mbl.is

Klónun og tvífeðra börn

Fyrir 12 árum, þegar kindin Dolly var kynnt til sögunnar var ég fenginn til að taka þátt í samdrykkju á vegum líffræðinema, guðfræðinema og heimspekinema um klónun. Það var kveikjan að grein sem ég birti í morgunblaðinu árið eftir (31. maí 1998), sem hófst á þessa leið.

Í Febrúar 1997 komst gimbrin Dollý í heimsfréttirnar sakir sérstæðs ætternis. Hún varð ekki til við kynæxlun heldur var hún einræktuð úr kindajúgri. Í kjölfarið varð einræktun (klónun) umræðuefni allra hugsandi manna, segir Arnar Pálsson . Upp kom spurningin um hvort mögulegt væri að einrækta manneskjur en sú umræða var oft óraunsæ. Auk þess hafa dunið yfir óljósar fréttir af klónuðum öpum, erfðabreyttum búfénaði og hauslausum froskum. Þetta hefur vakið óhug meðal fólks gagnvart öllu "erfðakukli". Ótti getur magnast vegna þekkingarskorts, sem þessi grein bætir vonandi úr.

Nú rétt fyrir áramót fékk nokkrar spurningar frá lesendum vísindavefsins um klónun til úrlausnar. Bútar úr tveimur svörum birtast hér:

Er hægt að klóna manneskju?

Er hægt að taka kjarna úr tveimur sáðfrumum, setja í tóma eggfrumu og búa þannig til einstakling úr tveimur karlmönnum?

Í náttúrunni eru hins vegar þekkt dæmi um að tvær sæðisfrumur geti frjóvgað eitt egg. Árið 2007 fæddust tvíburar, einn drengur og einstaklingur með óþroskuð kynfæri. Erfðapróf sýndu að þeir höfðu erft sama erfðamengi frá móður, en fengið tvö sett frá föður. Einstaklingarnir voru vefja-blendingar (e. chimera), því erfðasamsetning húðarinnar (og líklega líkamans alls) var mismunandi eftir líkamshlutum. Slíkir hálf-tvíburar (e. Sesquizygotic twins) eru mjög sjaldgæfir en þeir eru svo sannarlega tvífeðra.

Ef eineggja tvíburarsystur eiga börn með eineggja tvíburabræðrum, verða börnin þá alveg eins?

Því er mjög ólíklegt að afkvæmi eineggja tvíburabræðra með eineggja tvíbura systrum verði erfðafræðilega eins. Skyldleiki barnanna verður hins vegar meiri en gengur og gerist hjá einstaklingum í annarri kynslóð. Þau verða jafn skyld og venjuleg systkini.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hvaða siðferðisrök, ef nokkur, að þínu persónulega mati Arnar, mæla gegn einræktun manna og eru svo sterk að það ætti að taka tillit til þeirra.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.2.2011 kl. 09:17

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Svanur

Almennt er skírskotað til réttinda einstaklinga, þ.e. að einstaklingar (líka klónar) eru með sömu réttindi, og þess að ekki megi gera tilraunir á mönnum nema líf liggi við. Þar sem klónun er bara tilbrigði af æxlun, og að æxlun mannfólks virðist ganga fullvel (við nálgumst nú 7 milljarðana), er ekki talin þörf á að þróa þessar aðferðir til að fjölga fólki.

Aðferðirnar sem um ræðir eru ekki skilvirkar - í tilfelli Dollýar þá voru sett upp 29 fósturvísar (frjóvguð egg sem voru farin að skipta sér) en einungis einn þeirra komst heill á leiðarenda. Fósturlát urðu m.a. vegna alvarlegra galla. Það er ekki talið ásættanlegt að búa til mannfólk með svo áhættusömum aðferðum.

Hugmynd hefur einnig komið upp um að nota einræktun í læknisfræðilegum tilgangi, rækta upp fóstur af ákveðinni arfgerð (úr kjarna frá tilteknum sjúklingi) sem yrði notað sem líffæragjafi fyrir sjúklinginn. Þessu er almennt hafnað á þeirri forsendu að ótækt sé að búa til einstakling til þess að fórna honum fyrir annan (sjá umfjöllun um einræktun í læknisfræðilegum tilgangi. Hverjir eru kostir og gallar klónunar? eftir Bryndísi Valsdóttur)

Arnar Pálsson, 22.2.2011 kl. 10:17

3 Smámynd: Rebekka

Þetta með að einrækta fólk til að gera það að líffæragjöfum hefur einmitt verið aðalsöguefni í a.m.k. tvær myndir, svo ég muni til:  The Island og Never Let Me Go.  Mér fannst þær líka báðar frekar svartsýnar á framtíðina, enda þarf mikið samviskuleysi til að rækta fólk sem varahluti.

Rebekka, 22.2.2011 kl. 17:30

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Rebekka

Ég hef reyndar hvoruga séð, en almennt er fólk frekar svartsýnt á þennan möguleika. Það er samt flötur á þessu, nú er rætt um að nota fósturvísa til að búa til stofnfrumur. Kannski einhver myndi vilja búa til klónaðan fósturvísi og ná úr honum stofnfrumum á 10 degi þroskunar eða fyrsta mánuði? Það er innan marka sem eru álitin ásættanleg hvað varðar fóstureyðingar....

Ég held að þetta sé stór grár völlur og mismunandi hvar fólk er tilbúið að draga línuna.

Arnar Pálsson, 23.2.2011 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband