Leita í fréttum mbl.is

Lífríki Íslands og leyndardómar frumunar

Í tilefni aldarafmæli HÍ stendur líf og umhverfisvísindadeild skólans fyrir nokkrum uppákomum. Í dag (12. apríl 2011) munu framhaldsnemar kynna rannsóknir sínar ásamt nemendum í jarðvísindum. Boðið verður upp á stutta fyrirlestra, nemendur koma með viðfangsefni sín, krabba, frumur, gen, kort, öskusýni, grjót, setlagakjarna og tölvuforrit og ræða við gesti og gangandi um rannsóknir í líffræði, landfræði, ferðamálafræði og jarðfræði. Dagskráin stendur frá 16:00 til 19:00 í Öskju, náttúrufræðahúsii HÍ. Sjá nánar á vef HÍ.

kl 16-17 fyrirlestrar í jarðfræði:
Rannsóknir við Múlajökul, bergfræði og jarðfræðikortlagning á Melrakkasléttu

kl 17-18 fyrirlestrar í líffræði:
Stofnfrumur, "elstu Íslendingarnir" - grunnvatnsmarflærnar, svif í Breiðafirði og þroskun bleikjuafbrigða.

kl 18-19 fyrirlestrar í land-  og ferðamálafræði:
Umferðarmenning, íslenska landslagshugtakið, greining landslags í skipulagsvinnu á Íslandi og sjálfbær þróun.

Á morgun verða síðan fyrirlestrar um rannsóknir á lífríki Íslands (frá kl 16:30 og 18:00, í Öskju). Þá munu Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jörundur Svavarsson og Arnþór Garðarsson fjalla um hina mismunandi þætti lífríkis lands og sjávar. Fyrirlestrarnir eru stílaðir á almenning og verða ríkulega myndskreyttir.

Jörundur Svavarsson greinir frá lífríki sjávar, en hann hefur stundað rannsóknir á lífríki sjávar um árabil og m.a. unnið við og skipulagt hið alþjóðlega BIOICE verkefni sem kortlagði tegundir botndýra og útbreiðslu þeirra á Íslandsmiðum.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjallar um gróðurfar en hún hefur unnið að rannsóknum í grasa- og umhverfisfræðum og nýlega rannsakað gróðurframvindu á Skeiðarársandi.

Í fyrirlestri sínum mun Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, fjalla um sjófuglastofna, tilvist þeirra og aðferðir til að rannsaka þá og tryggja framtíð þeirra, en um fjórðungur allra sjófugla í Norðaustur-Atlantshafi á heima á Íslandi og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims, sérstaklega á Hornströndum, í Látrabjargi og Vestmannaeyjum.

Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild heldur fyrirlestur í hádeginu 13. apríl, (kl. 12:30) um það hvernig hægt er að virkja náttúrulegt ónæmi gegn sýklum.

Eðlilegt jafnvægi milli hýsils og örveruflóru er nauðsynlegt fyrir heilsu manna og dýra. Örverudrepandi peptíð frá þekjufrumum hýsilsins eru lykilþættir í þessu jafnvægi. Peptíðin eru hluti af okkar náttúrulegu vörnum og í raun fyrstu virku varnirnar sem örverur mæta. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þetta einstaka varnarkerfi og mikilvægi þess. Einnig verður bent á leiðir um hvernig nýta má þetta varnarkerfi til að verjast sýkingum.

Einnig mun Ólafur S. Andrésson, prófessor í erfðafræði halda fyrirlestur á föstudaginn í Málstofu í efnafræði og lífefnafræði (kl 12:30, stofa 158, VR-II, Háskóli Íslands). Hann fjallar um rannsóknir á erfðamengi fléttu, sem er forvitnileg frá vistfræðilegu sjónarmiði, gæti reynst hagnýt fyrir lyfjaiðnað og er mjög athyglisverð fyrir sameindaerfðafræðina. Úr tölvupósti:

Fléttur af ættkvíslinni Peltigera eru útbreiddar á íslandi og víðar og hafa verið rannsakaðar á ýmsavegu. Við höfum nú raðgreint erfðaefni fléttanna P. membranacea (himnuskóf) og P. malacea (mattaskóf) beint úr náttúrunni. Með þessar upplýsingar í hendi er hægt að leita svara við margvíslegum spurningum varðandi aðlögun að samlífi, sérhæfingu, þróun og breytileika o.s.frv. Viðbótargögn fengin með raðgreiningu á mRNAi og greiningu á metýleringu erfðaefnisins veita enn frekari möguleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband