Leita í fréttum mbl.is

Mannapar gera tilraunir á öpum

Við höfum mikinn áhuga á ættingjum okkar. Ættmæður nærast á fréttum af afkomendum sínum, fylgjast með þroska þeirra og viðgangi af miklum áhuga. Mannfólk hefur einnig áhuga á fjarskyldari ættingjum, eins og simpönsum, górillum og makakíöpum. Charles Darwin var einn þeirra fyrstu sem dró hliðstæður á milli atferlis mannapa og manna. Í dýragarðinum í Kaupmannahöfn er spegill á vegnum við hliðina á simpansabúrinu, þar sem við getum virt fyrir okkur tvær mannapategundir í einu. Í Brookfield dýragarðinum í Chicago er handaförum manns og górillu still upp hlið við hlið.

Vitanlega er töluverður munur á mönnum og mannöpum, öpum og apaköttum. Okkur verður tíðrætt um vitsmuni og áhaldanotkun, hendur og tvær fætur, nekt og samfélagsgerð. Einn eiginleiki kann að vera mannfólinu einstakur, það er samkennd (empathy). Við finnum til samkenndar með öðru fólki, ímynduðum persónum í bókum eða kvikmyndum og jafnvel þjáðum dýrum. Eins og Robert Sapolsky benti á, þá finnum við jafnvel til með kvöldu hrossi, jafnvel þótt það hafi verið fest á striga í túlkun Pablos Picasso (sjá mynd). Mest selda bókin á the Guardian þessa vikuna er Zero Degrees of Empathy: A new theory of human cruelty eftir Simon Baron-Cohen, sem fjallar um samkennd og hvað gerist þegar hana vantar.

guernica1.jpg

Flest okkar finnum til samkenndar með öpum, en við gerum samt tilraunir á þeim. Líffræðingar og læknar vita að apakettir og mannapar eru gagnleg tilraunadýr. Mýs og ávaxtaflugur eru ágæt til síns brúks, en líffræði þeirra er töluvert frábrugðin okkar. Það getur skipt megin máli þegar rannsaka á t.d. þroskun hjartans eða viðbrögð við sýkingu. Makakíapar voru t.d. lengi notaðir sem líkan fyrir HIV sýkingar, en þegar erfðamengi þeirra var raðgreint kom í ljós að þeir búa yfir fjölbreyttara ónæmiskerfi en við (og er því líklega óheppilegt líkan).

Vera má að lífeðlisfræði og næringarbúskapur makakíapa sé líkur okkar. Allavega vonar maður það, svo að kúrinn sem Mario, Hoopa Troopa og félagar voru settir á (Látnir apa eftir offitusjúklingum) skili niðurstöðum að gagni. Kevin Grove og félagar hafa rannsakað þessa apa í dálítin tíma og fengið nokkrar vísbendingar um neikvæð áhrif nútíma lífstíls. Þeir sáu meðal annars breytingar á blóðflæði í kringum legið, sem virðist leiða til hærri tíðni andvana fæddra unga. Greg Gibson leggur út frá svipaðri hugsun í bók sinni It takes a genome - þ.e. að við breytingar á umhverfi nútímamannsis hafi erfðamengi okkar lent í annarlegum aðstæðum og duldir genagallar komi í ljós (Það þarf erfðamengi til).

Við höfum vitanlega meðhöndlað dýr á margvíslega vegu, drepið flestar tegundir á jörðinni til átu eða sem skraut, alið hunda til þjónustu og húsdýr til átu. Í nafni vísindanna höfum við klætt rottur í nærbuxur, hlutað sundur froska og mýs, flutt frumur á milli salamandra, erfðabreytt músum, eitrað fyrir dýrum á marga vegu (í nafni eiturefnafræðinnar eða snyrtivöruframleiðslu). Stundum lenda lífverur í framandi aðstæðum, vegna aðstæðna sem við setjum þær í. Guðmundur Pálsson (Rás 2) segir m.a. í minningu um mannapann Karl sem dó fyrir nokkru:

Sjimpansinn Karl var frægur. Heimsfrægur jafnvel. Hann lék vitaskuld allskyns apakúnstir eins og sjimpansa er siður  en frægastur var hann fyrir þann ósið að reykja sígarettur. Fjöldi fólks, þúsundir manna á ári, heimsóttu  dýragarðinn í Blomfontein í Suður Afríku, gagngert til að bjóða Karli smók. Þá kveiktu gestir dýragarðsins í  sígarettum, fleygðu þeim til Karls og fylgdust með honum reykja hverja sígarettuna á fætur annarri.

Það er ekki grundvallarmunur á örlögum Maríós og Karls. Báðir eru frændur okkar, og við erum ábyrg á örlögum þeirra. Í einu tilfelli eru vísindamenn ábyrgir - og réttlæta gjörðir sínar með leit að þekkingunni, og sofna með góðri. Í hinu gerum við ekki neitt - borgum okkur inn í dýragarðinn, kaupum popp og sofnum með góða samvisku. Þótt samkenndin sé mikilvæg, er augljóst að hún er ekki algild. Því annars myndum við vafra um í sársauka, sem við myndum upplifa í gegnum samkennd með þjáningum og dauða allra þeirra lífvera sem byggja jörðina.

Ítarefni:

Af þessu tilefni mæli ég sérstaklega með pistlum Guðmundar Pálssonar um apa, Apaglöggir makakíapar, Minning um mannapa, og Ill meðferð á öpum.

Frias AE, o.fl. Maternal High-Fat Diet Disturbs Uteroplacental Hemodynamics and Increases the Frequency of Stillbirth in a Nonhuman Primate Model of Excess Nutrition. Endocrinology. 2011 Mar 29. [Epub ahead of print]

Það þarf erfðamengi til

 


mbl.is Látnir apa eftir offitusjúklingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Mannskeppnan hefur ekki enn náð þeim þroska að kenna samkennd með hverjum öðrum, svo það er langt í að maðurinn finni til samkenndar með dýrum. Alvöru samkennd mun líklegast vera það sem leysir flest vandamál á jörðinni. það er langt í það enn...

Óskar Arnórsson, 16.4.2011 kl. 20:46

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Vera má að við gætum yfirstigið heilmörg vandamál með því að þroska samkenndina frekar, en við höfum samt komið langan vegl. Við finnum til meiri samkenndar en þekkt er í dýraríkinu.

En of mikil samkennd gæti einnig orðið okkur fjötur um fót, sbr. niðurlag pistilsins. Ef maður fyndi til samkenndar með öllum lifandi verum, gæti maður ekki nærst eða stolið súrefni frá öðrum dýrum með því að anda.

Arnar Pálsson, 18.4.2011 kl. 14:31

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Já, ég held ég hafi skilið þennan frábæra pistil þinn rétt. Þegar ég meina samkennd þá er átt við að maðurinn geti verið í sterkum tengingum við allt lifandi, enn étið sig saddan á sama hátt og hann gerir núna.

Ég geng út frá því að maðurinn sé yfir öll dýr hafin, noti þau fyrir mat og allt mögulegt, borði grænmetu og plöntur, enn geti fundið til samkenndar samtímis. Samkennd er ekki endilega að maður geti ekki borðað dýr sem maður finni samkennd með.

Samkennd með nátturinni og öllu lífi er líka hægt að kalla lotningu, virðingu eða eitthvað í þeim dúr...alla vega ekta lifandi tilfinning fyrir öllu sem hrærist á jörðinni...ég held að sú tegund verði aldrei vandamál. Heldur þvert á móti..

Óskar Arnórsson, 18.4.2011 kl. 16:35

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Óskar

Samkennd með nátturinni og öllu lífi er líka hægt að kalla lotningu, virðingu eða eitthvað í þeim dúr...alla vega ekta lifandi tilfinning fyrir öllu sem hrærist á jörðinni...ég held að sú tegund verði aldrei vandamál. Heldur þvert á móti.

Þessi samkennd eða lotning er sannarlega sterk tilfinning, sem margir hugsuðir hafa ígrundað og ættbálkar lifað eftir. Tek undir að það sé líklega óheppilegt ef fólk missir tengsl við náttúruna, eða lifir í þeirri meiningu að náttúran sé þeim á einhvern hátt óviðkomandi.

Í þessu samhengi varð mér hugsað til skilgreiningar Ed Wilson á orðinu biophilia (sem var einmitt orð dagsins á vef Merriam-Webster 16. apríl síðastliðinn), skv. Wilson

the rich, natural pleasure that comes from being surrounded by living organisms

Slík upplifun er sannarlega rómantísk í eðli sínu en engu að síður raunveruleg, rétt eins og rómantísk ást er efnafræðilegur raunveruleiki (og oft nauðsynlegur hjálparkokkur í fjölgun mannvera). Samkennd með lífverum og náttúrunni gæti hjálpað okkur að forgangsraða, t.d. vali á lifnaðarháttum og nýtingu okkar á auðlindum jarðar.

Arnar Pálsson, 18.4.2011 kl. 17:44

5 identicon

Góður punktar. Þó maðurinn geti fundið samkennd með blýanti sem heitir Jón og er brotinn í tvennt, þá hefur maðurinn þann einstaka hæfileika að vera alveg sama um og loka á samkennd með öðrum lífverum þegar honum hentar.

Eftir því sem ég læri meira í líffræði því meira skammast ég mín fyrir mannkynið.

Vistfræðilega séð erum við að skemma svo margt á plánetunni, valda óbætanlegum skaða.

Dæmi um hversu ömurleg tegund við erum má sjá hvernig við komum fram við aðrar lífverur, er t.d. factory farming í USA http://meatvideo.com

Svo fór ég að hugsa um pólítík í Bandaríkjunum, því ég fór að gá hvort það væri ekki verið að banna þessar illu aðferðir (eins og það er búið að banna að gelda gríslinga með því að einfaldlega rífa eistun á þeim út núna í byrjun apríl - það verður málþing um aðbúnað dýra í íslenskum landbúnaði á morgun, jei! http://www.natturan.is/frettir/6349/ ).

En það gengur víst mjög hægt að breyta því vegna þess að "the agribusiness" beitir sér fyrir því að komast hjá því, allt til að græða. Endalaus spilling. Það er reyndar alls staðar ómögulegt fólk við stjórnvölinn. Svona fór þetta koll af kolli þangað til að mér fannst nærtækasta og besta "lausnin" til að koma í veg fyrir frekara vesen af hálfu mannsins var að flýta fyrir áframhaldandi þróun manntegundarinnar í að búa til nýja tegund af manni sem myndi bæta umhverfið og laga til eftir gamla heimska homo sapiens og marg fleira,

eða bara vona að þróunin fari hraðbyri í átt að algjörum útdauða mannsins.

Hildur (IP-tala skráð) 25.4.2011 kl. 18:02

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Hildur

Áhrif okkar á lífríkið eru margvísleg og mörg þeirra slæm. Því miður fylgir þekkingu oft þjáning (í gegnum samkenndina). Ef við vitum hver staða nytjadýra er, áhrif af þungmálmagreftri fyrir farsíma á villt dýr í Kongo, aðbúnaður minka í búum og lífríkis Mexíkóflóa eftir að BP-olíuborpallurinn splundraðist, þá eigum við að geta notað þær upplýsingar til að breyta hlutunum.

A. Kjósa með buddunni - forðast fæðu, vörur og lífstíl sem leggur mikið á náttúruna.

B. Fræða aðra

C. Útrýma mannkyninu....grín.

Arnar Pálsson, 28.4.2011 kl. 09:59

7 identicon

Já, þú hefur rétt fyrir þér Arnar, maður ætti aldrei að vanmeta það að fræða aðra. Það er svona eitt það besta sem maður getur REYNT (tekst ekkert alltaf er það nokkuð? haha :D). Er voðalega háð þeim sem er verið að reyna fræða. Fólk er oft nautheimskt eða narrow minded eða bæði...

En svona að semi tengdu:

http://youtu.be/-_2xGIwQfik

Tyson við Richard Dawkins á 'Beyond belief' umræðufundi.

Hildur (IP-tala skráð) 28.4.2011 kl. 18:42

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Það er erfitt að fræða, sérstaklega þegar hlutir og viðburðir með skemmtanagildi eru í beinni samkeppni. Hvernig getur fyrirlestur um erfðatækni keppt við Steindann? Fólk villl láta skemmta sér og helst ekki þurfa að hafa of miklar áhyggjur. Það er líklega þess vegna sem umhverfismál sökkva alltaf í dægurþvaðrið.

Sagan hans Dawkins er spaugileg, og hann notaði hana til víkja sér undan spurningunni.

Arnar Pálsson, 30.4.2011 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband