Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Erfðatækni, ofurtölvur og hjartavernd

Notkun erfðatækni og ofurtölva hefur kollvarpað grunnrannsóknum í læknisfræði og líffræði. Ég mun vonandi setja saman alvöru pistil um þær framfarir bráðlega, en nú læt duga hér að auglýsa nokkra fyrirlestra og fundi á þessum nótum sem haldnir verða strax eftir páska.

Fyrst bera að nefna ráðstefnu um erfðatækni (Rannsóknir og atvinnusköpun í erfðatækni) sem samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og Samtök iðnaðarins standa fyrir. Viðfangsefnið er erfðatækni, notagildi og möguleika til atvinnusköpunar á Grand Hótel Reykjavík, 27. apríl kl. 9.00 – 12.00

Dagskrá:

    * Upphaf erfðatækninnar, Guðmundur Eggertsson, Háskóla Íslands
    * Plöntukynbætur í forstíð, nútíð og framtíð, Áslaug Helgadóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands
    * Erfðatækni í matvælaframleiðslu, Helga M. Pálsdóttir, Matvælastofnun
    * Erfðatækni í lyfjaframleiðslu, Einar Mäntylä, ORF Líftækni
    * Erfðatækni sem rannsóknatæki, Ólafur S. Andrésson, Háskóla Íslands
    * Erfðatækni og umhverfi, Arnar Pálsson, Háskóla Íslands
    * Pallborð fyrirlesara

Fundarstjóri: Þorsteinn G. Gunnarsson, KOM almannatengsl. Fundurinn er opinn og aðgangur ókeypis.  Skrá sig á fundinn.

Daginn eftir (28. apríl 2011) heldur Vilmundur Guðnason prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar yfirlitsfyrirlestur um vísindastarf Hjartaverndar í 40 ár. Erindið er hluti af Lýðheilsa – fyrr og nú - Fyrirlestrarröð Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 í þjóðminjasafninu. Úr tilkynningu:

Landsamtökin Hjartavernd voru stofnuð árið 1964. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf starfsemi sína þremur árum síðar með mjög viðtækri faraldsfræðilegri rannsókn, Hóprannsókn Hjartaverndar, þar sem áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga. Rannsóknin hefur staðið yfir í meira en 40 ár og hefur náð til rúmlega þrjátíu þúsund Íslendinga. Margar nýjar rannsóknir hafa tengst henni. Þessar rannsóknir hafa orðið grundvöllur þekkingar hérlendis á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma.

Síðdegis sama dag 28. apríl 2011 verður síðan ráðstefna um ofurtölvur á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Dagskráin stendur frá 13:00 til 18:00, í húsakynnum endurmenntunar HÍ. Úr tilkynningu (þar má sjá fulla dagskrá):

Ráðstefnan fjallar um hvernig vísindamenn í raunvísindum og verkfræði nota ofurtölvur eða tölvuþyrpingar í reiknifrekum verkefnum. Vísindamenn hafa keyrt samhliða forrit í nokkra áratugi sem hafa nýst vel greinum eins og eðlisfræði, efnafræði, veðurfræði og loftslagsfræði.  Greinar eins og jarðvísindi og lífvísindi fylgja nú fast á eftir og sjá í auknum mæli notagildi slíkrar forritunar. Í raun eru mjög margar greinar sem nýta sér ofurtölvur, þ.m.t. félagsvísindi (hagfræði) og hugvísindi (máltækni).  Á sama tíma hefur átt sér stað þó nokkur þróun aðferða í tölvunarfræði og reiknifræði til að nýta sem best ofurtölvur. Þar sem eftirspurn eftir ofurtölvum er nær óþrjótandi og keyrsla þeirra er jafnan orkufrek, hefur í þriðja lagi orðið allnokkur breyting á vélbúnaði samhliða tölva, orkunotkun þeirra og í auknum mæli litið til hagkvæms rekstrar þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband