Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Þjórsá, morgunbirta, hamir, selir og sýkimáttur

Nokkrir fyrirlestrar um líffræðileg málefni verða í höfuðborginni í þessari viku.

Fræðslufundur HÍN verður fluttur í dag, mánudaginn 2. maí 2011 (kl 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ). Erindi Magnúsar Jóhannssonar vatnalíffræðings heitir fiskstofnar Þjórsár og göngur þeirra

Þjórsá er annað vatnsmesta vatnsfall landsins á eftir Ölfusá. Í Þjórsá lifa allar þær fisktegundir sem algengar eru í fersku vatni á Íslandi, þ.e. lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Lax og urriði eru ríkjandi tegundir laxfiska í Þjórsá. 

Dr. Josephine Arendt, prófessor emeritus við Rannnsóknasetur um lífklukkuna við Heilbrigðis- og læknavísindasvið Háskólans í Surrey flytur fyrirlestur um Mikilvægi morgunbirtunnar, dægursveiflur og melatónín í stofu 132 í Öskju miðvikudaginn 4. maí kl. 12:00. Úr auglýsingu:

Virkni lífklukkunnar er taktbundin og sveiflan er lengri en 24 klst. ef engin ytri merki um tíma sólarhrings berast líkamanum (t.d. við algera einangrun). Birtan er mikilvægust til að skorða dægursveiflurnar við 24 klst. langan sólarhringinn og birtan þarf að vera nægilega sterk og af réttri bylgjulengd. En mestu máli skiptir hvenær dagsins birtan er ríkjandi. Hormónið melatónín sveiflast og hefur hæst gildi um miðja nótt, þegar eðlilegar aðstæður ríkja, þ.e. vaka á daginn og svefn að nóttu. Með hliðsjón af hormónastyrknum má afla upplýsinga um hvernig lýsing hefur áhrif á dægursveiflurnar. Þegar melatónínstyrkurinn eykst síðla kvölds, veldur sterk lýsing seinkun lífklukkunnar, en að morgni þegar styrkurinn fellur að ný hefur lýsing áhrif til að flýta klukkunni. 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindi sitt  Saga geirfuglsins á Hrafnaþingi seinna sama dag, kl. 15:15 í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ (sjá kort).

Í fyrirlestrinum mun Kristinn Haukur rekja sögu geirfugl[s]ins hér á landi og segja frá uppsetta fuglinum sem keyptur var á uppboði í London og varðveittur er á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Föstudaginn 6. maí heldur Sandra Grön Granquist fyrirlestur á vegum líffræðistofnunar (kl 12:30, í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ).

Fyrirlesturinn mun fjalla um þær selarannsóknir sem fara fram á Selasetri Íslands, í samstarfi við Veiðimálastofnun og Háskólinn á Hólum. Rætt verður meðal annars um rannsóknir á samspil sela og ferðamanna, ásamt verkefni þar sem áhrif sela á laxfiska er rannsakað.

Seinna sama dag fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Bryndís Björnsdóttir doktorsritgerð sína „Sýkingarmáttur Moritella viscosa - seyti og samspil hýsils og sýkils“. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00. Úr tilkynningu.

Smitsjúkdómar í eldisfiski eru einn af þeim meginþáttum sem hamla arðbærni í fiskeldi. Megin markmið doktorsverkefnisins var að rannsaka sýkingarmátt bakteríunnar Moritella viscosa sem veldur vetrarsáraveiki í laxfiskum og þorski. Sjúkdómurinn herjar á eldisfisk í norðanverðu Atlantshafi og veldur miklu tjóni. Skilningur á sýkingarmætti bakteríunnar er forsenda öflugra sjúkdómsvarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband