Leita í fréttum mbl.is

Saga um fallandi sæði

Árið 1992 birtist rannsókn sem benti til þess að sæðisframleiðsla karlmanna hefði verið að dragast saman, yfir fimm áratuga skeið. Rannsóknin var birt af dönskum rannsóknarhópi, sem dró saman upplýsingar úr ýmsum áttum, þjóðum og aldursflokkum. Einnig voru aðferðirnar sem beitt var við talningu á sæði ólíkar, fyrir mismunandi gagnasett sem skoðuð voru. Þessir annmarkar köstuðu rýrð á niðurstöðuna, og rannsóknir sem í kjölfarið fylgdu voru sama marki brenndar. Sumar rannsóknir voru samhljóða þeirri fyrstu, en aðrar fundu engin merki um minni sæðisframleiðslu karlmanna á Vesturlöndum.

En niðurstaðan öðlaðist sitt eigið líf, það varð almannavitneskja að sæðisframleiðsla sé að draga saman, og allir fóru að leita að orsakavaldi (plast, eiturefni, sjónvarp, hreyfingaleysi...). Askur var ekki lengi í Paradís. Vandinn við þjóðsöguna var sá að vísindalegi grunnurinn var ótraustur, aðallega vegna áðurnefndra galla við hönnun tilraunanna.

Danski hópurinn sem birti upphaflegu rannsóknina ákvað að framkvæma vandaða langtímarannsókn. Þeir könnuðu fjölda sæðisfruma hjá nýliðum í danska hernum yfir 15 ára tímabil, alls um 5000 manns. Hópurinn var einsleitur, af svipuðum aldri og líkamlegu ástandi. Milli 15 og 30% af hverju árgangi tók þátt í rannsókninni.

Forniðurstöður, sem birtust á vef Danska heilbrigðisráðaneytisins, sýna enga breytingu í fjölda sæðisfruma á þessu tímabili. Þetta er stærsta og vandaðasta rannsókn á þessari tilgátu, og þessar fyrstu niðurstöður virðast hrekja hana.

En Embla var ekki sátt í Sandgerði. Danski hópurinn sem framkvæmdi rannsóknina var alls ekki búinn að greina gögnin. Þeir hafa ekki sent frá sér ritrýnda vísindagrein um þetta efni, einungis sent heilbrigðisráðaneytinu skýrslu (skylda vegna þess að þeir þáðu styrki frá ráðaneytinu). Vinnan við vísindagreinina hefur eitthvað tafist, og höfundarnir hafa verið tregir til að hleypa öðrum vísindamönnum í gögnin.

Ritstjórar tímaritsins Epidemiology (Faraldsfræði) samþykktu stuttan pistil um þessar forniðurstöður og birtu hann á netinu. Danski hópurinn er sannarlega ekki hrifinn af því að einhver steli niðurstöðum þeirra og birti á undan þeim. Ritstjórinn Allen Wilcox réttlætti gjörninginn í viðtali við Gina Kolata hjá New York  Times:

The journal’s editor, Dr. Allen Wilcox, said he decided to reproduce the figure from the ministry Web site because the data are so important. Yet, he wrote in the editorial, “the presentation of a few raw data on a Web site — or in a commentary — is hardly the preferred way to advance science.” But, he added, “neither is it acceptable for valuable data to be held in storage.” 

Þarna stangast á almannahagsmunir og hagsmunir rannsakandans. Hversu mikilvægar þurfa niðurstöðurnar að vera til að vísindamaðurinn gefi öllum aðgang að þeim, áður en hann hefur lokið rannsókn sinni og birt hana?

Í tilfelli gjósku úr Grímsvötnum er það augljóst, en hver er í hættu ef upplýsingar um sæðisgæði  bíða tvö ár í skúffunni?

Ítarefni:

New York Times In Update on Sperm, Data Show No Decline By GINA KOLATA Published: June 6, 2011

Trends in Sperm Counts: The Saga Continues Bonde, Jens Peter; Ramlau-Hansen, Cecilia Høst; Olsen, Jørn Epidemiology: May 27, 2011 - Volume Publish Ahead of Print - Issue - ppg doi: 10.1097/EDE.0b013e318223442c


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Almanna fé?

Jóhannes (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 21:51

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Mögulega

Eyðum við peningum skattborgaranna til að sporna við "minnkandi" sæðisframleiðslu?

Arnar Pálsson, 8.6.2011 kl. 13:00

3 identicon

Ef við styrkjum rannsóknir sem eiga að finna út hvers vegna sæðisframleiðsla sé að dragast saman.

Á ekki rannsóknafé oftast uppruna sinn hjá skattborgurunum?

Jóhannes (IP-tala skráð) 8.6.2011 kl. 15:25

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Góður punktur

Það væri gaman að vita hversu miklu fé hefur verið eytt í að rannsaka þetta "fyrirbæri" ef satt reynist.

Skv. greininni að ofan, þá hafa 1000 greinar vitnað í upprunalegu rannsóknina (1992). Spurning er hversu miklu almanna fé hefur verið eytt í þessar greinar?

Arnar Pálsson, 8.6.2011 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband