Leita í fréttum mbl.is

Svar við hræðsluáróðri

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að sérmerkja skuli allar matarafurðir sem unnar eru úr erfðabreyttum lífverum. Það finnst mér óþarfi, svona svipað og að merkja lambið eftir því hvort háls þess var skorinn af hægri eða vinstrihandar manni eða merkja kálplöntur eftir því hvort þær séu vökvaðar með plastslöngu eða stálúðara.

Einn andstæðingur erfðafbreyttra lífvera, Sandra B. Jónsson skrifaði grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni: Matvælaöryggi fórnað fyrir pólitík (7. okt. 2011) og sagði meðal annars:

Því síður getur ráðuneytið hafa vanmetið heilsufarsáhrif þess að fresta gildistöku reglugerðarinnar. Fyrir fjórum mánuðum var ráðuneytið upplýst um ritrýndar niðurstöður nýrrar tímamóta heilsufarsrannsóknar við Sherbrooke-háskólasjúkrahúsið í Quebec í Kanada sem birtust í Journal of Reproductive Toxicology. Í rannsókninni fannst Bt-eitur sem splæst er í erfðabreyttar plöntur (gegn skordýrum) í blóði þungaðra kvenna og fóstra sem þær gengu með. Niðurstaða hennar var að eitur þetta kæmi úr erfðabreyttum matvælum vegna þess að mæðurnar neyttu venjulegs kanadísks fæðis, en drjúgur hluti þess inniheldur ómerkt erfðabreytt matvæli. Erfitt er að ímynda sér sterkari vísbendingar um það heilsutjón sem erfðabreytt matvæli geta valdið neytendum – eða sterkari rök fyrir merkingum erfðabreyttra matvæla.

Þessari staðhæfingu svaraði Jón Hallsteinn Hallson í Fréttablaði dagsins í dag (20. okt 2011) Hræðsluáróður gegn erfðabreyttum matvælum:

 Þann 7. október sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Söndru B. Jónsdóttur þar sem hún skammar íslensk stjórnvöld fyrir seinagang við setningu reglugerðar um merkingar á erfðabreyttum matvælum. Til að undirstrika mikilvægi reglugerðarinnar vísar Sandra í niðurstöður sem nýverið birtust í tímaritinu Reproductive Toxicology (1) en þar er fullyrt að mælst hafi próteinið Cry1Ab í blóði hjá hópi kvenna í Kanada. Framsetning Söndru á þeim niðurstöðum er með slíkum endemum að ekki verður orða bundist og langar mig að benda á nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara.

Ég skora á fólk að lesa gagnrýni Jóns, og læt eitt dæmi úr grein hans duga hér:

Sandra telur að hér hafi verið á ferðinni „tímamóta heilsufarsrannsókn”. Hið rétta er að hér var ekki um að ræða heilsufarsrannsókn þar sem niðurstöður mælinga voru ekki tengdar við heilsufar þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni. Í greininni kemur aðeins fram að konurnar, sem sumar voru þungaðar, voru heilbrigðar við sýnatöku, að engin vandamál komu fram í fæðingu og að öll börnin voru af eðlilegri stærð. Hvernig Sandra kemst að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða heilsufarsrannsókn er mér hulin ráðgáta.

Mér þykir mikilvægt að benda á að Bt eitrið sem um ræðir er virkt gagnvart skordýrum sem herja á nytjaplöntur, eins og maís. Það hefur verið notað um áratuga skeið í hefðbundinni og lífrænni ræktun, og oft í mjög miklum mæli. Það er álitið hafa væg áhrif á hryggdýr, nema í stórum skömmtum. Með því að framleiða Bt-skordýraeitrið í plöntunni, þá þarf ekki lengur að nota jafn mikið af því og áður, og möguleg skaðleg áhrif þess á aðra náttúru væru mun minni en ella.

Ítarefni:

Bt Pesticide No Killer on Its Own, Overturning Orthodoxy

Bacillus thuringiensis


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Ég er sammála Jóni Bjarnasyni í því, að það þurfi að sérmerkja GMO-matvæli og er óhress yfir því að það hafi ekki verið gert áður. Samlíkingin við vinstri og hægri skurð er Ég vil ekki kaupa þau, einmitt vegna Bt-toxíns og annars eiturs eins og Roundup.

Ég vísa hér í þessa bloggfærslu: http://aztec.blog.is/blog/aztec/entry/1198449/ sem inniheldur hlekki á greinar um sumar þessar rannsóknir sem einmitt sýndu talsvert magn af Bt-eitri í óléttum konum og fóstrum þeirra.

Vendetta, 20.10.2011 kl. 13:08

2 Smámynd: Vendetta

Ég var of fljótur að ýta á Senda-hnappinn. Það átti að standa:

 "Samlíkingin við vinstri og hægri skurð er ekki viðeigandi. Betri samlíking væri að líkja merkingum á erfðabreyttum matvælum við merkingar um að matvæli, eldhúsáhöld eða smábarnaleikföng innihéldu blý, kvikasilfur eða phthalate-estera."

Vendetta, 20.10.2011 kl. 13:18

3 identicon

Mér finnst ekkert að því að merkja erfðabreyttar vörur og mér finnst samlíkingin hjá þér ekki í samræmi við raunveruleikan eins og samlíkingin hjá Vendetta er það ekki heldur.

Ég sem neytandi vill velja hvaða landbúnaðarstefnu ég styð. T.d. finnst mér eðlilegt að lífrænt ræktaðar vörur séu sérmerktar. Líka upprunaland vöru sé merkt. Ef ég vil t.d. sýna andúð mína gegn styrkjakerfi í íslenskum landbúnaði sniðgeng ég íslenskar vörur.

Jóhannes Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 14:20

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Ef það væri sýnt fram á að BT væri skaðlegt, þá fyndist mér í lagi að merkja matinn. Það eru niðurstöður sem sýna að blý er eitrað mönnum, en ekki niðurstöður sem segja að Bt sé eitrað mönnum.

En þá þyrfti að merkja maísinn með því hvort hann sé erfðabreyttur með BT, hvort að plantan hafi fengið BT spreyjun á vaxtarskeiði, eða ekki. 

BT sprey hefur verið notað í lífrænni ræktun, og á þá að merkja hann sérstaklega?

http://www.bt.ucsd.edu/organic_farming.html

Innihaldslýsingar á íslenskum mat eru fyrir neðan allar hellur, en miklu mun nákvæmari í bandaríkjunum.

Ástæðan fyrir sérmerkingu í EU var pólitísk í upphafi, hluti af verndarstefnu bandalagsins.

Arnar Pálsson, 20.10.2011 kl. 14:30

5 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Ég sé í sjálfu sér ekkert að því að maturinn sé merktur.

Við höfum jú í flestum tilfellum ítarlegar innihaldslýsingar á umbúðum. Að því sögðu, myndi það að sjálfsögðu ekkert stoppa mig í því að kaupa matinn.

Þetta er eins og Sigmundur Davíðsson vill fá kaloríu upplýsingar á matvæli frá skyndibitastöðum til að berjast gegn offitu. Á meðan ég tel skyndibita ekki valda offitu (frekar en bara ofát og lítil hreyfing), þá finnst mér ekkert að því að kaloríufjöldi sé gefinn upp.

En hvortveggja gefur fólkið valið. Margir vilja ekki erfðabreytt matvæli, persónulega skil ég ekki ástæðuna fyrir því, enda engin ástæða til þess að forðast þau sérstaklega. En það væri samt gott að hafa það, alveg eins og við höfum valið á milli létt og nýmjólk.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 20.10.2011 kl. 14:37

6 identicon

Mér finnst sjálfsagt að merkja uppruna sem allra flestra neysluvara. Því meiri upplýsingar því betra. Ég vil geta valið hvað ég kaupi út frá upplýsingum á vörunni. Það þarf ekki endilega að snúast um hvort varan sé hættuleg eða ekki.

Dagný (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 17:45

7 identicon

Þú virðist halda að erfðafræðilegar breytingar á lífverum séu í siðferðilegu tómarúmi.

Kannski vegna þess hvað þér þykir erfðafræðingar æðislegir?

Segðu mér nú eitt?

Þekkir þú dæmi þess að erfðafræðingar hafi þegið styrki og laun og jafnvel hlutdeild í einkaleyfum fyrirtækja?

Jóhann (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 18:41

8 identicon

Er svo sem alveg sama hvort að matur sé merktur...

Enn hvar á að stoppa?  á að merkja allann mat sem bara inniheldur viðbótarefni sem eru úr erfðabreyttum lífverum? td. soja eða á að merkja kjöt úr lífverum sem borða kannski erfðabreytt bygg, mjöl eða gras? Á að merkja öll lyf sem eru framleidd með erfðabreyttum lífverum? á að merkja tannkrem sem er með viðbættum ensímum (sem eru úr erfðabreyttum lífverum )? Á að merkja þvottaefni sem er með viðbættum ensímum (sem er algengara heldur enn fólk heldur)? Hvar ætlar fólk að stoppa að merkja?

Brynjar Örn (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 19:03

9 Smámynd: Vendetta

"á að merkja allann mat sem bara inniheldur viðbótarefni sem eru úr erfðabreyttum lífverum? td. soja eða á að merkja kjöt úr lífverum sem borða kannski erfðabreytt bygg, mjöl eða gras?" Já.

"Á að merkja öll lyf sem eru framleidd með erfðabreyttum lífverum?" Ef á að innbyrða þau, þá ætti að taka það fram í notkunarleiðbeiningunum sem alltaf fylgja. Hins vegar er ekki hægt að flokka lyf eins og matvæli. Þannig er mikilvægt að gera sér grein fyrir virkni þessara lífvera, ef þau gera meira gagn en ógagn við sjúkdóma, þá þarf ekki að hætta að skrifa upp á þau. Auk þess eru svo margar aukaverkanir tengdar öðrum aktífum efnum í lyfjum, sem líka þarf að meta m.t.t. alvarleika og tíðni vs. gagnlegri virkni lyfsins.

"á að merkja tannkrem sem er með viðbættum ensímum (sem eru úr erfðabreyttum lífverum )?" "Á að merkja þvottaefni sem er með viðbættum ensímum (sem er algengara heldur enn fólk heldur)?"   Sennilega ekki, en það fer eftir því hvort þessi sérstöku enzým ógni umhverfinu eða ekki. Athugaðu, að þetta fer út í náttúruna með skolvatninu og eins og allir vita, þa´er skólpvatn á Íslandi ekki hreinsað, eitt v-evrópskra ríkja. 

"Hvar ætlar fólk að stoppa að merkja?" Þar sem það er óhætt bæði heilsu fólks og umhverfi.

Hins vegar er margt annað sem er hættulegt heilsu fólks auk erfðabreyttra matvæla. Það ekki að selja nein matvæli sem eru hættuleg. Og þar sem er vafi, á að vera merking. Alltaf. Í dag eru matvæli, sem ekki hafa verið merkt m.t.t. ofnæmisvalda, tekin úr sölu. Þannig ætti að vera um genabreytt matvæli. Þannig getur fólk sem ekki kærir sig um þannig matvæli, sniðgengið þau.

Vendetta, 21.10.2011 kl. 00:08

10 Smámynd: Arnar Pálsson

Ingibjörg

Merkingar eru í sjálfu sér ágætar, maður verslar oft eftir upprunalandi og áþekku. Málið er bara að þessar merkingar megi ekki lenda í verðinu, sem ég óttast að verði hérlendis af því að við kunnum ekki að leysa hlutina á hagkvæman hátt.

Arnar Pálsson, 21.10.2011 kl. 09:24

11 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Engar mannlegar gjörðir eru í siðferðilegu tómi. Fyrir mér eru erfðatækni og klassísk ræktun hluti af sama ferli, og þau takast á við sömu siðferðilegu spurningarnar. T.d. "megum við mennirnir breyta lífverum okkur til hagsbóta?"

Þú segir

Þekkir þú dæmi þess að erfðafræðingar hafi þegið styrki og laun og jafnvel hlutdeild í einkaleyfum fyrirtækja? 

Já, en "so what?". Leyfðu mér að bera upp áþekka spurningu.

Þekkir þú dæmi þess að verkfræðingar hafi þegið styrki og laun og jafnvel hlutdeild í einkaleyfum fyrirtækja? 

Arnar Pálsson, 21.10.2011 kl. 09:28

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Brynjar Örn

Alveg sammála, þetta er erfið praktísk spurning.

Ein hugleiðing, er kannski hluti af þessum ótta við erfðabreytt er í raun ótti við unna matvöru.

Það eru rök fyrir því að forðast unna matvöru, unnið kjöt er áhættuþáttur fyrir tiltekna sjúkdóma, og of mikið af sykri er í morgungulli, orkubitum, mjólkur"drykkjum" o.s.frv.

Arnar Pálsson, 21.10.2011 kl. 09:30

13 Smámynd: Arnar Pálsson

Vendetta

Það er gaman að því hvað þú tekur praktíska afstöðu. Málið er bara það að þegar kemur að matvælum þá getum við aldrei prófað allar gerðir og sannfært okkur um að þær séu hættulausar.

Þú segir að við verðum að hætta að merkja:

Þar sem það er óhætt bæði heilsu fólks og umhverfi. 

Þetta er í raun varúðarreglan. Hins vegar er ósannað hvort að BLANDA eggja, avókadó, neutrasweet skyrs og chilidufts sé ekki hættuleg heilsu. Samkvæmt varúðarreglunni þá myndum við banna þessa samsetningu matvæla, í krafti þess að rannsóknarniðurstöður skortir.

Við gerum þetta vitanlega ekki í praktík, matvæli sem við höfum borðað í 100 eða 10000 ár þarf ekki að sannreyna. Né heldur þurfum við að sannreyna samsetningar matvæla sem hafa verið til í 1000 ár.

Við reynum ekki einu sinni að prófa hvort að matvæli sem hafa verið til í 20 ár séu hættuleg eða ekki.

BT er náttúrulegt eitur úr bakteríunni Bacillus thuringiensis.

Við höfum notað það við hefðbundna ræktun og lífræna.

Viltu láta merkja maís sem var spreyjaður með BT eitri á vaxtarskeiðinu, eða bara maís sem er erfðabreyttur með BT?

Arnar Pálsson, 21.10.2011 kl. 09:39

14 Smámynd: Vendetta

"Viltu láta merkja maís sem var spreyjaður með BT eitri á vaxtarskeiðinu, eða bara maís sem er erfðabreyttur með BT?"

Ef BT eitur er enn til staðar í vörunni þegar hún er komin í hillur verzlana, þá á að merkja hana. Hvort þetta sé tilfellið er einfalt með því að óháðir aðilar (matvælaeftirlitið) taki sýni.

Vendetta, 21.10.2011 kl. 21:59

15 identicon

Þú ert sannarlega furðulegur maður.

Þú hefur þegar líkt þér við "bortæknimann". Og núna kemur samlíking við verkfræðinga!

Þið erfðafræðingar eruð að möndla við lífverur.!

Mér hrýs hugur við því að þú skulir kenna þessi fræði með viðlíka afstöðu.

Jóhann (IP-tala skráð) 21.10.2011 kl. 22:19

16 Smámynd: Arnar Pálsson

Vendetta

Þá ættir þú sanngirninnar vegna að krefjast þess að landbúnaðarráðaneytið láti mæla Bt í öllum matvælum, og merkja þær ef þurfa þykir.

Ég tel Bt ekki vera hættulegt og í raun óþarfi (og kostnaðarsamt) að eyða púðri í merkja fæðuna.

Jóhann

Ég vill helst forðast athugasemdir um eiginleika og persónu viðskrifara minna, og einbeita mér að því að ræða málefni og staðreyndir. Þér er sannarlega frjálst að lýsa mér með þeim lýsingarorðum sem þér þykja henta, en ekki vera leiður ef ég kýs að ræða það ekki frekar.

Ég dró ákveðna hliðstæðu milli erfðafræðinga og verkfræðinga, því ég skildi ekki alveg hvað þú varst að fara. Ef þér hliðstæðan ekki viðeigandi, þá er hér tækifæri til að færa rök fyrir þeirri afstöðu. 

Hinn möguleikinn er að þú útskýrir hvers vegna það skiptir máli ef erfðafræðingur á hlut í fyrirtæki?

Mannfólk byrjaði að möndla með lífverur, löngu áður en Mendel, Wright, Fisher, Watson, Crick og aðrir erfðafræðingar komu til sögunar.

Forfeður okkar æxluðu saman lífverum, gáfu þeim næringu, ýttu undir stökkbreytingar með efnameðferð, einangruðu frumur, fjölfölduðu erfðamengi og skeyttu saman frumum fjarskyldra tegunda...allt undir merkjum klassískrar ræktunar. Það sem selt er í búðinni (lífrænt eða "ólífrænt") hefur verið ræktað á þennan hátt. Erfðatækni er bara nýjasta leið okkar til að ná fram æskilegum eiginleikum í nytjaplöntum og dýrum.

Ef þér finnst þetta skelfilegt úr fjarska þá skora ég á þig að skrá þig í erfðafræði og læra þetta frá grunni.

Arnar Pálsson, 23.10.2011 kl. 14:51

17 Smámynd: Snorri Hansson

Það var frétt hérna nýlega um ofurhrísgrjón sem Kínverjar eru búnir að þróa, sem mun koma í veg fyrir hungursneið í framtíðinni.

Undir henni var bloggað. Þar sem maður úthúðaði allri þróun í hrísgrjóna rækt og Kínverjum fyrir að belgja sig út á hrísgrjónum í stað þess að borða almennilegan mat eins og við vesturlandabúar.!!?

Snorri Hansson, 23.10.2011 kl. 22:06

18 Smámynd: Vendetta

Snorri, geturðu bent á þetta? Því að ég finn ekki þann sem þú vitnar í.

Vendetta, 23.10.2011 kl. 22:28

19 Smámynd: Snorri Hansson

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2011/10/17/kinverjar_raekta_ofurhrisgrjon/

Fyrirgefðu Vendetta þetta var ekki bogg,heldur athugasemd við blogg

Snorri Hansson, 24.10.2011 kl. 03:58

20 Smámynd: Vendetta

Já, ég var búinn að finna fréttina, en áttirðu við athugasemd Árna eða Júlíusar?

Vendetta, 24.10.2011 kl. 08:20

21 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir ábendinguna Snorri

Erfðafbreytingar eru með mismunandi markmið. T.d. að auka sjúkdómsþol, auka framleiðni eða auka næringarinnihald.

Einu sinni var stefnt að því að framleiða vítamínbætt hrísgrjón - "golden rice"  http://www.goldenrice.org/

Hrísgrjón eru ekki slæm fæða, en ég held samt að hýðishrísgrjón séu betri hvað varðar vítamín og fjörefnainnihald. 

Arnar Pálsson, 24.10.2011 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband