Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Lifði af undir jökli

etiennekornobis.jpgGetur eitthvað lifað af undir jökli? Geta einhverjar lífverur lifað af jökulskeið, undir jöklinum? Svarið við báðum spurningum er já, grunnvatnsmarfló.

Næstkomandi laugardag mun Etienne Kornobis doktorsnemi (sjá mynd) við líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands verja ritgerð sína um rannsóknir á grunnvatnsmarflóm sem lifðu af undir jökli. Til að kynna rannsóknirnar birtist hér hluti af eldri pistli (Lifði af undir jökli).

---- pistill hefst ----

Sumarið 1998 var Bjarni Kr. Kristjánsson dósent [nú prófessor] við Háskólann á Hólum að rannsaka fæðu og vistfræði hornsíla í Þingvallavatni, og fann framandi marfló í uppsprettu við vatnið. Bjarni og Jörundur Svavarsson, prófessor við Háskóla Íslands, hafa nú lýst tveimur nýju tegundum grunnvatnsmarflóa sem finnast hvergi annars staðar á jörðinni.

Þessar tvær marflær, Crangonyx islandicus (sjá mynd) og Crymostygius thingvallensis, eru einstakar í sögu dýrafræði Íslands. Marflóin  C. islandicus, er 2-5 mm að stærð. Myndina tók Etienne Kornobis - copyright.

kornobis_c_islandicus.jpg

Sérstaklega með tilliti til þess að líffræðilegur fjölbreytileiki er lítill á Íslandi. Einlendar tegundir á Íslandi (tegundir sem finnast hér og hvergi annars staðar) eru nánast óþekktar, fáar tegundir búa hérlendis og breytileiki innan tegunda er almennt talinn frekar lítill. Einnig er dreifigeta grunnvatnsmarflóa afar takmörkuð, ólíklegt er að þær hafi borist yfir Atlantshafið og numið hér land. Þar að auki er stutt síðan Ísland var allt hulið jökli, u.þ.b. 10 þúsund ár eru frá lokum síðasta kuldaskeiði ísaldar. Þetta leiðir til tveggja spurninga:

Hvenær og hvernig námu marflærnar land á Íslandi?

Lifðu marflærnar ísöldina af undir jökli?

Til að svara þessum spurningum var ákveðið að ráðast í erfðafræðilega rannsókn á breytileika og uppruna íslensku grunnvatnsmarflónna. Snæbjörn Pálsson og doktorsnemi hans Etienne Kornobis skoðuðu breytileika í hvatberalitningi annarrar marflóarinnar (C. islandicus), og greindu mikinn breytileika. Breytileikinn fylgir landfræðilegri dreifingu tegundarinnar um Ísland. Marflóin hefur fundist í ferskvatnslindum í hraunjöðrum á eldvirka svæði landsins. Skyldleiki þeirra innan Íslands endurspeglar fjarlægðir innan landsins asamt sögu þess. Fjarskyldustu marflærnar finnast á Melrakkasléttu og sýna útreikningar að þær aðskildust frá öðrum marflóm á  Íslandi fyrir um 4,5 milljónum ára. Landfræðileg dreifing arfgerða bendir til að marflærnar hafi lifað af ísöldina í ferskvatnslindum undir jökli. Enn er ekki vitað hvaða fæðu þær nærast á en líklegast er að þær lifi a bakteríum, sveppum eða frumdýrum.
marflo2010_mynd1.gif
marflo2010_mynd2.gif Bjarni og Jörundur settu fram þá hugmynd að marflærnar hafi í raun borist með landinu þegar "forveri" Íslands var viðskila við Grænland fyrir um 40 milljónum ára. Niðurstöður rannsóknar Kornobis og félaga duga ekki til að staðfesta þá tilgátu, en benda til að marflóin C. islandicus hafi búið hér í að minnsta kosti 4,5 milljónir ára og jafnvel aðgreinst í tvær eða fleiri tegundir.

Viðbót - Snæbjörn Pálsson kom í viðtal í morgunútvarpinu 11.11.11. og ræddi þá meðal annars rannsóknir á grunnvatnsmarflóm og efni líffræðiráðstefnunar.

Ítarefni:

ETIENNE KORNOBIS, SNÆBJÖRN PÁLSSON, BJARNI K. KRISTJÁNSSON og JÖRUNDUR SVAVARSSON
Molecular evidence of the survival of subterranean amphipods (Arthropoda) during Ice Age underneath glaciers in Iceland Molecular Ecology (2010) doi: 10.1111/j.1365-294X.2010.04663.x
B
jarni Kr. Kristjánsson og Jörundur Svavarsson  GRUNNVATNSMARFLÆR Á ÍSLANDI Náttúrufræðingurinn 2007

---- pistill endar ----

Doktorsvörn Etienne verður laugardaginn 29. október 2011, kl. 14:00. Sjá tilkynningu af vef HÍ.

Laugardaginn 29. október fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Etienne Kornobis doktorsritgerð sína: Grunnvatnsmarflær á Íslandi: Stofngerð og flokkun.

Andmælendur eru dr. Christophe Douady prófessor við Háskólann í Lyon í Frakklandi og  dr. Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur og forstöðumaður Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Umsjónarkennari og leiðbeinandi er dr. Snæbjörn Pálsson dósent hjá Líf- og umhverfisvísindadeild. Í doktorsnefnd ásamt Snæbirni eru dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við sömu deild og Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Hákólann á Hólum.

Sigurður S. Snorrason forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar stjórnar athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst kl. 14:00.

Etienne fæddist 17. apríl 1983 í Arras, Frakklandi. Hann lauk BS-prófi í líffræði árið 2005 frá Université des Sciences et Technologies de Lille Frakklandi, og MS-prófi í líffræði árið 2007 frá sama skóla. Frá árinu 2007 hefur hann unnið að doktorsverkefni sínu við Háskóla Íslands.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Athyglisvert. Það verður einnig fróðlegt að sjá hvað kemur út úr rannsóknum á Vostok vatni á suðurskautinu en þar liggja um 140 lífvænleg stöðuvötn undir ísnum.  Vert að hafa auga á því í tengslum við þessar rannsóknir hér heima.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.10.2011 kl. 00:16

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón Steinar

Ekki vissi ég af þessum vötnum undir Suðurskautinu. Þar mun örugglega leynast dýr og lífverur aftur úr forneskju. Kannski ekki alveg 100 milljón ára vistkerfi með risaeðlum eins og Tarsan rataði í ævintýrum sínum, en örugglega eitthvað forvitnilegt.

Af heimavígstöðvunum þá hafa örverufræðingar ræktað gerla úr borvatni Grímsvatna, og fundið sérkennilegar tegundir.

Eric Gaidos o.fl. An oligarchic microbial assemblage in the anoxic bottom waters of a volcanic subglacial lake The ISME Journal (2009) 3, 486–497; doi:10.1038/ismej.2008.124; published online 18 December 2008

Einnig má hlýða á viðtal við Viggó Marteinsson (Matís) um skyld efni í síðdegisútvarpinu.

http://dagskra.ruv.is/sdu/thattafaerslur/dularfullar_orverur_20753/

Arnar Pálsson, 27.10.2011 kl. 11:05

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir þessa tengla Arnar. Afar áhugavert.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.10.2011 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband