Leita í fréttum mbl.is

Ólmur hugi og þunglyndur

Félagi Steindór var í viðtali á Rás 2 í morgun (Hætti að taka geðlyf). Viðtalið er sérstaklega hugvekjandi og hjálpar vonandi fólki sem þjáist af geðsjúkdómum og hefur hvorki fundið líkn né lækningu.

Af vef ruv.is:

Geðlæknar hafa sagt Steindóri Erlingssyni, vísindasagnfræði og líffræðingi, oftar en hann kærir sig um að muna, að hann þurfi að vera á geðlyfjum alla ævi. Hann var greindur með eitt alvarlegasta þunglyndi sem læknar höfðu séð og glímdi við það og mikinn kvíða í meira en tuttugu ár.

Því fylgdi líka mikil manía. Hann hætti á lyfjunum fyrir nokkrum árum og ákvað að takast á við sjúkdóm sinn með öðrum aðferðum. Hann sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 frá baráttunni við geðsjúkdóma og miklum átökum milli fræðimannsins og sjúklingsins en hann hefur sjálfur skrifað mikið um vísindi og heilbrigðismál. Fyrir tveimur árum kynntist hann geðlækni sem breytti lífi hans. Í viðtalstímum var hann látinn setja upp persónuleg leikrit þar sem fræðimaðurinn og sjúklingurinn tókust á. Steindór fór að hreyfa sig og takast á við sjúkdóminn með eigin vilja og hugarafli. Hann telur að það hafi verið rétt ákvörðun hjá sér, á sínum tíma, að hætta að taka lyf. En segir hins vegar að oft geti lyf verið afar gagnleg. Það má lesa nánar um þetta í grein sem Steindór skrifar í nýjasta tímariti Geðverndar.

Við fjölluðum aðeins um grein Steindórs í Geðvernd í lok síðasta árs (Fræðimaðurinn og Sjúklingurinn). 

Geðvernd: Rit Geðverndarfélags Íslands ( Frá vonleysi til vonar: Hugleiðingar fræðimanns um sjúkling, geðlyf og bata, 40: 24-29, 2011.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

"Happiness in intelligent people is the rarest thing I know." - Ernest Hemingway

Róbert Björnsson, 12.1.2012 kl. 15:45

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ágætis tilvitnun, líklega er ég þá ógreindur...

Arnar Pálsson, 12.1.2012 kl. 16:35

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Virkilega gott viðtal ;-) ..    Kannski sumt "Intelligent" fólk hugsi of mikið, og þurfi bara að finna sér farveg fyrir greindina.  Nota greindina til að átta sig á því að við verðum að hugsa inn á við, inn í kjarnann í staðinn fyrir að hugsa of mikið út á við.  Hver manneskja er heimurinn og þegar hún hlúir að sér hlúir hún að heiminum. 

Steindór var alveg með þetta! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.1.2012 kl. 08:43

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Held reyndar ekki að greind og hamingja séu andstæðir pólar á sama öxli.

Er núna að lesa Believing Brain eftir Michael Shermer, hann kynnir margar  forvitnilegar stúdíur sem sýna hvernig óöryggi, þreyta og stress kynda undir því að fólk sjái mynstur í suði, og leggi dýpri merkingu í mynstrið sem það sér.

Einnig talar hann um hvernig sumir sjá mynstur í öllu, og eru þá á vissan hátt mjög skapandi. Vandamál þeirra er að þeir geta ekki greint raunveruleg mynstur frá þeim ímynduðu. Þar kemur greindin til sögunar, og hin vísindalega aðferð.

Ég held að mannlegt samfélag þurfi bæði skapandi sveimhuga (sem geta trúað öllu) til að búa til tilgátur og skarpgreinda einstaklinga til að greina kjarnan frá hisminu.

Arnar Pálsson, 13.1.2012 kl. 09:53

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhanna

Steindór er náttúrulega kominn langan veg og búinn að gera margar uppgötvanir, persónulegar og faglegar.

Vonandi er reynsla hans öðrum til góðs.

Arnar Pálsson, 13.1.2012 kl. 09:54

6 Smámynd: Sigurður Antonsson

Áhugaverð umræða. Hvað rekur menn áfram til að gera ráðstafanir eða skapa eitt og annað. Hæfilegur skammtur af bölsýni kemur í veg fyrir mörg slys og mistök. Hvetur menn til að leita svara og finna lausnir.

Af grein Steindórs í blaði Geðverndar má sjá að kvíðinn örvar hann og hvetur til dáða í greinarskrifum. Afköst Steindórs eru mikill og greinar hans vekja spurningar. Þegar kvíðinn verður sjúklegur er mörgu ósvarað á sannfærandi hátt. Flestir menn róast þegar vandinn er brotinn niður og farsælar lausnir skapast. Að gleðjast yfir sigrum er ekki áunninn hæfileiki. Það er helst í hópstarfi að menn finna fyrir gleði og árangri eða þegar menn hafa erfiðað líkamlega heil ósköp. Hreyfing er viss gleðigjafi og þá örfast blóðstreymið sem hvetur til boðskipta.

Nýlega las ég í DV að vísindalegar kannanir sýndu að vítamínát væri gagnlaust. Ofnotkun lyfja er vandamál og lyfjaiðnaðurinn leikur oft einleik. Skammtar of stórir og valmöguleikar hverfandi fyrir þann sem er þjakaður.

Alltof fáir hafa kjark til að gagnrýna ofnotkun lyfja. Í mannsheilanum er mikill efnastarfsemi og boðefnaleiðir flóknar. Hér eru því mikill gróðurlönd fyrir efna- og erfðafræðinga.

Sigurður Antonsson, 15.1.2012 kl. 21:29

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Sigurður

Gaman að þér líki hugleiðingarnar, ég get eindregið mælt með trúalega heila Michael Shermers (http://www.michaelshermer.com/the-believing-brain/).

Ég er alveg sammála þér með bölsýnina, eða neikvæðni. Ef maður finnur ekkert til að gagnrýna, er ólílegt að maður landi lausn. Maður finnur ekki lausn á vandamálum sem maður veit ekki að eru vandamál.

Saga Steindórs er um margt merkileg, og ekki fjarri því sem ég þekki úr minni fjölskyldu. Mannlegi þátturinn, rétt umhverfi og athygli sem sjúklingur fær getur örugglega hjálpað mörgum upp úr djúpum dölum.

Ég veit samt ekki alveg hvort að það sé kvíðinn sem drífi Steindór, það eru fleiri kraftar að verki þar. En það er ágætt að hann veiti lyfjadreifurunum aðhald. Við sem sjúklingar höfum verið of dugleg að kalla á einfaldar lausnir, og fyrirtækin meira en tilbúin að verða við þeirri beiðni. Það eru því miður mörg og sláandi dæmi um að lyfjaiðnaðurinn hafi sína hagsmuni ofar sjúklingum og að þeir séu tilbúnir að mistúlka niðurstöður, fegra þær og hylma yfir aukaverkanir í nafni hagnaðarins.

Mig langar að skrifa um líffræði heilans, erfðir og umhverfi, en hef hvorki nægilega þekkingu né tíma.

Arnar Pálsson, 16.1.2012 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband