Leita í fréttum mbl.is

Gen frá mömmu, pabba og öllum hinum

Í helgarpistlinum "stökkbreyting írskra gena" veltir Jónas Haraldsson (17. feb. 2012, bls. 32) fyrir sér spurningum um uppruna íslendinga og mun á fegurð íra og íslendinga. Hann ber sérstaklega saman fegurð íslenskra kvenna og meintan ófrýnileik írskra karlmanna. Því næst tíundar Jónas uppl ýsingar um erfðafræðilegan uppruna íslendinga, sem honum finnst stangast á við dreifingu fegurðar í þessum hluta Evrópu. Jónas segir:

 

Þar kemur fram að um 60 prósent erfðaefnis Íslendinga er norrænt en um 40 prósent frá Bretlandseyjum. Hið skrýtna er samt að sömu mælingar segja okkur að um 80 prósent erfðaefnis íslenskra karla megi rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en um 20 prósent til Bretlandseyja.....

 

...Þegar þetta liggur fyrir hættir maður að skilja. Íslenskar skvísur, fegurðarviðmið víða um heim, eru meira eða minna írskar, upprunalega dætur ljótustu karla í heimi....

....Vill ekki einhver rannsaka það?

Erfðarannsóknir hafa sýnt að 4 af hverjum 5 íslenskum körlum er með Y litning ættaðan frá Noregi. Á sama hátt sýna rannsóknir að u.þ.b. 2 af hverjum 3 hvatberalitningum eru ættaðir frá Bretlandseyjum. Hvatberalitningar erfast eingöngu frá móður og Y litningar eingöngu frá feðrum til sona. En það sem vantar í umfjöllun Jónasar er afgangurinn af erfðaefninu, hinir 23 litningarnir sem bera í sér 98% DNA frumna okkar.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, þessi 98% erfðamengisins, öll hin genin og litningarnir erfast óháð kyni. Það þýðir að erfðasamsetningin stokkast upp í hverri kynslóð. Þannig að þessar írsku ófrynjur sem Jónas lætur sig dreyma um, voru fljótar að umbreytast þegar írsku og norsku genin stokkast saman á þeim fjörtíu kynslóðum sem liðnar eru frá landnámi. Þetta sést best ef við skoðum bókhaldið í smáatriðum. Hvatberalitningurinn, sem erfist bara frá mæðrum, er u.þ.b. 16,570 basar. Y-litningurinn er u.þ.b. 50 milljón basar, en erfðamengi okkar í heild er u.þ.b. 3200 milljón basar.

Að endingu vill ég samt árétta, fyrir mitt leyti a.m.k., að margar írskar konur eru forkunnafallegar og rautt hár íslenskra kvenna mikil prýði. Einnig er ágætt að rifja upp að makaval gengur ekki eingöngu út frá snoppufegurð eða gullnum hlutföllum. Eins valdi stórabóla sér ekki skotmörk með hliðsjón af útliti. Stundum er betra að vera hraustur en sætur.

 

Skýring: Pistlinn þessi er aukinn og bætt útgáfa lesendabréfs sem birtist  í Fréttatímanum 24. febrúar 2012, undir titlinum "Betra að vera hraustur en sætur".

Heimildir

http://genomics.energy.gov/

http://www.ornl.gov/sci/techresources/Human_Genome/posters/chromosome/faqs.shtml


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Arnar,

það er jafn kjánalegt að bera saman hlutlæga staðla eins og fegurð kvenna, eins og það er að skoða genamengi Nútímaíslendinga til að álykta um uppruna þeirra og skyldleika við aðra þjóðir. Íslendingar eiga það til að þykja fuglar sínir fegri en annars staðir en "kvenleg", "kjútbarnaleg" einkenni í mörgum íslenskum konum, og einnig í körlum, getur líka verið afleiðingar lítilsháttar skyldleikaræktar.

Agnar Helgason/DeCode gaf sér of marga þætti til þess að niðurstöður hans geti talist fyllilega trúverðugar, enda voru þessar etnogenesu-greinar hans og meðverkamanna aðeins til þess fallnar að nota í auglýsingamennsku fyrir "inbreeding" á Íslandi sem DeCode var að reyna fullvissa erlend lyfjafyrtæki um.

Við verðum einnig að muna að konur frá Skandínavíu settust einnig á ákveðnum svæðum á Írlandi og Bretlandseyjum. Margir höfðu, eins og á Íslandi, viðkomu a Írlandi og hafa því skilið eftir sig eitthvað í erfðamenginu, sem gæti hafa gert írskar konur ljótar eins og Jónas blaðamaður á Fréttatímanum heldur fram með Playboy-fegurðarstaðli sínum. Vona ég að íslenskir trukkafemínistar keyri ekki yfir Jónas fyrir að sjá Íslenskar konur sem eintómar fegurðardísir.

Eina leiðin til að rannsaka uppruna er að skoða bein landnámsmanna og fyrstu íbúa Íslands og bera mælingar á þeim saman við osteometrískar niðurstöður á beinum í nágrannalöndum Íslands á sama tíma. Þetta hefur Hans Christian Petersen gert og fengið aðrar niðurstöður en Agnar. Agnar fékk niðurstöður hans heima hjá mér í Kaupmannahöfn fyrir fjölda ára síðan, en ég hef nú aldrei séð hann vitna í þær.

Ég mun brátt birta skýrslu Hans Christian Petersen frá Syddansk Universitet frá 1994 á Fornleifi.

Rautt hár er ekki nauðsynlega írsk erfðaáhrif á Íslandi. Rauði háraliturinn á Íslandi er ekki eins og á Írlandi. Svart hár er víst ríkjandi á Írlandi. En ekki ætla ég út í fræði Jens Pálssonar heitins, sem taldi sig geta mælt uppruna út frá húðlit á "bakhlið" efri handleggs fólks.

Kannski hefur þú og aðrir gaman af þvi að lesa þessa grein sem ég skrifaði fyrir löngu: http://postdoc.blog.is/users/3d/postdoc/files/physical_anthropology_lund_1990_13225.pdf

FORNLEIFUR, 28.2.2012 kl. 13:48

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Fornleifur fyrir tilskrifin og tengilinn.

Athugasemd mín snérist aðallega um að leiðrétta misskilning Jónasar, á þessu með genin frá mömmu og genin frá pabba. Ég uppfæri pistilinn til samræmis, og setti inn orð Jónasar úr Fréttatímanum.

Áherslan á fegurð var öll hans, hana kann ég að meta en hef ekki gert að sérstöku rannsóknar eða umtalsefni.

Agnar Helgason og samstarfsmenn gerðu ítarlegustu erfðafræðilegu greiningar sem birtar hafa verið á uppruna Íslendinga. Þær staðfesta norrænan og breskan uppruna okkar. Slíkar greiningar, núna framkvæmdar með fleiri þúsundir eða jafnvel milljónum breytilegra staða í erfðamenginu er fullgóðar til að greina uppruna þjóða og þjóðarbrota. Þótt töluvert rót hafi verið á fólki í Evrópu, og norrænt blóð blandað við breskt, þá er þessi aðferð samt sú besta sem við höfum. Langbest væri reyndar að ná í DNA úr einstaklingum sem dóu fyrir 1000 árum, en það er erfitt og fáir einstaklingar skoðaðir í slíkum rannsóknum.

Ég er ósammála þeirri staðhæfingu þinni að mælingar á lögun beina landnámsmanna og samtíðamanna þeirra norrænna og breskra sé "eina leiðin til að rannsaka uppruna". Mælingar á útliti eru ágætar til síns brúks, en eru takmarkaðar af amk tvennu leyti. I) Lögun beina getur verið mismunandi vegna umhverfisþátta - sem eru t.d. ólíkir í breskum og norrænum byggðum. II) Sá breytileiki sem er tilkomin vegna erfðafræðilegs munar (það sem þú hefur áhuga á), er eingöngu í beinum sem tengjast myndun og formi beina. Þau gen eru bara hluti af erfðamenginu. Það er eins og að ákveða að nota bara genin á litningi 19, einungis hluti af mögulegum gögnum er notaður.

Mér er fullkunnugt um það að kveikjan að rannsóknum Agnars kann að hafa verið fullyrðingar frumkvöðla íslenskrar erfðagreiningar, en niðurstöðurnar eru samt nokkuð skýrar. Fullyrðingar um uppruna eiga við. Staðhæfingar um innræktun eru ekki studdar gögnum. Enda heyrir þú þær fullyrðingar ekki nú til dags.

Hárið, rautt eða öðruvísi litað, er bara einn eiginleiki af mjög mörgum sem prýða menn. Það hefur verið áhersla hjá mér í pistlum á þessari síðu, að leggja áherslu á þetta, að menn eru samsettir. Það að einblína á fegurð(eða hárlit) er meinloka sem mér fannst rétt að hnýta í, sbr. lokaorð pistilsins.

Góðar stundir.

Arnar Pálsson, 28.2.2012 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband