Leita í fréttum mbl.is

Vika helguð opnu aðgengi

Nú stendur yfir hin alþjóðlega vika opins aðgangs (http://www.openaccessweek.orgopinnadgangur.is).

Hvað þýðir opinn aðgangur?

Skilgreiningar og nánari upplýsingar má sjá á síðunni opinnadgangur.is. Þar segir t.d.

Opinn aðgangur (e. open access) miðar að því að gera ritrýndar vísindagreinar og annað útgefið fræðiefni aðgengilegt óhindrað á rafrænu formi gegnum Internetið, án takmarkana höfundaréttar eða aðgangsleyfa.

Gullna leiðin til OA - framlag birt í OA fræðiriti strax í upphafi (e. open access publishing).
Græna leiðin til OA - framlag gert aðgengilegt gegnum eigin safnvistun (e. self-archiving) í OA varðveislusafni, samhliða birtingu í fræðiriti eða skömmu eftir það.

Í tilefni af alþjóðlegu Open Access vikunni (http://www.openaccessweek.org) verður haldið örmálþing um opið aðgengi (OA) að birtu fræðiefni, með þáttöku LUVS, Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og Rannís. Það fer fram í Öskju - Náttúrufræðihúsi HÍ þann 26. október 2012, frá kl. 12:30 til 13:10 í stofu 130. Dagskrá:

  • Frá flugum til fræðigreina: frjálst aðgengi að efniviði og niðurstöðum - Arnar Pálsson, Líf- og umhverfisvísindastofnun
  • OA útskýrt: hvað er opinn aðgangur og af hverju? - Guðmundur Þórisson, Líf- og umhverfisvísindastofnun
  • Græna leiðin til OA á Íslandi: rafræn varðveislusöfn - Sólveig Þorsteinsdóttir, Heilbrigðisvísindabókasafn LSH
  • Rannsóknasjóðir og opið aðgengi - Guðlaug Kristjánsdóttir, Rannís
  • Spurningatími
Sjá meira um OA á http://opinnadgangur.is

Hér fylgir stutt forsaga eða umræða um opinn aðgang, í raunvísindalegri túlkun.

Innan vísinda og fræðasamfélagsins hefur myndast hreyfing, sem hvetur til opins aðgengis að vísindalegu efni. Fræði hafa reyndar lengi byggst á því að birta greinar, bókakafla eða bækur um ákveðnar rannsóknir. Markmiðið er vitanlega að miðla hugmyndum og þekkingu til samfélagsins og annara fræðimanna. Þeir vísindamenn sem sitja á mikilvægum niðurstöðum hægja á framþróun vísinda og koma í veg fyrir að þær séu hagnýttar í samfélaginu.

Vísindamenn birta því bækur, ritrýnda bókakafla og vísindagreinar fyrir vísindasamfélagið, fyrirtæki og almenning. Málin æxluðust þannig að prentun vísindabóka og tímarita varð að sjálfstæðri atvinnugrein. Útgáfufyrirtæki spruttu upp til að sjá um uppsetningu og prentun vísindagreina, og sum þeirra urðu mjög stór og skila miklum hagnaði.

Ferlið er nokkurn veginn á þessa leið. Vísindamenn senda inn handrit, akedemískur ritsjóri sendir það til yfirlesturs hjá fræðimönnum á viðkomandi sviði. Ef fræðimennirnir eru sáttir við handritið er það sent í uppsetningu og prentun í næsta tölublaði vísindatímaritsins. Höfundar greina afsöluðu sér höfundarétti, og fyrirtækin fengu rétt á því að selja tímaritin. Þetta var gert í hagræðingarskyni, til að spara fagfélögum eða stofnunum ómakið við útgáfustarfsemi. Útgáfufyrirtækin seldu áskrift að tímaritunum til vísindamanna skóla, stofnanna og fyrirtækja. Nú til dags er áskriftin oftast rafræn, og jafnvel á landsvísu eins og hérlendis. Allir á geta Íslandi lesið vísindagreinar í merkum ritum eins og Nature og Science.

Á undanförnum áratugum hefur myndast hreyfing sem hvetur til opins aðgengis að vísindagreinum. Rökstuðningurinn er sá að áskrifafyrirkomulagið sé gallað, því að rannsóknir séu í flestum tilfellum kostaðar af hinu opinbera. Klemmunni má lýsa með einni setningu.

Hví á hið opinbera síðan að kaupa aðgang að vísindagreinum sem lýsa rannsóknum sem ríkið sjálft hefur kostað?

Ýmsar lausnir hafa litið dagsins ljós.

Til eru opin tímarit eins og PLoS biology og BMC genetics, sem birta greinar á netinu án nokkura aðgangstakmarkana. Vísindamenn við Bangalore Háskóla, Hólaskóla og Land Institute geta allir lesið þær, kostnaðarlaust.

Varðveislusöfn hafa verið sett upp, t.d. eins og Hirsla sem er varðveislusafn LSH (Landspítala háskóla sjúkrahús).

Stofnanir og Rannsóknasjóðir hafa beint tilmælum til vísindamanna, eða jafnvel skilyrt rannsóknarfé.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur undirritað Berlínaryfirlýsinguna um opinn aðgang. Þar með staðfestir safnið stefnu sína varðandi opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum sem unnar eru fyrir opinbert fé.

Sjá einnig:

Academic publishers have become the enemies of science - Mike Taylor í the Guardian 

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband