Leita í fréttum mbl.is

Saga Jacques Monod og rannsókna hans

Franski líffræðingurinn Jacques Monod fékk Nóbelsverðlaunin í Læknisfræði og lífeðlisfræði árið 1965, ásamt samlöndum sínum Francois Jacob og Andre Lwoff. Hann er einn merkilegasti sameindalíffræðingur síðustu aldar.

Monod gaf út bókina Tilviljun og nauðsyn árið 1970, sem Guðmundur Eggertsson prófessor hefur þýtt yfir á íslensku. Föstudaginn 8. febrúar 2013 verður haldið málþing um Monod, bók hans og áhrif hennar (Tilviljun og nauðsyn, meistaraverk franska nóbelsverðlaunahafans Jacques Monod). Það verður kl. 16:00 í Öskju - náttúrufræðihúsi HÍ (ókeypis og öllum opið). Fyrst verða stutt erindi:

  • Guðmundur Eggertsson: Jacques Monod og Tilviljun og nauðsyn
  • Ólafur S. Andrésson: Sykrugengi og fleira sætt - rannsóknir Monod
  • Björn Þorsteinsson: Monod um siðfræði og samfélag
  • Luc Fuhrmann: The impact of "Chance and Necessity" in the 70s

Og svo léttar veitingar.

Guðmundur Eggertsson var í viðtali í Víðsjá 5 febrúar 2013. Þar sagði hann meðal annars að Monod geri mikið úr þætti tilviljunarinnar í þróun lífsins (og etv. starfsemi). Það er alveg rétt, því að tilviljanakenndar breytingar á erfðaefni eru hráefni þróunarinnar. Þróunin er hins vegar ekki endilega handahófskennd, vegna þess að náttúrulegt val möndlar með erfðabreytileikann. Náttúrulegt val er nefnilega kraftur sem slípar til og betrumbætir stofna lífvera og tegundir, kynslóð fyrir kynslóð.

Leiðrétti síðustu málsgreinina síðdegis 7. febrúar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir að hafa hlustað á ákaflega fróðlegt viðtal við þýðandann, þá þykir mér ljóst að nálgun Monods er afar aristótelísk.

Guðmundur tekur fram þrjá þætti sem aðrir fremur einkenna framvindu lífs:

* Markleitni

* Óbrigðugleiki gena

* Sjálfsmótun

Tilviljun verkar á óbrigðulleika gena, en ekki hina þættina.

Allt er þetta afar fróðlegt, en þarf ekki að gera a.m.k. grein fyrir því hverrar gerðar þessi tilviljun er (því "tilviljun" vísar ekki í eitt afmarkað og skilgreint fyrirbæri), og einnig hvert vægi tilviljunar er gagnvart nauðsyn lífs?

Kannski að maður mæti bara...

:)

Jóhann (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 20:09

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir athugasemdina Jóhann

Þessi þrjú atriði eru þau sem J. Monod setur í forgrunn í bók sinni.

Þróunarfræðingur hefði örugglega sett náttúrulegt val á þennan lista, því það er algerlega fyrirsjáanlegur eiginleiki lífvera.

Að vissu leyti spannar markleitni Monods náttúrulegt val. Að því leyti að markleitni er afurð náttúrulegs vals. En náttúrulegt val er meira en það, og getur bæði útskýrt aðlaganir og aðra eiginleika lífvera.

Tilviljunin hefur mest áhrif á genin, en einnig á önnur ferli eins og sjálfsmótun. Í orðaforða Monods er sjálfsmótun í raun þroskun, það þegar frjóvgað egg fer að skipta sér og myndar að endingu fullvaxta lífveru. Það er sjálfsmótun, þegar lífveran þroskast! 

En tilviljun hefur einnig áhrif á þroskun - það sést best á því að hægri og vinstri hliðar fólks eru aldrei nákvæmlega eins! Áhrif tilviljunar eru samt frekar lítil, fyrir flesta eiginleika amk.

Varðandi nánari skilgreiningu á tilviljun, þá er það nokkuð sem líkindafræðingar hafa mjög gaman af. Þegar horft er á sameindirnar í DNA, þá liggur í byggingu þeirra og sveimi rafeinda töluverð óvissa. Þessi óvissa getur leitt til formbreytinga, sem geta gefið af sér eiginlegar stökkbreytingar. Í þessu tilfelli er tilviljunin innbyggður eiginleiki sameindanna.

Spurning um vægi tilviljana og nauðsynjar er rædd ágætlega af Monod, og einnig mörgum þróunarfræðingum. Tilviljun býr til breytileika, en síðan tekur náttúrulegt val við og tínir hið brúklega úr mengi ólíkra gerða. Þar tekur nauðsynin við.

Ég skora á þig að lesa þýðingu Guðmundar, hún er hreinasta afbragð.

Arnar Pálsson, 8.2.2013 kl. 11:47

3 identicon

Takk fyrir svarið Arnar 

Bókina mun ég lesa.

En ertu ekki búinn að nefna hér þrjár mismunandi gerðir tilviljunar?

Eins og Bertrand Russell sagði eitt sinn: "Það er allir að tala um tilviljun, en enginn um hvað hún er."

Jóhann (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 18:30

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Ég held að þér finnist gaman í gátuleik.

Segðu mér nú, hvaða þrjár gerðir tilviljana nefndi ég?

Arnar Pálsson, 18.2.2013 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband