Leita í fréttum mbl.is

Þetta eru ekki tækni og vísindi

Nú toppar mbl.is sjálft sig, með því að setja frétt um skáldskap stjörnuspekings inn sem tækni og vísinda frétt.

Þetta er svona ámóta og segja að fréttir af bruna í Breiðholti eigi heima undir kosningar eða úrslit úr körfunni falli undir Bíla.

Margir hafa bent á að fræði og vísindi séu ekki bara misskilin í samfélagi nútímans. Heldur séu þau vísvitandi fótum troðin. Það eru mörg svona dæmi, t.d. af kerfisbundnu stríði olíu og gasfyrirtækja gegn loftslagsvísindum, atlögum bókstafstrúaðra kristinna og múslima gegn þróunarkenningunni, og gagnrýni lífræna geirans á erfðatækni og nútíma ræktun.

Mark Henderson hefur  gert þetta að kjarna bókar sinnar The Geek Manifesto. Ég hóf lestur þeirrar bókar eftir að Guðni Elísson mærði hana, og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum.

Hlutverk vísinda í samfélagi nútímans er dálítið óljóst. Flestir eru tilbúnir að meðtaka afurðir fræðilegra eða tækniframfara, í formi t.d. lyfja, meðferða, farartækja eða farsíma. En ótrúleg margir afneita afdráttarlausum niðurstöðum vísindanna í öðrum málum, samanber dæmin hér að ofan.

J. Monod var sameindalíffræðingur sem ræddi ítarlega hlutverk og heimspeki vísinda. Afstaða hans var mjög afdráttarlaus, hlutlægni vísindanna er mikilvægust. Hlutlægni gerir okkur kleift að skera úr um ævaforn álita mál. Ef ég skil hann rétt þá segir Monod að það sé okkar siðferðilega skylda að setja hlutlægnina ofar öðru, því annars munum við eyða of mikilli orku og tíma í vitleysu og gagnslausa iðju.

Tækifæri gefst á að kynnast Monod betur á málþingi sem haldið verður síðdegis í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Málþing Líffræðistofu HÍ um Tilviljun og nauðsyn - málþing um meistarverk J. Monod

8. febrúar 2013 - 16:00 to 18:00 


mbl.is Ár snáksins verður stormasamt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algjörlega sammála!

Gísli Jónsson (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 13:28

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú berð saman hjal „sköpunarsinna“ gegn þróunarlögmálinu og eðlilegri gagnrýni fjölmargra alvöru loftslagsvísindamanna gegn „gróðurhúsa“- hjalinu, sem að mestu er haldið uppi af stjarneðlisfræðingum eins og James Hansen, jarðfræðingum og öðrum sem kalla sig „vísindamenn“ á þessu sviði en eru það ekki. Ég hef skrifað talsvert um þessi mál t.d. greinina „Að flýta ísöldinni“http://vey.blog.is/blog/vey/entry/988129/. Það er fjarstæða að halda að „vísindmenn séu sammála“ í þessu efni.

Vilhjálmur Eyþórsson, 8.2.2013 kl. 16:06

3 identicon

Ég hélt í smástund að ég væri inn á smartland mörtu, þar sem þetta ætti frekar heima.

GG (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 16:56

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Vilhjálmur

Það eru engin vísindaleg gögn sem ganga gegn þeirri ályktun að

1) menn hafa  aukið losun koltvíildis á undanfarinni öld

2) að aukning koltvíildis hefur valdir hlýnun jarðar

Deilur meðal alvöru vísindamanna fjalla um hversu mikil hefur aukningin verið, mun hraði aukningar vaxa eða minnka og hverjar verða afleiðingarnar.

Sjá loftslag.is eða Olíurisarnir og atlagan að loftslagsvísindum fyrir nánari útlistun.

Arnar Pálsson, 8.2.2013 kl. 19:14

5 Smámynd: Arnar Pálsson

GG,

Mig grunar að þetta séu mistök, en ætla bíða til mánudags að benda þeim á þau. Auðvitað tók ég screenshot, eins og maður gerir þegar eitthvað skondið birtist á skjánum.

Takk Gísli!

Arnar Pálsson, 8.2.2013 kl. 19:15

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég sé að þú virðist taka mark á trúboðs- síðu gróðurhúsamanna, loftslag.is og þeim gervivísindum sem þar er að finna. Það er afar einfeldingsleg kenning, að heilbrigðar efasemdir um þessar kenningar séu olíurisunum að kenna. Annars er allt þetta mál svo stórt að hér er með engu móti hægt að ræða það af neinu viti. Eftir stendur að það er út í hött að jafna saman blaðri ruglukolla á við „sköpunarsinna“ og vel ígrunduðum efasemdum um kenningar heimsendaspámanna svo sem aðstandenda loftslag.is.

Vilhjálmur Eyþórsson, 8.2.2013 kl. 21:14

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Alltaf merkilegt hversu fljótt það dúkka einhverjar sundurlausar og innihaldslausar fullyrðingar frá loftslags vísinda afneiturum Íslands þegar umræðan dettur í þá áttina. Reyndar langar mig að vísa umfjöllun á loftslag.is, þar sem beinar tilvísanir í ummæli Vilhjálms Eyþórssonar eru skjalfestar, það gæti hlýjað honum um hjartarætur að lesa það (enda um beinar tilvísanir að ræða - sem hann hlýtur að taka undir að öllu leiti) - sjá athugasemd við Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar. Mjög fróðlegt - reyndar er Vilhjálmur merkilega upptekin af pólitískri hugsun þeirra sem hann er ósammála - hvernig sem ber að skilja það. M.a. eiga vinstri menn (samkvæmt Vilhjálmi) að vera eins og eyðni á þjóðfélaginu... en menn sem orða hlutina eins og Vilhjálmur velur að gera, ber ekki að taka alvarlega í nokkurri umræðu - orð hans dæma sig sjálf sem ómerk að öllu leiti. Hans heilbrigðu "efasemdir" eru bulllýsingar og rökleysur.

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.2.2013 kl. 23:27

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur

Þessa ályktun um að olíu og gasrisarnir hafi grafið markvisst undan loftslagsvísindunum, dreg ég af lestri bókarinnar The Hockey stick and the climate wars, sem og fréttum t.d. af vef The Guardian.

http://www.guardian.co.uk/world/2005/jan/27/environment.science?INTCMP=SRCH

Exxon to cut funding to climate change denial groups guardian.co.uk, 28 May 2008

Leak exposes how Heartland Institute works to undermine climate science

Galdurinn við árangur í lobbísima eins og þeim sem olíufyrirtækin stunda, er að dylja rætur röksemdanna.

Þannig eru innrammaðar röksemdir framleiddar af hugveitum sem eru á spena olíufyrirtækjanna og annara.

Og þegar fólk er búið að taka afstöðu í álitamáli, er erfitt fyrir það að skipta um skoðun. Ef einstaklingur afneitar því að maðurinn auki koltvíldi og valdi hlýnun jarðar, þá er erfitt fyrir viðkomandi að draga í land.

Arnar Pálsson, 11.2.2013 kl. 12:06

9 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það er afar merkilegt hverni Sveini Atla tekst að sneiða alveg gjörsamlega hjá sjálfu efni greinar minnar og ræða í staðinn aukaatriði svo sem þá bláköldu staðreynd að gróðurhúsa- trúin er drifin áfram af fólkinu sem studdi alræðisöflin í kalda stríðinu, vinstri mönnum. En það er ekki kjarni málsins. Sú blákalda staðreynd, sem ekki einu sinni Svatli getur neitað, að hér er í raun um að ræða hægfara, sveiflukennda kólnun og þornun jarðarinnar síðustu ca. sjö þúsund árin er ekki nefnd, hvorki af honum eða öðrum áhangendum þessara kenninga. Mér sýnist augljóst að flestir þeir sem kalla sig „vísindamenn“ (þótt flestallir hafi tekið próf í einhverju sem kemur loftslagi ekkert við) viti þetta yfirleitt alls ekki. Þó hafa niðurstöður Blytt og Sernanders legið fyrir í rúm hundrað ár og verið margsinnis staðfestar síðan, m.a. með ískjörnum frá Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þetta nefnir Sveinn Atli ekki. Kjarni greinar minnar er, að sú smávægilega uppsveifla sem verið hefur síðustu öldina eða svo sé aðeins „endurhlýnun“ og því fer víðs fjarri að hún sé að nálgast það hitastig og úrkomu sem ríkti t.d. á dögum Grikkja og Rómverja, hvað þá enn fyrr.

Það þarf ekki að deila um það, að jafnframt því að jöklar hér á Íslandi og annars staðar hafa verið að myndast og skríða fram, hafa eyðimerkur hvervetna verið að skrælna, eins og ég nefni fjölmörg dæmi um í grein minni. Hvað gerir það til ef veðurfar yrði aftur eins og það var t.d. á dögum Forn- Egypta, þegar stórir hlutar Sahara voru grónir og Ísland nær jöklalaust? Sú kenning, að aukning koldíoxíðs um tvo parta af hverri milljón á ári hverju, eins og nú, valdi einhvers konar heimsendi er ekki aðeins fráleit, heldur beinlínis fáránleg. Tvær krónur af hverri milljón hefðu ekki þótt góðir vextir á útrásartímanum.

Annars er ég margsinnis áður búinn að deila við Svein Atla og nenni varla að halda því áfram hér, en hann gætir þess, sem fyrr sagði að sneiða algerlega hjá kjarnanum í grein minni.

Vilhjálmur Eyþórsson, 11.2.2013 kl. 23:57

10 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Vilhjálmur

Rökin þín eru tvíþætt.

1. að þeir sem haldi fram hlýnun jarðar séu vinstri menn

(" fólkinu sem studdi alræðisöflin í kalda stríðinu, vinstri mönnum")

2. að um eðlilega sveiflu í lofthita sé að ræða

Varðandi punkt 1. 

Það eru ekki bara "vinstrimenn" sem  álykta að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Þeir vísindamenn sem hafa dregið þessa ályktun eru frá fjölmörgum löndum, og nær öllum flokkum. Vísindin spyrja ekki um flokkskírteini, heldur um gögn, greiningar og niðurstöður.

Varðandi punkt 2.

Hokkýkylfugrafið sýnir, svo óyggjandi sé, að hlýnun jarðar hefur aukist mjög mikið í rúma öl. Flóknari tölfræðilíkön, sem taka tillit til náttúrulegra þátta eins og veðrakerfa, landslags, borga, eldgosa og annara þátta sýna einnig að áhrif mannsins eru raunveruleg. Þessar greiningar eru flóknar og gögnin viðamikil, en bestu vísindamenn á þessu sviði eru sammála. 

Það að segja að þeir vísindamenn sem ályktað hafa að maðurin valdi hlýnun séu , úr öðru geirum vísinda (sbr. orð þín: þótt flestallir hafi tekið próf í einhverju sem kemur loftslagi ekkert við) er hreinlega röng.

Í raun snýr þetta á hinn veginn. Ötulustu postular loftslagsafneitara eru einmitt sérfræðingar "af öðrum sviðum", t,d, lögfræðingar.

En ertu núna tilbúinn að samþykkja að loftslagsafneitarar eru á spena olíufyrirtækjanna?

(sbr. tilvitnanir hér að ofan)

Arnar Pálsson, 12.2.2013 kl. 11:28

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það eru í raun hægt að skoða þetta með því t.d. að skoða eftirfarandi þrjár spurningar sem við getum spurt okkur og þá skiptir engu hvort fólk er til hægri, vinstri eða í miðju stjórnmála - það þarf bara að skoða gögnin. Spurningarnar eru eftirtaldar:

1 – Er jörðin að hlýna?

2 – Veldur CO2 hlýnuninni?

3 – Er aukningin á styrki CO2 í andrúmsloftinu af völdum manna?

Svörin við öllum þessum spurningum þegar búið er að skoða alvöru mælingar og gögn er JÁ. Þetta er kannski í hnotskurn það sem aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum er um, sjá nánar Mælingar staðfesta kenninguna

En þessu neita þeir sem afneita loftslagsvísindum staðfastlega á ýmsan hátt (ekki afneita þeir allir þó öllum þáttum)...og þeir nota alls kyns vafasamar fullyrðingar til að styðja mál sitt - sumir að vinstri menn séu bullukollar (hvað sem það á nú að þýða - enda margir góðir hægri menn sem styðja mælingar vísindamanna) og aðrir finna einhver önnur misvitur rök (eða eins og sumir kalla það "blá kaldar staðreyndir" o.s.frv.)...en ef maður lítur á alvöru mælingar og rannsóknir þá styður það að maðurinn sé að gera heiminn hlýrri með því að losa gróðurhúsalofttegundir - það er í raun lítill sem engin vafi á því...

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.2.2013 kl. 18:14

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur

Afsakaðu spurningin mín var of groddaralega orðuð.

Ég vill umorða hana á þessa leið.

En ertu tilbúinn að viðurkenna að stofnanir og hugveitur sem afneita loftslagsbreytingum eru á spena olíufyrirtækjanna?

(sbr. tilvitnanir hér að ofan) 

Arnar Pálsson, 13.2.2013 kl. 08:55

13 Smámynd: Arnar Pálsson

Svatli

Takk fyrir að útlista þetta nákvæmar.

Arnar Pálsson, 13.2.2013 kl. 08:56

14 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Arnar!

Ég var fyrst í dag að veita athygli svari þínu. Hér koma nokkrar athugasemdir:

1. Það er bláköld staðreynd, þótt þú virðist ekki sjá það, að þeir sem hafa gripið á lofti gróðurhúsatrú koma úr þeim hópi sem ýmist leynt eða alveg ljóst gekk erinda alræðisaflanna í kalda stríðinu, þ.e. vinstri manna. En vissulega hafa þeir fengið allmarga, talhlýðna, fáfróða blaðamenn, pólitíkusa og aðra með sér.

2. Tveir allra háværustu trúboðar gróðurhúsatrúarinnar, þeir James Hansen og Michael Mann eru báðir stjarneðlisfræðingar. Aðrir sem kveðið hafa sér hljóðs um þessi mál eru gjarnan jarðfræðingar, líffræðingar og aðrir sem augljóslega þekkja ekki til undirstöðurannsókna Blytt og Sernanders um þetta efni, sem ég lærði þó um í skóla fyrir margt löngu. Þær hafa aldrei verið hraktar.

Eins og ég sagði hér að ofan: „Sú blákalda staðreynd, sem ekki einu sinni Svatli getur neitað, að hér er í raun um að ræða hægfara, sveiflukennda kólnun og þornun jarðarinnar síðustu ca. sjö þúsund árin er ekki nefnd“,.

Þú víkur þér undan þessu eins og Svatli og þessi algera undirstöðustaðreynd er hvergi nefnd af þér eða öðrum áhangendum þessara kenninga. 

Og áfram: „Þó hafa niðurstöður Blytt og Sernanders legið fyrir í rúm hundrað ár og verið margsinnis staðfestar síðan, m.a. með ískjörnum frá Grænlandi og Suðurskautslandinu“. Þetta nefnir þú ekki fremur en Sveinn Atli.

Kjarni greinar minnar er, að sú smávægilega uppsveifla sem verið hefur síðustu öldina eða svo sé aðeins „endurhlýnun“ og því fer víðs fjarri að hún sé að nálgast það hitastig og úrkomu sem ríkti t.d. á dögum Grikkja og Rómverja, hvað þá enn fyrr. Það þarf ekki að deila um það, að jafnframt því að jöklar hér á Íslandi og annars staðar hafa verið að myndast og skríða fram, hafa eyðimerkur hvervetna verið að skrælna, eins og ég nefni fjölmörg dæmi um í grein minni.

Hvað gerir það til ef veðurfar yrði aftur eins og það var t.d. á dögum Forn- Egypta, þegar stórir hlutar Sahara voru grónir og Ísland nær jöklalaust? 

Þú reynir ekki einu sinni að svara þessu.

3. Þú virðist trúa á „hokkíkylfuna” um hlýnunina (Yamal- trjáhringjakúrfan), sem mjög hefur verið haldið á lofti ekki síst af Al Gore og IPCC. Þetta var vísvitandi fölsun, gerð með því að velja úr trén sem hentuðu málstaðnum en sleppa öðrum. Hún er marklaus.

Nýlega hefur verið reiknað út að það fé sem efasemdarmenn hafa til umráða sé um það bil þrjú þúsund sinnum minna en það sem varið er til útbreiðslu kenninga gróðurhúsamanna.

 Að lokum þetta: „Sú kenning, að aukning koldíoxíðs um tvo parta af hverri milljón á ári hverju, eins og nú, valdi einhvers konar heimsendi er ekki aðeins fráleit, heldur beinlínis fáránleg. Tvær krónur af hverri milljón hefðu ekki þótt góðir vextir á útrásartímanum“. Þessu reynir þú heldur ekki að svara.

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.2.2013 kl. 17:07

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég átti ekki von á öðru en að mætti aftur í umræðunni með fleiri innihaldslausar athugasemdir sem ekki standast skoðun...og enn og aftur með einhvern pólitískan undirtón svo og samsæriskenningar um fals vísindamanna...þetta er náttúrulega ekki svara vert.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.2.2013 kl. 19:20

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vantaði eitt orð í síðustu athugasemd mína - svona átti þetta að vera:

Ég átti ekki von á öðru en að Vilhjálmur mætti aftur í umræðunni með fleiri innihaldslausar athugasemdir sem ekki standast skoðun...og enn og aftur með einhvern pólitískan undirtón svo og samsæriskenningar um fals vísindamanna...þetta er náttúrulega ekki svara vert.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.2.2013 kl. 19:20

17 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Enn og aftur sveigir Svatli alveg framhjá því að svara þeim spurningum sem ég lagði fram um kjarna málsins og heldur áfram hjali um alger aukaatriði, svo sem pólitík. Til að bíta höfuðið af skömminni talar hann svo um „innihaldslausar athugasemdir“!

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.2.2013 kl. 21:23

18 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Arnar hefur enn ekki reynt að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann hér að ofan.

Vilhjálmur Eyþórsson, 14.2.2013 kl. 19:55

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég ætla í stuttu máli að beina athygli minni að Vilhjálmi (ekki í fyrsta skipti).

Það er löngu orðið ljóst að alveg sama hvað ég segi eða hvernig ég færi rök fyrir máli mínu (með tilvísanir í vísindi og rannsóknir) - það mun ekki breyta afneitun þinni Vilhjálmur. En svona til að skoða "röksemdir" þínar í stuttu máli (fyrir utan það sem ég þegar hef bent á varðandi fræðin):

Vilhjálmur - þín rök hér að ofan eru í fáum orðum (notum punktana þína þrjá úr athugasemd þinni hér að ofan - Vilhjálmur Eyþórsson, 13.2.2013 kl. 17:07):

1. Að loftslagsvísindi séu trúarbrögð og að vinstri menn hafi búið það til í alræði kalda stríðsins...og svo nefnirðu einhverja sem þú m.a. nefnir fáfróða blaðamenn og aðra sem þessu trúa... - S.s. innihaldslaust raus með pólitískum undirtón hjá þér Vilhjálmur

2. Þú atast út í tvo vísindamenn (Mann og Hansen) sem stunda rannsóknir á loftslagi fyrir að vera stjarneðlisfræðingar (ekki getur það nú verið slæmt í sjálfu sér - reyndar eru þeir ekki stjarneðlisfræðingar báðir tveir) og vera trúboða...og að þeir þekki ekki til gamalla rannsókna þeirra Blytt og Sernanders...spurning hvort þú vitir hvað þær rannsóknir hafa að segja og kannski líka það sem hefur gerst í vísindaheiminum síðustu 100 ár eða svo...líklega margt - S.s. meira innihaldslaust raus, óljósar skammir út í tvo nafngreinda menn og tilvísanir í 100 ára fræði hjá þér Vilhjálmur

3. Enn ein hokkíkylfu afneitunin - þar sem þú sakar Michael Mann, Al Gore (sem ekki er vísindamaður) og IPCC (sem ekki stundar rannsóknir) fyrir vísvitandi falsanir - ásamt einhverju óljósu og órökstuddu tali um hversu mikið fé vísindamenn vs. "efasemdamenn" (olíufyrirtæki og fleiri) hafa úr að moða - S.s. enn meira innihaldslaust raus, fullyrðingar um falsanir og aðrar aðdróttanir hjá þér Vilhjálmur

Tómt rugl sem hefur ekkert með vísindin að gera og algerlega án frekari röksemda eða heimilda - það er háttur Vilhjálms hér að ofan. Vilhjálmur er gott dæmi um hvernig málatilbúnaður "efasemdamanna" birtist oft á tíðum - s.s. innihaldslaust raus og innantómar fullyrðingar - en að sjálfsögðu ekkert sem stenst skoðun.

Vilhjálmur hefur hér að ofan sýnt okkur gott dæmi um hvernig afneitunin er - hann fullyrðir út í loftið án frekari gagna - sumir aðrir reyna að dulbúa sínar "efasemdir" í eitthvað sem á að líkjast vísindum (en er það þó ekki - ekki allavega þær ályktanir sem oft eru settar fram) - en Vilhjálmur notar ekki þá leið. Það má kannski segja sem svo að þær útbreiddu "efasemdir" um þessi fræði í dag (bæði hér á landi sem og annars staðar) séu skilgetið afkvæmi lobbíisma olíufyrirtækja og annarra þeirra sem vilja tefja málin...virðist líka geta verið hápólitískt mál að vera með eða á móti, merkilegt nokk...

Sveinn Atli Gunnarsson, 14.2.2013 kl. 19:59

20 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú víkur þér enn og aftur undan kjarna málsins, nefnilega því að hér er aðeins um smávægilega „endurhlýnun“ að ræða, afturhvarf til fyrri alda og árþúsunda þegar gróið land var miklu meira og jöklar miklu minni en nú. Og hvernig getur aukning koldíoxíðs um tvo parta af hverri milljón á ári, eins og nú er talað um leitt til einhvers konar heimsendis?

Vilhjálmur Eyþórsson, 14.2.2013 kl. 20:25

21 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Auk þess heitir þú ekki Arnar.

Vilhjálmur Eyþórsson, 14.2.2013 kl. 20:26

22 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur - meira innihaldslaust blaður - jæja, ég átti svo sem ekki von á öðru frá þér.

Ég nenni ekki að ræða meira við þig - enda hefur það ekkert upp á sig og breytir í sjálfu sér engu varðandi vísindinn...sjá t.d. loftslag.is - Kenningin

Sveinn Atli Gunnarsson, 14.2.2013 kl. 20:30

23 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur

Þú varst ekki að hafa fyrir því að svara minni spurningu. Því ítreka ég hana hér:

En ertu tilbúinn að viðurkenna að stofnanir og hugveitur sem afneita loftslagsbreytingum eru á spena olíufyrirtækjanna?

Hér eru svör við þínum.

1. Loftslagsvísindii eru áróður vinstri manna.

Þetta er dæmigerð "guilt-by-association" rök sem eiga einhvernvegin að trompa vísindaleg rök. JAFNVEL þótt að meirihluti loftslagsvísindamanna væru vinstra megin á pólitíska rófinu (og ég trúi ég ekki fyrr ég sé gögn þess efnis), þá myndi það ekki draga vísindalegar niðurstöður í efa!

Gögn sem styðja tilgátuna um þyngdarafl eru jafngóð, hvort sem vinstri eða hægri maður aflar þeirra.

2. Þú ferð með rangt mál með prófgráður og menntun Mann. Ertu vísvitandi að ljúga, eða hefur fengið rangar upplýsingar?

Þú snýrð prófgráðudæminu alveg við. Staðreyndin er sú að flestir loftslagsvísinda-afneitarar eru ekki með þjálfun í veðurfræði, jarðfræði, haffræði, eðlisfræði og þeim greinum sem snerta beint á rannsóknir á loftslagi. Margir af þeim andstæðingum  eru einmitt langt frá sinni "akademísku-heimastöð", og það er alvita að líkurnar á að menn fari með fleipur vaxa með þeirri fjarlægð. Þetta er ekki bundið við loftslagsafneitara, Nóbelsverðlaunahafar hafa dottið í þennan poll líka.

3. Að Blytt og Sernanders afsanni þá ályktun að loftslagsbreytingar séu vegna CO2 af mannavöldum.

Gögn Blytt og Sernander sýndu fyrir næstum því öld, að á undanförnum árþúsunum hafi hitastig sveiflast af náttúrulegum ástæðum. Þær sveiflur duga samt enganvegin til að útskýra hraða og mjög marktæka aukningu í hitastigi.

Hockey stick grafið samþættir margskonar gögn, og er EKKI byggt á því að velja ákveðin tré sem henta kenningunni. Ef Mann og félagar hefðu sent svoleiðis rannsókn inn til birtingar, þá hefði henni verið hafnað samstundis.

Þú virðist vera einu þrepi frá því að halda því fram að heilt vísindasamfélag, og skyld fræðasvið, séu búin að kokka upp eitt allsherjar loftslagssamsæri? 

Voru það ekki líka vinstri menn sem sökktu Atlantis, skutu JFK, sprengdu tvíburaturnana og stífluna í Laxá í Aðaldal?

4. Vilhjálmur: „Sú kenning, að aukning koldíoxíðs um tvo parta af hverri milljón á ári hverju, eins og nú, valdi einhvers konar heimsendi er ekki aðeins fráleit, heldur beinlínis fáránleg. Tvær krónur af hverri milljón hefðu ekki þótt góðir vextir á útrásartímanum“. Þessu reynir þú heldur ekki að svara.

Víst skiptir styrkur efna máli - jafnvel þótt hann sé lágur. Líkaminn finnur mun á styrk Kolmónoxíðs, jóna og vítamína, sem er á þessum skala. Þótt að heildarstyrkur kolmónoxíðs sé mjög lítill í útblásturslofti dugir það alveg til að drepa mann.

Arnar Pálsson, 15.2.2013 kl. 16:32

24 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú fellur í nákvæmlega sömu gryfjuna og trúbróðir þinn, Svatli. Hjalar um aukaatriði en víkur þér undan kjarna málsins.

Í spurningu til þín hér að ofan sagði ég m.a.: „„Sú blákalda staðreynd, sem ekki einu sinni Svatli getur neitað, að hér er í raun um að ræða hægfara, sveiflukennda kólnun og þornun jarðarinnar síðustu ca. sjö þúsund árin er ekki nefnd“,.

Þú víkur þér undan þessu eins og Svatli og þessi algera undirstöðustaðreynd er hvergi nefnd af þér (Arnari) eða öðrum áhangendum þessara kenninga. Þess í stað blaðrar þú eitthvað um „sveiflur af náttúrulegum ástæðum“. Hvaða rugl er þetta?

Og áfram: „Þó hafa niðurstöður Blytt og Sernanders legið fyrir í um hundrað ár og verið margsinnis staðfestar síðan, m.a. með ískjörnum frá Grænlandi og Suðurskautslandinu“.

Kjarni greinar minnar í Þjóðmálum er ekki pólitík heldur, að sú smávægilega uppsveifla sem verið hefur síðustu öldina eða svo sé aðeins „endurhlýnun“ og því fer víðs fjarri að hún sé að nálgast það hitastig og úrkomu sem ríkti t.d. á dögum Grikkja og Rómverja, hvað þá enn fyrr. Vogar þú þér að neita þessu?

Það þarf ekki að deila um það, að jafnframt því að jöklar hér á Íslandi og annars staðar hafa verið að myndast og skríða fram, hafa eyðimerkur hvervetna verið að skrælna, eins og ég nefni fjölmörg dæmi um í grein minni.

Hvað gerir það til ef veðurfar yrði aftur eins og það var t.d. á dögum Forn- Egypta, þegar stórir hlutar Sahara voru grónir og Ísland nær jöklalaust?

Þú reynir ekki einu sinni að svara þessu.

Vilhjálmur Eyþórsson, 15.2.2013 kl. 18:00

25 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Arnar - það er vonlaust að ræða þessi mál við menn sem afneita vísindalegum gögnum, eins og Vilhjálmur gerir staðfastlega...en það er það sem oft er við að etja í þessari umræðu. Það eru margir sem eru til í að fullyrða út í loftið án nokkurs innihalds - og þeir munu ekki samþykkja rök með gögnum aflað með vísindalegum aðferðum - sérstaklega ef það passar ekki í hugmyndafræði þeirra.

Vandamálið er oft á tíðum ekki bara að það er verið að menga umræðuna með vafasömum gögnum frá afneitunariðnaðinum (með fjármagni frá m.a. olíufyrirtækjum og öðrum þeim sem hafa hag af seinkun athafna gegn loftslagsvánni) - heldur er vandamálið líka botnlaus trú manna eins og Vilhjálms á eigin röksemdum (þó ekki standi steinn yfir steini í þeim rökum)...hann trúir því t.a.m. statt og stöðugt að vísindamenn falsi gögn í þessu máli og að vinstri menn séu höfuðuppspretta samsæris og falsana varðandi þau gögn - og hvernig er hægt að svara svoleiðis fullyrðingum...

Þ.a.l. skiptir í raun engu máli hvaða gögn eru sett fram - hann mun aldrei samþykkja þau - því að auðvitað hljóta allir sem setja þess háttar gögn fram að vera hluti af vinstri samsærinu...s.s. ómögulegar rökræður sem engu skila. En þó þarf að svara ruglinu - því það eru stundum aðrir á línunni sem eru ekki eins langt leiddir í samsæriskenningum sem kannski taka sönsum þegar röksemdir eru settar fram á heiðarlegan hátt.

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.2.2013 kl. 19:04

26 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Aftur kemur Ketill skrækur til liðs við sinn mann og aftur víkur hann sér alveg undir að ræða það sem máli skiptir. Þið eruð báðir duglegir að skrifa langlokur um aukaatriði þegar ekki hentar að ræða kjarna málsins, sem ég hef margsinnis bent á og ítrekað hér að ofan.

Vilhjálmur Eyþórsson, 15.2.2013 kl. 19:21

27 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur staðhæfir

Sú blákalda staðreynd, sem ekki einu sinni Svatli getur neitað, að hér er í raun um að ræða hægfara, sveiflukennda kólnun og þornun jarðarinnar síðustu ca. sjö þúsund árin er ekki nefnd

Ég vík mér ekki undan þessarii staðhæfingu, heldur reyni að svara þér á sem skýrastan hátt. 

 Þú víkur þér undan þessu eins og Svatli og þessi algera undirstöðustaðreynd er hvergi nefnd af þér (Arnari) eða öðrum áhangendum þessara kenninga. Þess í stað blaðrar þú eitthvað um „sveiflur af náttúrulegum ástæðum“. Hvaða rugl er þetta?

En ég meðtek staðhæfingu þína ekki sem staðreynd! Gögnin sýna að aukning CO2 og hlýnunar er meiri en þekkst hefur áður, og að náttúrulegir kraftar duga EKKI til að útskýra hana. Það er ekki rugl, heldur niðurstaða sem draga má af gögnum. Ég spara stóru orðin, þótt mér leiðist blammeringar eins og þær sem þú notar.

Þú talar um að þú tínir til dæmi í grein þinni. Því miður, það er ekki aðferð vísinda. Aðferð vísinda byggir á að taka gögnin í heild sinni til skoðunar, ekki velja nokkrar staðreyndir sem henta þinni afstöðu.

Ég reyndi að svara þinni spurningu eftir bestu getu.

Nú bíð ég spenntur (en langþreyttur) eftir svari þínu við minni spurningu!

Arnar Pálsson, 18.2.2013 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband