Leita í fréttum mbl.is

Björn Sigurðsson uppgötvaði hæggengar veirusýkingar

Björn Sigurðsson læknir var einn fremsti vísindamaður Íslands. Hann rannsakaði hæggengar sýkingar í sauðfé, bæði lentiveirur og príon. Hann var í fremstu röð þessara rannsókna á sínum tíma og Keldur hófst til virðingar undir hans stjórn. Guðmundur Pétursson fór yfir ævi Björns í stuttum pistli á Vísindavefnum:

Björn vann að fyrstu rannsóknum sínum sem læknanemi árið 1936 á taugaveikisýkingu í Flatey á Skjálfanda og tókst honum að greina sýkilinn við frumstæðar aðstæður. Að loknu kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1937 starfaði hann við Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg og fór síðan til framhaldsnáms og rannsókna við Carlsbergfondets Biologiske Institut í Kaupmannaahöfn. Björn var við framhaldsnám og rannsóknir í Rockefeller Institute í Princeton, New Jersey 1941-1943 en kom síðan heim til starfa á Rannsóknastofunni við Barónsstíg undir stjórn Níelsar Dungals. 

100 ár eru liðin frá fæðingu Björns og af því tilefni verður haldin hátíðarfyrirlestur í Háskóla Íslands (8. ágúst 2013 kl. 16:00 í Hátíðasal Háskólans, Aðalbyggingu). 

Ashley T Haase, prófessor við Minnesotaháskóla heldur minningarfyrirlestur um Björn Sigurðsson, fyrsta forstöðumann Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, í Hátíðasal Háskólans, en í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Björns.

Björn Sigurðsson ávann sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á mæði-visnuveirunni og kenningar um hæggenga smitsjúkdóma. Mæði-visnuveiran er náskyld eyðniveirunni (HIV), og tilheyra þessar veirur báðar flokki lentiveira, en lentiveirur draga nafn sitt af kenningum Björns (lentus=hægur).

Ég þarf vonandi ekki að hvetja fólk til að mæta.

Ítarefni:

Guðmundur Pétursson Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda visindavefur.hi.is

Ashley Haase, MD - University of Minnesota Medical School

Halldór Þormar skrifar um sögu mæði-visnu veirunnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Björn Sigurðsson var ekki aðeins meðal fremstu vísindamanna Íslands, heldur meðal þeirra færustu í heimi, og ekki ólíklegt að Nóbelsverðlaunin hefðu einhvern tíman fallið honum í skaut hefði hann ekki látist langt fyrir aldur fram.

Ágúst H Bjarnason, 8.8.2013 kl. 10:56

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Ágúst

Þetta er líklega rétt.

Ég var að blaða í gegnum ritverkaskránna hans. Framlagið var stórkostlegt og hugsunin mjög skýr og gagnrýnin.

Arnar Pálsson, 8.8.2013 kl. 11:08

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það var mikið lán fyrir íslendinga að Björn skyldi látast áður en hann fékk Nóbelinn.

Íslendingar hafa lent illa í því td. með Kára Stefánsson en það tókst að losna við hann, ekki bara frá Keldum heldur úr landi. Íslendingar háðu erfiða baráttu gegn nemanda Björns  Margréti Guðnadóttur og tókst ekki að koma henni úr landi fyrr en hún var komin á eftirlaun. Áfallið sem reið yfir við endurkomu Kára var ofboðslegt, en samt má segja að baráttan gegn starfi Kára hafi slilað okkur "heinu landi". Ekkert yfirburðamenni hefur treyst sé til að koma heim og hinir hypja sig.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.8.2013 kl. 11:09

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Kristján

Þetta er dálítið undarlegur tónn sem þú slærð hérna, og frekar illa rökstutt.

Björn var stórkostlegur, og Margrét  hefur unnið mörg afrek.

Helsta afrek Kára var að blekkja fjárfesta til þess að fjárfesta í grunnrannsóknum í mannerfðafræði. Það fær enginn Nóbel fyrir það, nema etv í hagfræði...

Arnar Pálsson, 8.8.2013 kl. 13:52

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Kári er einn af afreksmönnum Íslands á sviði læknisfræði þess vegna er hann svona illa þokkaður eins og fram kemur frá þér. Ef ekki væri fyrir fræðistörf hans eða á hans vegum væri alþjóðaeinkunn Háskóla Íslands 0,1. 

 "Björn var stórkostlegur, og Margrét  hefur unnið mörg afrek".

Einmitt það sem ég er að benda á, Margrét hraktist þó ekki úr landi fyrr en um síðir, Margréti leyfðist margt sem vísindamanni af því að hún aðhylltist kommúnisma. Íslendingar hafa aldrei þolað afreksmenn á neinu sviði. Þegar Kristján Jóhannsson var búinn að syngja á Scala var honum loks boðinn prufusöngur í Gamla-Bíó.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.8.2013 kl. 14:37

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Kristján

Afhverju rökstyður þú ekki fyrstu staðhæfinguna þína, frekar en að eltast við að verja heiður Kára.

Hann réð sig til Keldna sem forstöðumann. Sagðist þurfa að skreppa utan til að ganga frá lausum endum og koma aldrei aftur...

Hann fékk sér aðra vinnu ytra.

Ég hef reyndar ekki spurt hann út í hvers vegna þetta fór svona.

Etv. misbauð honum aðstaðan, skortur á stuðningi við rannsóknir, viðhorf  væntanlegra undirmanna eða samfélagsins í heild!

Sannleikurinn er sá að vísindi á íslandi hafa alltaf verið gerð af vanefnum, og ef fólk kvartar þá er það stimplað sem vælandi aumingjar í fílabeinsturni.

Ég held að við séum sammála um að afreksfólk fær ekki mikinn stuðning á íslandi. Við erum bara ekki sammála um hvert afreksfólkið er.

Varðandi fræðistörf Kára og alþjóðaeinkunn HÍ, þá liggur það á borðinu að HÍ gaf Kára og félögum gestaprófessorsstöðu til geta notað vísindagreinar frá decode í bókhaldi um gæði háskólans.

Það að HÍ er kominn inn á topp 300 á einhverjum lista er því ekkert annað en bókhaldsbrella.

sbr.

Decode dregur upp Háskóla Íslands

Arnar Pálsson, 8.8.2013 kl. 15:38

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Hún er rökstudd og enn frekar í öðru innlegginu.

Sé starf Kára og félaga einskisvert brask og sláttumennska sem kemur vísindum ekkert við, hvernig er hann megnugur að toga HÍ upp á yfirborðið? Ég stimplaði ekki allt fólkið í HÍ sem fávita. Má ég nefna próf. HHG sem er miklu klárari braskari á öllum sviðum en Kári sérstaklega í hugmyndum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.8.2013 kl. 23:51

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Kári er sannarlega góður í því að tala viðskipti við vísindamenn, og vísindi við viðskiptamenn.

Hans sterkasta hlið var að sannfæra áhættufjárfesta, og marga aðra um að leggja fé í fyrirtæki, sem átti að finna erfðaþætti og þróa lyf eða greiningarpróf.

Hann smalaði líka til sín góðu fólki, sem gat leyst fyrsta vandamálið...þ.e. að finna erfðaþætti sem tengjast hinumog þessum sjúkdómum. Hann megnaði ekki að safna til sín fólki sem gat leyst hin vandamálin tvö...decode reyndi að markaðsetja greiningarpróf en töpuðu á ameríska markaðnum fyrir fyrirtækinu 23andme.

Ég vann á decode í eitt ár, og kvittaði upp á pappíra um að uppljóstra ekki leyndarmálum fyrirtækisins.

En ég get sagt að innan fyrirtækisins voru vísindin gerð af fólkinu á gólfinu, þótt að yfirmaðurinn hafi reyndar kvittað upp á allar vísindagreinar sem fóru frá fyrirtækinu.

Reyndar voru vísindagreinar eina afurð fyrirtækisins.

Það er frábrugðið öðrum þekkingar og líftæknifyrirtækjum.

ORF líftækni t.d., hafði birt eina grein árið 2011, en á móti þróað margar vörur og selt þær fyrir raunverulega peninga!

SAS greiningarfyrirtækið í Norður Karólínu þróaði hugbúnað fyrir tölfræðigreiningar og spálíkön fyrir fyrirtæki og háskóla. Það birtir greinar, en þá eru það útfærslur af einstökum atriðum og forstjórinn þarf ekki að kvitta upp á allt (hann er ekki höfundur að öllum greinunum). SAS veltir milljörðum og selur hugbúnað til hundruða landa.

Með öðrum orðum, skipulagið og framleiðni decode var, og er líklega enn, mjög afbrigðilegt miðað við raunveruleg þekkingafyrirtæki.

Þess vegna er ég tregur til að setja Kára á sama stall og Björn og Margréti.

Arnar Pálsson, 9.8.2013 kl. 09:37

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég er ekki vísindamaður og hef að sjálfsögðu ekkert í þig að gera. Ég bara treysti og trúi að vísindastarf frai fram hjá fólkinu á gólfinu hjá Kára. Ég trúi af því að það blasir við að miðlægur gagnagrunnur sé grundvöllur að læknirsfræði. Ég á bágt með að trúa að þó það verði opinbert að ég hafi fengið klamedíu að grundvöllur lífs míns sé fallinn, fyrir utan að það getur verið flökkusaga.

Ég þekki ekki íslenska læknirsfræði en Björn stendur einn á stalli þangað til annað kemur í ljós slíkir eru hans yfirburðir. Og að Margrét hafi þurft að "flýja" til útlanda með rannsóknir sínar og Björns er ekki bara skömm fyrir þig heldur mig. 

Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.8.2013 kl. 10:58

10 Smámynd: Arnar Pálsson

Afsakaðu Kristján tafir á svari.

Skoðanir okkar eru jafn réttháar, svo lengi sem við virðum staðreyndirnar.

Miðlægir gagngrunnar eru líklega framtíðin, en það er hellingur af praktískum atriðum sem þarf að huga að varðandi uppsetningu og öryggi þeirra, því annars getur allt farið í handskol.

Á öld upplýsinganna er nefnilega ekki hægt að troða andanum aftur í lampann. Ef upplýsingar leka út, er skaðinn skeður.

Hvort það sé klamidýa eða erfðabreytileiki, HPV smit eða lyfja-saga, þá geta öll atriðin skipt máli.

Því upplýsingarnar sem nota má til að skoða áhrif, t.d. HPV á heilsu, getur vinnuveitandi eða tryggingarfélag notað, til að mismuna okkur.

Ég þekki bara ekki sögu Margrétar almennilega, sem er leiðinlegt því hún er frábær vísindamaður.

Arnar Pálsson, 14.8.2013 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband