Leita í fréttum mbl.is

Njótum náttúrunnar en lærum á hana án snertingar

Hér er endurprentaður pistill af síðu Kennarafélags Íslands (Njótum náttúrunnar en lærum á hana án snertingar). Pistillinn er ritaður af stjórn Samtaka líffræðikennara (sem blogghöfundur er hluti af).

---------------

Dagur íslenskrar náttúru var 16. september sl. Markmið dagsins er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum. Fyrr í haust sendi Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hvatningu til Íslendinga um að fagna deginum. Það er ánægjuefni að stjórnvöld sýni náttúru landsins áhuga. Því miður endurspeglast þessi áhugi ekki í menntakerfinu þó að fögrum orðum sé farið um viðfangsefnið í námskrám. Áralangur niðurskurður veldur líffræðikennurum áhyggjum og fól aðalfundur Samlífs, samtaka líffræðikennara, 20. apríl 2013 stjórninni að senda frá sér eftirfarandi ályktun:

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfnimarkmiðum. Áhyggjur eru af sívaxandi niðurskurði í skólakerfinu sem leiðir til stærri hópa. Fjölgun í nemendahópum bitnar á verklegri kennslu og þar með gæðum menntunar. Áhersla námskrár um hæfniviðmið er í andstöðu við sístækkandi nemendahópa.

Mennta- og menningarmálaráðherra er hvattur til að tryggja að ekki verði frekari niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum. Í námskrá (1999) fækkaði einingum í raungreinum í kjarna úr 12 í 9 á bóknámsbrautum öðrum en náttúrufræðibraut en náttúrufræðibrautum var einingum í raungreinum fækkað úr 36 í 21. Samræmist fækkun raungreinaeininga í framhaldskólum markmiðum um fjölgun nemenda í raungreina og tækninámi? Mikilvægt er að tryggja rými til að raungreinar (líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði) verði veigamikill hluti af námi í íslenskum framhaldsskólum.

Fækkunin úr 12 einingum í 9 einingar (NÁT103, NÁT113 og NÁT123) á bóknámsbrautum sem tilgreind er hér að ofan varð til þess að eðlis- og efnafræði var blandað saman í einn áfanga. Þetta hefur leitt til þess að í flestum tilfellum kennir efnafræðingur áfangann og því er lítið fjallað um eðlisfræði. Álíka gáfulegt væri að spyrða saman ensku og dönsku og gefa fyrir einkunn í erlendum tungumálum. Gefum raungreinum tíma og rúm í íslensku menntakerfi svo að komandi kynslóðir kunni að fagna Degi íslenskrar náttúru og njóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Markmiðin eru flott en ef það má ekki kosta neitt þá eru þau gleymd og tröllum gefin. Er þetta ekki eintómt fagurgal í nýjum námskránum?

Úrsúla Jünemann, 18.9.2013 kl. 20:42

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Úrsúla

Það sem ég hef séð af nýju námskránum er ansi háfleygt, en ekki endilega slæmt.

Vandamálið er alltaf það sama, hvernig má örva áhuga og kenna öguð vinnubrögð á sama tíma? Án þess að það kosti neitt...

Arnar Pálsson, 25.9.2013 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband