Leita í fréttum mbl.is

Konur með Y litninga í heilanum

Allir einstaklingar fá erfðaefni frá foreldrum sínum*. En sumir einstaklingar eru með erfðaefni í frumum sínum, frá fleirum en sínum líffræðilegu foreldrum. Sumir einstaklingar búa svo vel að vera vefjablendingar (chimeras).

 

Vefjablendingar

Vefjablendingar geta verið með fernskonar útgáfur af hverju geni, en þó aldrei fleiri en tvær í hverri frumu. Þetta er vegna þess að þeir eru með blöndu af frumum frá tveimur einstaklingum/fóstrum. Einnig finnast einstaklingar með stökkbreytingu í einum vef en ekki í öðrum (t.d. í annari hendinni en ekki í hinni hendinni).

Þetta hljómar brjálæðislega en svona er raunveruleikinn stundum. Um miðbik síðustu aldar var lýst rannsókn á konu, með blóð af tveimur blóðflokkum (O og A). Í ljós kom að hún var tvíeggja tvíburi, og hafði líklega fengið stofnfrumur blóðs frá bróður sínum í móðurkviði.

Einnig geta vefjablendingar orðið til þegar tvö frjóvguð egg renna saman. Þá verður til einstaklingur með 4 erfðamengi, tvö frá föður og tvö frá móður. Ef ólíkir kynlitningar komu frá föðurnum, getur einstaklingurinn verið beggja blands, með tilliti til kynferðis. Ytri verkfæri gætu verið af einu kyni, en heilinn af öðru. Þessi gerð vefjablendinga er best skilgreind með tilliti til þroskun hnoðakambsfruma, þar sem greina má mismunandi litmynstur í húð vegna þess að litfrumur á öxl fara aðra þroskabraut en litfrumur á ökkla.

Sérkennilegt dæmi kom upp þegar erfðapróf sýndu að móðir ein, var ekki erfðafræðileg móðir beggja barna sinna. Jafnvel þótt að hún hefði sannarlega fætt þau. Í ljós kom að konan var vefjablendingur, og eggjastokkar hennar af mismunandi arfgerðum.

Svona smáblendingar (microchimeras) eru mun algengari en við höldum. Í ljós hefur komið að við meðgöngu þá sleppa frumur frá fóstri inn í blóð móður. Og frumurnar geta lifað þar og skipt sér. Erfðapróf hafa sýnt að í heilum mjög margra mæðra má finna Y litninga, sem eingöngu er hægt að skýra með svona frumuflakki frá fóstri til móður.

Manni fyndist eðlilegt að frumur gætu fetað báðar áttir á þessum stíg, og fóstrið þannig grætt frumur frá móður sinni. Ég hef reyndar ekki lesið nægilega mikið, til að vita hvort svo sé.

 

Stökkbreytingar í líkamsfrumum

Í þroskun þá fara frumuhópar á mismunandi brautir og mynda hina og þessa vefi. Frumurnar skipta sér ansi oft, og geta orðið fyrir stökkbreytingum, sem þá erfist í viðkomandi frumu-ætt (sem t.d. myndar hluta húðarinnar eða einhvern vöðva).

Slíkur fjölbreytileiki í líkamsfrumum þýðir vitanlega að erfðasamsetning hægri og vinstri handar er ekki endilega sú sama. Og eins og áður hefur verið rætt, þá þýðir þetta líka að eineggja tvíburar eru aldrei nákvæmlega eins.

Auðvitað eru stökkbreytingar í líkamsfrumum mjög mikilvægar, því þær liggja til grundvallar mörgum krabbameinum. Það er uppsöfnun á göllum í líkamsfrumum sem gerir sumum frumum þeirra kleift að losna undan ægivaldi fjölfrumungsins og fjölga sér taumlaust. Þannig fer æxlisvöxtur af stað. Einnig er talið að vissar stökkbreytingar geri æxlisfrumur ífarandi og þar með lífshættuleg.

Að lokum vil ég samt árétta að genin eru ekki allt. Umhverfi er meiriháttar afl í tilvist lífvera. Margir sjúkdómar okkar mannfólksins eru að mestu  leyti vegna umhverfisins, þ.e.a.s. næringar, sjúkdóma eða annar ytri þátta.

Við ritun þessarar greinar var stuðst að miklu leyti við grein Carl Zimmers í New York Times. DNA Double Take 16. sept. 2013.

*Eða foreldri, í tilfelli kynlausrar æxlunar.

Leiðréttingar, alvarleg skyssa í annari málsgrein var leiðrétt 25. september, og annað smálegt snurfusað.

ítarefni:

Arnar Pálsson. „Er hægt að taka kjarna úr tveimur sáðfrumum, setja í tóma eggfrumu og búa þannig til einstakling úr tveimur karlmönnum?“. Vísindavefurinn 7.2.2011. http://visindavefur.is/?id=19843.

Arnar Pálsson. Ólíkir eineggja tvíburar 11. mars 2008.

Male microchimerism in the human female brain. Chan WF, Gurnot C, Montine TJ, Sonnen JA, Guthrie KA, Nelson JL. PLoS One. 2012;7(9):e45592. doi: 10.1371/journal.pone.0045592.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki lesblindur, en mér tókst að lesa fyrirsögnina vitlaust

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2013 kl. 22:57

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Gunnar

Ég er því miður hallur undir orðaleiki og flækjur, misvísandi og ógagnsæjar orðarunur og setningaskessur torlesnar.

Arnar Pálsson, 25.9.2013 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband