Leita í fréttum mbl.is

Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Fyrir rúmri viku stóð Vísindafélag Íslendinga fyrir málþingi vegna yfirvofandi niðurskurðs á samkeppnisjóðum Rannís.  Þar var rætt um mikilvægi grunnrannsókna frá nokkrum sjónarhornum. Hér fylgir samantekt af málþinginu og ályktun stjórnar Vísindafélagsins.

Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Grunnrannsóknir, þekkingarsköpun og hagnýting þekkingar eru hornsteinar framfara, tækniþróunar og hagvaxtar í vestrænum samfélögum. Mörg af okkar helstu og stöndugustu fyrirtækjum eru byggð upp á grunni rannsókna og þekkingarsköpunar sbr. Össur, Marel, Íslensk erfðagreining, CCP ofl. Fjöldi fyrirtækja í iðnaði allt frá stóriðju til útgerðar og landbúnaðar eru öflug þekkingarfyrirtæki þar sem grunnrannsóknir skipta verulegu máli. Grunnrannsóknir, nýsköpun og hagnýting þekkingar er virðisaukandi keðja sem stjórnvöld verða að hlúa að.

Vísindafélag Íslendinga hélt fyrir skömmu málþing um gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag. Málþingið sem fór fram í sal Þjóðminjasafnsins var afar vel sótt enda boðið upp á fimm áhugaverð erindi sem sýndu okkur hvernig grunnrannsóknir snerta beint þekkingar- og nýsköpunarstarf í íslensku samfélagi. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands stýrði málþinginu.

Magnús Karl  Magnússon, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands hélt erindi um hvernig rétt væri að fjármagna grunnrannsóknir.  Í máli hans kom fram að fjárframlög til háskólastarfs (fjárframlög fyrir hvern nemanda) væru mun minni hér á landi en  í öðrum OECD löndum. Að meðaltali verja OECD ríkin 60% meira til háskóla en Íslendingar og hin Norðurlöndin verja rúmlega tvöfalt hærri fjárhæð til háskólastarfs á hvern háskólanema.  Magnús benti á að þessar tölur endurspegli ekki einungis föst framlög til skóla heldur heildarfjármögnun. Í  öðrum löndum er fjármögnun gegnum samkeppnissjóði vísinda mun veigameiri hluti af tekjum skóla. Slík fjármögnun er að flestra mati skilvirkasta og gegnsæjasta leiðin til að auka gæði rannsóknastarfsins. Magnús hvatti til þess að um leið og fjármögnun háskólastarfs verði bætt verði hlutur samkeppnissjóðanna stóraukinn. Slíkt fjármögnun gefi rannsóknarstarfi aukinn sveigjanleika og geti bætt nýliðun og vöxt þeirra rannsóknarhópa sem skara fram úr.

Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, ræddi framtíð og gæði doktorsnáms á Íslandi. Doktorsnámið er mjög ungt og ennþá í mótun. Doktorsnemum hefur fjölgað úr 52 árið 2000 í 510 árið 2011. Þessi tala er nokkuð lægri, miðað við fólksfjölda, en gerist á hinum Norðurlöndunum, en ásættanleg engu að síður. Rannsóknaháskólar verða þó ekki til á einni nóttu og ekki án fármagns. Eiríkur taldi að gæði doktorsnáms væru í hættu vegna fjárskorts og þá sérstaklega vegna niðurskurðar til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Á síðustu þremur árum hefur Rannsóknasjóður styrkt 170 doktorsnema og þannig staðið undir stórum hluta uppbyggingar doktorsnámsins.

Erna Magnúsdóttir sérfræðingur við Lífvísindasetur Háskóla Íslands ræddi mikilvægi nýliðunar í íslensku vísinda- og fræðasamfélagi. Skortur á nýliðun er stóralvarlegt mál sem endurspeglast í því að við nýtum ekki nægjanlega vel þann mannauð sem við fjárfestum í gegnum menntun. Erlendis eru notaðar sértækar leiðir til þess að örva nýliðun. Það er boðið upp á sérstaka styrki fyrir nýdoktora eins og hér á Íslandi en jafnframt upp á veglega styrki fyrir fólk sem hefur lokið nýdoktorsþjálfun og er að koma á fót sjálfstæðum rannsóknum. Það umhverfi sem mætir ungu hámenntuðu fólki í íslensku háskólasamfélagi er beinlínis fráhrindandi og ekki til þess fallið að örva nýliðun. Afleiðingin er atgervisflótti eða „spekileki“ úr íslensku samfélagi. Þörf er á því að taka til fyrirmyndar aðgerðir annarra landa til að koma í veg fyrir atgervisflótta þann sem við glímum við.

Hekla Arnardóttir fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) lýsti hlutverki sjóðsins sem er áhættufjárfestir sem fjárfestir í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þar sem vænta má mikils virðisauka. Hekla sýndi hvernig grunnrannsóknir skila sér inn í atvinnulífið í formi nýsköpunarfyrirtækja en af þeim 35  fyrirtækjum sem Nýsköpunarsjóður á hlut í er um þriðjungur sprottinn beint úr rannsóknarstarfi á vegum háskóla, sjúkrahúsa og einstaklinga. Þetta er fjölbreytt flóra af fyrirtækjum en þó flest á sviði upplýsinga eða heilbrigðisækni. Sjóðurinn hefur nú þegar hagnast á því að selja hlut sinn í fyrirtækjunum Hafmynd og Markorku sem bæði urðu til úr rannsóknarstarfi frumkvöðlanna. Sá hagnaður nýtist beint til fjárfestinga í nýjum sprotafyrirtækjum og gefur þannig vel menntuðu fólki tækifæri á spennandi störfum.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir lektor í hagfræði við Háskóla Íslands nefndi að Íslendingar hafi ekki val um að spara rannsóknarútgjöld í þeirri von að hægt sé að nýta erlendar rannsóknir til hagnýtingar, þar sem þekkingu sérhæfðra og virkra rannsóknaraðila þarf til hagnýtingarinnar sjálfrar. Því sé ekki val um að stunda aðeins hagnýtar rannsóknir og spara fé til grunnrannsókna, heldur sé um að ræða samfellt ferli sem ekki verði skilið í sundur.Í tali Tinnu kom fram að þekking sem verður til við vísindarannsóknir þurfi að nýtast samfélaginu. Skattfé er veitt til vísindastarfs og því eðlilegt að samfélagið njóti góðs af afrakstri rannsókna. Það hamlar þó mjög að íslenskt samfélag er vanþróað sem upplýsingasamfélag og vandamálin mörg þegar kemur að aðgengi að upplýsingum sem gætu nýst til rannsókna, m.a. vegna undirfjármögnunar innviða þeirra stofnana sem hafa mikilvæg gögn í sinni vörslu.

Að loknum framsöguerindum sátu fyrirlesarar í pallborði ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir forstöðumanni mennta og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins og Magnúsi Lyngdal Magnússyni, sérfræðingi hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það var samhljómur meðal þátttakenda í pallborði að til að tryggja árangursríka nýsköpun byggða á grunnrannsóknum væri nauðsynlegt að efla verulega samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs, þar sem slíkir styrkir skiluðu sér beint til vísindamanna- og frumkvöðla. Auk þess væri jafningjamatið sem beitt væri við mat umsókna úr þessum sjóðum öflugasta eftirlitskerfið sem völ væri á til að meta gæði rannsóknaverkefna.

Ályktun stjórnar Vísindafélags Íslendinga

Grunnrannsóknir, þekkingarsköpun og hagnýting þekkingar er virðisaukandi keðja sem hvetur hagvöxt. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag er óumdeilt. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að fylgja eftir ákvæðum samnings um aldarafmælissjóð Háskóla Íslands þar sem segir m.a. að fjármögnun til háskólasamfélagsins skuli ná meðaltali OECD ríkja árið 2016 og meðaltali Norðurlanda árið 2020. Til að ná þessu markmiði að þá er efling samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs langmikilvægasti þátturinn. Það er því með öllu óásættanlegt að stjórnvöld skuli stefna á að skera þessa sjóði niður, á sama tíma og dregið er jafnt og þétt úr framlögum á hvern nemanda til háskóla landsins. Stjórn Vísindafélag Íslendinga skorar á stjórnvöld að standa vörð um og efla samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs enda hafa þessir sjóðir fyrir löngu sannað mikilvægi sitt í uppbyggingu íslensks vísinda- og fræðasamfélags, fyrir árangur vísindamanna á Íslandi í alþjóðlegri samkeppni, fyrir þekkingarskapandi atvinnugreinar í landinu, almenna nýsköpun í atvinnulífi og fyrir íslenska menningu í víðum skilningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband