Leita í fréttum mbl.is

Fjöldauppsagnir á vísindamönnum

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrirhuguð skerðing á sjóðum sem styrkja rannsóknir hérlendis. Skerðingin er nokkur hundruð milljónir, í rannsóknasjóði, tækniþróunarsjóði og markáætlun Rannís, auk þess að rannsóknanámsjóður er lagður af.

Rannsóknastyrkir fara að mestu leyti (70-80%) í laun framhaldsnema og annars starfsfólks. Laun framhaldsnema eru um 300.000 kr á mánuði, og þeir eru fæstir með samninga lengur en til 3 ára. Framhaldsnemar og ungir vísindamenn eru hugsjónafólk, sem vinnur langan dag fyrir fáar krónur í óstöðugu umhverfi.

Ef skerðingin á sjóðunum verður samþykkt, verða í raun fjöldauppsagnir á ungum vísindamönnum.

Nemendur sem hafa unnið að verkefnum í 2 eða fleiri ár, geta átt á hættu að flosna upp úr námi og mörg rannsóknarverkefni munu lognast út af. Afleiðingarnar verða líka fjölþættari, eins og aðrir hafa rakið.

En það sem skiptir mestu máli er að vísindasamfélag íslands láti í ljós skoðun sína á þessum áformum.

Mætum á þingpallana

Klukkan 15:30 í dag (mánudaginn 4. nóvember 2013) verða sérstakar umræður um fjármögnun samkeppnissjóðanna á Alþingi.  Þingfundur byrjar klukkan þrjú en umræða um sjóðina kl. 15.30. 

Vísindamenn og þeir sem bera hag vísinda og fræða fyrir brjósti ættu að fjölmenna á þingpallana í dag.

Sérstök umræða kl. 3.30 síðdegis um framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.
Málshefjandi er Svandís Svavarsdóttir og til andsvara verður mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson.

Helstu áherslur málshefjanda eru:
Framtíðarsýn ráðherrans varðandi rannsóknartengda nýsköpun á Íslandi;
eðlilegt hlutfall samkeppnissjóða af framlagi hins opinbera til
vísindastarfs; grunnrannsóknir; Rannsóknarsjóður- hlutverk hans og þróun?  


mbl.is Segja uppsagnir vofa yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er notuð aðferð strútsins. VMST birtir ómarktækar  tölur um minnkandi atvinnuleysi og leikur skv. því. Þeir sem fullnýta bótarétt og þeir sem flýja land, eru huldufólk sem er afmáð úr bókum VMST. Hagstofan birtir tölur nær sanni. Að sjálfsögðu er látbragðsleikur VMST í boði og á ábyrgð velferðarráðherra, sem er Frammari eins og Gissur, og hún síðan á framfæri ríksstjórnarinnar! Úrræðaleysið er algjört og engu minna en í tíð Jógrímu, sem varð að steini, eftir að hafa orðið að athlægi.

Þjóðólfur (IP-tala skráð) 4.11.2013 kl. 14:06

2 identicon

Sæll.

Hér verður að skera niður. Hið opinbera er með puttana í of mörgu og mörg mál sem verðskulda pening. Skera þarf niður útgjöld ríkisins um 20-25% á ári út þetta kjörtímabil enda skuldar hið opinbera langt umfram eignir.

Hvers vegna í ósköpunum eiga skattgreiðendur að greiða nám og rannsóknir annarra? Þú veist vel að mikið af þessum svokölluðu rannsóknum er ekki pappírsins virði sem þær eru skrifaðar á. Þó hið opinbera hætti öllum styrkveitingum mun rannsóknar og þróunarstarf ekki leggjast af - einungis það "rannsóknar- og þróunarstarf" sem engu skilar. Hvaða gagn er t.d. í svokölluðum rannsóknum kynjafræðinga svo lítið dæmi sé tekið? Hvað með bókmenntafræðirannsóknir?

Ef raunverulegt gagn er í þessum rannsóknum er hægt að fá fyrirtæki til að styrkja viðkomandi rannsókn. Skattgreiðendur geta ekki borgað allt. Hvaða vit er t.d. í því að greiða fyrir nám lækna, læknir kostar skattgreiðendur um 9 millur, sem síðan flýja land vegna aðstæðna?

Hefur þú hugmynd um hve mikið hið opinbera skuldar? Á endalaust að bæta við þá skuldasúpu?

Fólk sem ætlar sér í iðn- eða háskólanám á að borga fyrir það alfarið úr eigin vasa. Þú lærðir erfðafræði og nýtur góðs af því námi. Hvers vegna ætti ég að borga það fyrir þig?

@Þjóðólfur: Mikið til í þessu - tölur um atvinnuleysi er án efa mun hærri en hið opinbera vill vera að láta.

Helgi (IP-tala skráð) 4.11.2013 kl. 17:11

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Þjóðólfur

Ég veit ekki alveg hvernig VMST vinnur, eða smáatriði þeirra mála sem þú reifar.

Sæll Helgi

Auðvitað þarf ríkið að skera niður. En það er líka spurning um forgangsröðun, sem er alltaf pólitísk. Ég er ekki að segja að við eigum að taka lán fyrir rannsóknum, þó að sumir segi að það borgi sig!

Ef þú sérð ekki vit í því að ríkið fjármagni menntakerfi, þá held ég að það borgi sig ekki fyrir mig að rökstyðja það. En ímyndaðu þér samt þjóðfélag ólæsra, sem ekki kunna að reikna eða vinna með tölur, kunna ekki að gera áætlanir eða framkvæma skurðaðgerðir. Hagvöxtur í slíku steinaldarsamfélagi verður örugglega ekki mikill, þótt að einhverjar sykurpúðaætur kunni sannarlega að hafa það gott.

Varðandi stuðning við rannsóknir, þá skilar hann sér á nokkra vegu.

1. Það verður til ný þekking - í formi greina, bóka eða einkaleyfa.

2. Það verður til fólk sem er læst á þessa þekkingu.

3. Það verður til samfélag þekkingar, þar sem menntað fólk og framtaksaðillar geta unnið saman að hagnýtingu.

Sannarlega er framlag íslands lítið (liður 1.), en það er mörgum sinnum mikilvægara að við þjálfum fólk sem getur tileinkað sér nýjustu vísindi heimsins. Það fólk þjálfum við með því að styrkja rannsóknasjóði.

Að lokum það er ekki hægt að hagnýta allar grunnrannsóknir. En mikilvægast er að það er yfirleit ófyrirsjáanlegt hvaða grunnrannsóknir reynast hagnýtar, eða hjálpa okkur að betrumbæta þjóðfélagið.

Arnar Pálsson, 4.11.2013 kl. 17:27

4 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Raunin er að ef að jafnt á að taka þyrfti að segja upp um 8.000 ríkisstarfsmönnum.

Það er nefnilega svo að þeir sem urðu atvinnulausir 2008-9 komu að langsamlega stærstum hluta af almennum markaði og aðeins 1 af 10 úr ríkisgeiranum sem er þó nálægt 4 af 10 starfsmönnum á markaði.

Voru það ekki kjörorð síðustu ríkisstjórnar "JÖFNUÐUR" sem öllu átti að bjarga?

Var það máski aðeins "jöfnuður fyrir suma"?

Óskar Guðmundsson, 4.11.2013 kl. 17:44

5 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Einnig má benda á að unnum klst á landinu fækkaði 2008-9 um 10,5% og hefur ekki náð að fjölga aftur nema um rétt tæpt 1%.

Óskar Guðmundsson, 4.11.2013 kl. 17:45

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Óskar

Ætli stóri munurinn á ríki og almennum markaði sé ekki, grunnlaun á móti meira atvinnuöryggi. Fólk fer á almennan markað ef það vill hærri grunnlaun. Fólk fer til ríkisins ef það vill meira atvinnuöryggi.

Miðað við ríkistjórnirnar þar á undan var auðvelt fyrir síðustu stjórn að bralla undir merkinu jöfnuður, því ekki var hægt að fara lengra í ójafnaðaráttina.

Það er ekki hægt að jafna allt, ef maður sýnir frjálsum vilja einhverja virðingu!

Ég er fylgjandi því að ríkið (og fyrirtæki) verji störf með því að minnka launaskrið og minnka starfshlutfall. En ég er á móti því að ríkið púkki bara upp á stóreignafólk.

Arnar Pálsson, 4.11.2013 kl. 17:57

7 identicon

Sæll, @3:

Ég sé ekkert vit í því að ríkið fjármagni menntakerfi - vil að hver og einn greiði fyrir sína menntun (kannski að frátöldum grunnskóla). Ef hið opinbera tekur ekki fé af öllum til að fjármagna opinbera menntakerfið og ýmislegt annað sem það á ekki að koma nálægt hefur fólk fé á milli handanna til að fjármagna eigin menntun.

Segjum að þú greiðir nú 150 þús í skatt á mánuði. Ef sú tala væri lækkuð niður í kannski 30 þús getur þú auðveldlega greitt 50 þús á mánuði vegna grunnskóla þíns barns  og 40 þús vegna leikskóla þíns barns - svo ímynduð dæmi séu tekin. Ég er því ekki að mæla fyrir samfélagi ólæsra - ég er að mæla fyrir því að menn greiði fyrir þá þjónustu sem þeir nýta sér. Af hverju á ég að fjármagna t.d. iðnnám þegar margir iðnaðarmenn eru farnir úr landi. Af hverju á ég t.d. að fjármagna nám læknis þegar læknaskortur er hérlendis? Svo er það auðvitað þannig, sem betur fer, að þeir sem þetta læra njóta auðvitað góðs af sínu námi í formi launa og væntanlega starfsgleði - ekki fæ ég neitt af þessu þó ég borgi undir þessa aðila.

Af hverju á ég að greiða fyrir fóstureyðingar? Af hverju á ég að greiða fyrir gagnslaust stjórnmálafræðinám? Hvað græði ég á að borga fyrir kynjafræðinám einhverra kvenmanna sem er illa við karlmenn? Þeir sem þetta vilja gera/læra greiða einfaldlega sjálfir fyrir það. Bretar borga fyrir sitt háskólanám. Eru þeir aftarlega á merinni varðandi háskólanám? Nú flykkjast Kínverjar þangað og láta sig ekki muna um að borga fyrir það nám. Kannski eru t.d. breskri og bandarískir háskólar góðir vegna þess að nemendur greiða talsvert fyrir sitt nám og vilja því vera vissir um að þeir fái eitthvað fyrir sinn aur. 

Ég veit vel að ekki er hægt að nýta strax allar grunnrannsóknir og ýmislegt innan t.d. stærðfræðinnar sannar það (tvinntölur). Hins vegar vaknar spurningin um það hvers vegna ókunnugir eigi að greiða fyrir "rannsóknir" annarra? Af hverju greiða menn ekki fyrir eigin rannsóknir eða sýna öðrum fram á að rannsóknirnar geti gagnast þeim?

Heimurinn er auðvitað ekki fullkominn og sumar rannsóknir þarfnast meiri fjármuna en aðrar en til hvers að hafa milliliði, sjóði? Svo kostar auðvitað að halda upp svona sjóðum og þeim sem meta hvaða rannsóknir fá pening. Þeir sem það meta geta ekki vitað almennilega hvað er mikilvægt og hvað ekki. Heldur þú að þeir aðilar sem deila út sjóðspeningum í rannsóknir geti vitað hvaða rannsóknir munu reynast hagnýtar til lengri eða skemmri tíma?

Lán fyrir sumum rannsóknum borga sig en ég held að stór hluti þeirrar þekkingar sem verður til verði til með rannsóknarvinnu innan einkafyrirtækja og nærtæk dæmi um það eru t.d. AMD og Intel. Fleiri dæmi má auðvitað tína til.

Ég er ekki fylgjandi því að nánast leggja af vísinda- og rannsóknarstarf. Ég vil bara að hið opinbera komi ekki nálægt því og að menn hætti að betla sífellt af skattgreiðendum enda fjárhagsleg staða hins opinbera hérlendis og víða erlendis orðin mjög alvarleg þó sérhagsmunahópum sé auðvitað sama um það.

Helgi (IP-tala skráð) 5.11.2013 kl. 06:29

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Helgi fyrir tilskrifin og að útskýra þína afstöðu betur.

Við sem samfélag höfum ákveðið að borga fyrir menntun fólks, frá unga aldri og upp á háskólastig.

Vilt þú leggja niður allan fjárstuðning við öll skólastig, eða bara háskólastigið?

Það væri sennilega ódýrara að leggja bara niður öll skólastigin! Nema þú sjáir einhverja samfélagslega og e.t.v. efnahagslega ástæðu fyrir því að við ættum að mennta börn og unglinga!

Ég er reyndar fylgjandi hækkun skólagjalda í Háskóla, það gæti verið hvati fyrir nemendur um að taka námið alvarlegar. En ég tel einnig að gjöld eins og þau sem nú eru rukkuð í UK og USA séu óhófleg. 

Breskir og bandarískir háskólar eru góðir af því að þeir fá góða styrki til rannsókna og eiga öfluga bakhjarla.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki vit á að styrkja rannsóknir, og fáir íslenskir eignamenn vilja fjárfesta í menntun og rannsóknum.*

Það er ánægjulegt að þú skilur hversu erfitt er að sjá fyrir hagnýtingu grunnrannsókna. En síðan segir þú að alvöru rannsóknirnar verði inni í fyrirtækjum. Vandamálið er að stórfyrirtæki eiga oft erfitt með að skapa nýja þekkingu og vörur, og þurfa iðullega að gleypa sprotafyrirtæki til að halda sér í fremstu röð.

Og stórt hlutfall hátækni og nýsköpunar sprotafyrirtækja spretta út úr rannsóknum og háskólum!

Þegar rússar sendu spútnik á sporbraut, þá vaknaði ameríski risinn við vondan draum. Ameríka hafði dregist afturúr í vísindum og tækni. Og hvað var viðbragðið? Þeir sturtuðu peningum í grunnrannsóknir, á sviði raunvísinda, verkfræði og lífvísinda. Fyrirtækin sem þú tíundar, Intel og AMD eru meðal þeirra sem spruttu upp úr þeim frjóa jarðvegi sem þar var plægður.

Sannarlega má betrumbæta sjóðakerfið og háskólanna, en það að skjóta nytjahæstu mjólkurkúna er ekki sniðugt.

*það má spyrja hví, en Einar Steingrímsson myndi örugglega segja að þetta væri hluti af andverðleikaþjóðfélaginu íslenska.

Arnar Pálsson, 5.11.2013 kl. 11:23

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Helgi

Það er reyndar hægt að nota tvinntölur til að leysa hagnýt vandamál.

sbr.

http://www.math.toronto.edu/mathnet/questionCorner/complexinlife.html

Arnar Pálsson, 5.11.2013 kl. 15:41

10 identicon

Sæll.

Já, tvinntölur urðu ekki hagnýtar fyrr en talsvert eftir að menn "uppgötvuðu" þær. Þær eru mikið notaðar í rafmagnsverkfræði. Ekki held ég að uppgötvun þeirra hafi nú kostað mikinn pening!

Annars finnst mér þú skauta ansi mikið framhjá því sem ég bendi á.

Ef hið opinbera hætti að setja peninga í rannsóknarsjóði myndu rannsóknir ekki leggjast af - slíkt er bara hræðsluáróður. Óhagkvæmar rannsóknir myndu leggjast af. Vilt þú í fullri alvöru styrkja rannsóknir í t.d. kynjafræði? Væru fjármunir í slíkum rannsóknum ekki betur komnir í t.d. þínu fagi? Ég get ekki ímyndað mér eitt einkafyrirtæki sem vildi styrkja slíka rannsókn en mörg myndu án efa vera tilbúin að styrkja erfðafræðirannsóknir. Hvað heldur þú annars?

Ég er ekki að leggja til miðaldasamfélag þar sem engin ný þekking verður til, ég held þú sért að misskilja mig. Það sem ég er að finna að er að í dag er þetta fjármagn notað með óhagkvæmum hætti. Klíkuskapur er án efa ríkjandi við útdeilingu rannsóknarfjármuna. Best væri að leggja þessa sjóði niður og að þeir sem sinna rannsóknum sæki milliliðalaust í fjármagn hjá þeim sem þessar meintu rannsóknir gera gagn. Peningar í þessum sjóðum eru teknir af fyrirtækjum og einstaklingum svo hægt sé að búa sjóði til. Gætir þú ekki hugsað þér, kannski í samvinnu við einhverja félaga þína, að styrkja einhverja rannsókn sem þú teldir áhugaverða? Það væri auðveldara fyrir þig ef hið opinbera tæki minna af þér.

Nei, íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki vit á að styrkja rannsóknir enda eiga þeir ekki að koma nálægt því. Þú greiðir talsverða fjármuni í skatta og þeim fjármunum er mun betur komið í þínum vasa. Stjórnmálamenn vita ekki betur en þú hvað á að gera við þitt fé.

Þú segir að skólagjöld í USA og UK séu óhófleg. Það er furðuleg afstaða, af hverju vilja menn ekki greiða fyrir þjónustu sem hún kostar? Af hverju eiga aðrir að borga fyrir mann? Viltu líka láta hið opinbera niðurgreiða sumarferðalag þitt?

Ég held að UK og USA háskólar séu góðir vegna þess að fyrirtæki sjá sér hag í því að styrkja þessa skóla - þau telja sig fá eitthvað fyrir þá fjármuni sem þau láta af hendi. Best er að einkaaðilar sjái um rannsóknar- og nýsköpunarvinnu og slík vinna myndi ekki leggjast af hérlendis þó þessir opinberu sjóðir væru lagðir niður. Hið opinbera á að skapa fjárhagslegt umhverfi svo slík starfsemi geti þrifist og blómstrað.

Ég vil, líkt og þú ef ég skil rétt, öflugt rannsóknar- og þróunarstarf en ég vil skera ónauðsynlega fitu af og kippa út milliliðnum.

Þakka þér fyrir skoðanaskiptin :-)

Helgi (IP-tala skráð) 6.11.2013 kl. 03:46

11 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Helgi aftur fyrir skoðanaskiptin.

Nú eru tvinntölur kannski ekki besta dæmið um ríkisfjármagnaðar grunnrannsóknir, sem síðar nýttust fyrirtækjum.

En það er mýgrútur af slíkum dæmum.

Ófyrirsjáanleikinn er ekki undantekning, heldur reglan.

Þess vegna munu lyfjafyrirtæki ekki borga fyrir rannsóknir á frostþoli skordýra. Jafnvel þótt að nokkrum áratugum síðar hafi þær rannsóknir gefið okkur leiðir til að geyma líffæri fyrir ígræðslur. Það var ekkert fyrirtæki sem gat grætt á hugmyndinni í fyrstu, en samfélagið gat notað þekkinguna.

Það á við fleiri niðurstöður vísinda. Þeim er ekki auðbreytt í seljanlega vöru, og fyrirtæki gætu ekki grætt á að styrkja þannig rannsóknir. En niðurstöðurnar gætu hjálpað okkur að skilja hætturnar af blýi, tóbaki eða nanotækni.

Og reynslan af mörgum stórfyrirtækjum er sú að þeir eru alveg til í að beygja niðurstöður og rangtúlka til að verja sína vöru eða markaðshlutdeild. 

Vilt þú að næringarfræðirannsóknir í heiminum verði allar styrktar af matvælaframleiðendum?

Það er hætt við næringarfræði Kraft og Pepsico væri dálítið bjöguð!

Í BNA er annað kerfi fyrir háskólamenntun en hér. Þeir sem eiga pening geta farið í háskóla, eða þeir fátæku geta farið í háskóla á styrk eða með því að ganga í herinn. Viltu það kannski á íslandi, að bara efnafólkið geti sótt háskólann, eða viltu kannski her líka svo að fátækir geti komist í háskóla?

Þú gleymir helmingnum af dæminu um skóla í UK og USA. Þeir fá styrki frá veglega ríkinu fyrir rannsóknir sem starffólk þeirra stundar, svona styrki eins og ríkistjórnin er að reyna að "skera af". Þeir myndu fæstir þrauka á styrkjum frá ríku fólki eingöngu.

Arnar Pálsson, 6.11.2013 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband