Leita í fréttum mbl.is

Camus á fáránlegt afmæli í dag

Albert Camus er eitt af stórskáldum franskra og evrópskra bókmennta. Hann var næst yngstur til að fá Nóbelsverðlaun í bókmenntum, og hugmyndir hans um tilgang lífsins í fáránleika veraldarinnar nutu umtalsverðrar hylli.

Vegna þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Camus (7. nóvember 1913) ritar Freyr Eyjólfsson geirfugl og útvarpsmaður pistil um skáldið. Þar segir:

Albert Camus er talinn einn af höfuðsnillingum 20. aldarinnar – sem hann sjálfur kallaði öld óttans - þar sem menn lifðu hundalífi, yfirbugaðir af ótta án allra framtíðarvona. Það var hans hlutverk að hrista af okkur þennan ótta, vekja okkur og finna tilganginn í lífinu.

„Lífið er absúrd“ er lykilsetningin í heimspeki hans. .... Við fæðumst og við deyjum og erum aðeins bundin því að gera rétt og vel í þessu stutta lífi. Lífið er nefnilega ekki tilganglaust; við eigum að skapa okkar eigin örlög og berjast fyrir hinu góða gegn hinu illa. Maðurinn verður að lifa í núinu, vita örlög sín og þekkja takmörkin til að lifa lífi sínu til fulls.

Þannig vill til að ég er einmitt að lesa hálfgerða ævisögu um Camus, og góðvin hans Jacques L. Monod. Bókin kallast Snilldarhetjur (Brave genius) og er eftir þróunarfræðinginn Sean. B. Carroll, sem ritaði m.a. Endless forms most beautiful.

Í bókinni tvinnar Carroll saman ævi þessara félaga, og afrek þeirra í seinna stríði og sínu fagi. Báðir voru virkir í andspyrnuhreyfingunni í hinu hernumda Frakklandi. Camus skrifaði fyrir hið bannaða tímarit Combat, og blés löndum sínum von og baráttuanda í brjóst. Monod, vann að rannsóknum við Sorbonne háskóla að degi til, en skipulagði starf andspyrnuhreyfingarinnar á Parísarsvæðinu á kvöldin. Hann fór ferðir yfir Svissnessku landamærin, hitti fulltrúa CIA (eða forvera þeirrar stofnunar) og skipulagði aðgerðir gegn flutningalestum og vopnabirgðastöðvum. Reyndar er Monod þekktari líffræðingum fyrir  rannsóknir sínar á genastjórn, en fyrir þær fékk hann einmitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði og lífeðlisfræði árið 1965 ásamt félögum sínum François Jacob og Andre Lwoof.

Bókin er ansi skemmtileg aflestrar, þótt stundum sé oft langt á milli hetjanna í bókinni. Carroll rekur í ansi löngu máli söguna af falli Frakklands, andspyrnunni og frelsun Parísar. 

Þeir Camus og Monod kynntust eftir stríð og var mikill kærleikur með þeim. Heimspeki Monods er ansi skyld sýn Camus. Monod setur nefnilega hina nýju líffræði gena og sameinda í heimspekilegt samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn, sem kom út 1970. Þar segir Monod m.a.

Loks veit maðurinn að hann er einn í óravíðum afskiptalausum alheimi þar sem hann kom fram fyrir tilviljun. Hvorki skyldur hans né örlög hafa nokkurstaðar verið skráð. Hans er að velja milli konungsríkisins og myrkranna.

En auðvitað voru mun fleiri sem lásu Camus en Monod. Ritdómar um bók Carroll um þá félaga eru nokkuð jákvæðir, hér að neðan eru tenglar á umfjöllun NY Times og Wall Street Journal.

Book Review: 'Brave Genius' by Sean B. Carroll

The Improbable French Buddies ‘Brave Genius’ Is a Story of Science, Philosophy and Bravery in Wartime

Vel heppnað málþing um Tilviljun og nauðsyn

Vísindavefurinn: Fyrir hvað er Jacques Monod þekktur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband