Leita í fréttum mbl.is

Ritstjórinn um útlönd og atgervisflóttan

Hvaða gildi hefur menntun og þekking fyrir lítið samfélag? Íslendingar voru lengi vel sjálfum sér nægir um flest, nema kannski smíðavið. En í nútímanum byggir allt á viðskiptum og sérhæfingu. Ísland er fyrir löngu orðið að útflutnings og innflutningsþjóð, með því hagræði og verðmætasköpun sem því fylgir.

En hvað með þekkingu, erum við sjálfum okkur nóg um þekkingu um þau mál sem skipta Ísland máli? Nei aldelis ekki, við flytjum inn þekkingu og tækni í stórum stíl. Eitthvað flytjum við út af vörum og lausnum, sem útlendingar kaupa af okkur. Einnig er stór hluti afraksturs íslenskra vísindamanna aðgengilegur fræðasamfélagi heimsins. Og íslenskir vísindamenn byggja á niðurstöðum erlendra vísidnamanna.

En nú kreppir skóinn að vísindastarfi hérlendis, því að í fjárlagafrumvarpinu er margþættur niðurskurður á rannsóknasjóðum (sjá tengla neðst).

Þetta hefur alvarlegar afleiðingar, m.a. þær að nemendur flosna upp úr námi, verkefni stöðvast og Ísland missir menntað og viljugt fólk.

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins talar um þetta í leiðara dagsins (6. nóvember 2013). Hann fjallar sérstaklega um þjálfun lækna, sem margir hverjir sækja sér sérfræðimenntun erlendis (og eru eða hafa verið á námslánum). Það að skulda viðkomandi til að borga lánin til baka með markaðsvöxtum, er ekki beinlínis hvatning fyrir fólk að koma heim (enda hét grein hans, Veriði bara í útlöndum).

Ólafur fjallar líka um vandamál fræðimanna og vísindafólks, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.

Sama má segja um fólkið sem hefur helgað sig rannsóknum í framhaldsnámi sínu (oft á styrkjum frá erlendum stofnunum, fremur en á íslenzkum námslánum) og hefur hug á að snúa aftur til Íslands og nýta þekkinguna í þágu íslenzks atvinnulífs eða velferðarþjónustu. Staðan hér á landi er sú að vísindarannsóknir eru fjársveltar, nánast sama hvaða alþjóðlegur samanburður er notaður. Þar að auki er hlutfall samkeppnissjóða, þar sem vísindamenn keppa um styrki á grundvelli gæða rannsóknanna, miklu lægra en víðast hvar í nágrannalöndunum. Alltof stórum hluta opinbers rannsóknarfjár er úthlutað pólitískt, út frá hagsmunum hefðbundinna atvinnugreina, byggðarlaga og stofnana.

Hans Guttormur Þormar, vísinda- og uppfinningamaður, skrifaði grein á Vísi í gær, þar sem hann bendir á að ungir vísindamenn sem standi framarlega á alþjóðavettvangi viti að tvö til þrjú ár án nauðsynlegrar fjármögnunar rannsókna þeirra muni eyðileggja framtíð þeirra sem framsækinna vísindamanna, því að samkeppnin sé óendanlega hörð í heimi vísindanna. „Þessir einstaklingar hafa margir hverjir því aðeins um tvennt að velja, fara úr landi eða hætta í vísindum og standa ekki framar að uppbyggingu vísinda- og tækniþróunar á Íslandi,“ skrifar Hans.

Með því að reka óbreytta stefnu hér á landi er í rauninni verið að segja við þetta fólk: Menntið ykkur í útlöndum – og veriði svo bara þar. Íslenzkt samfélag þarf ekki á ykkur að halda.

Ég tek undir með Ólafi. Og íslenskt þjóðfélag þarf að taka afstöðu til þess hvaða stefnu skal taka. Viljum við samfélag sem viðurkennir gildi menntunar og þekkingar, eða viljum við ýta frá okkur vel þjálfuðu og duglegu fólk með meingallaðari forgangsröðun?.

Ítarefni:

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Apalsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband