Leita í fréttum mbl.is

Brögðóttar krabbameinsfrumur í gervi stofnfruma

Krabbameinsfrumur eru ansi brögðóttar. Nýlegar rannsóknir sýna að stundum geta krabbameinsfrumur hermt eftir stofnfrumum, sérstaklega þegar þær eru að mynda meinvörp.

Sameindalíffræðingurinn Þórður Óskarsson hefur rannsakað þessi fyrirbæri, og ræðir þau í viðtali við Leif Hauksson í Sjónmáli gærdagsins (5. mars 2014).

Krabbameinsfrumur eiga nefnilega erfitt uppdráttar í framandi vefjum. Segjum sem svo að krabbamein hafi myndast í lunga, og myndar þar æxli. Slík æxli má fjarlægja með skurðaðgerð og/eða meðhöndla  með geislum eða efnum. En æxlisfrumur geta líka farið á flakk um líkamann, og myndað meinvörp.

Það sem torveldar flakk krabbameinsfruma er sú staðreynd að vefir eru ólíkir, og eiga lungnafrumur almennt ekki auðvelt uppdráttar í t.d. vöðva eða heila. En Þórður og aðrir vísindamenn hafa sýnt að krabbameinsfrumur yfirstíga þessa hindrun með bellibrögðum. Þær breyta tjáningu gena sinna, og framleiða sameindir sem einkenna stofnfrumur. Flestir vefir eru með stofnfrumur, og þar með er komin leið fyrir krabbameinsfrumurnar að "nema land" í nýjum vef. Og þá getur meinvarp farið að myndast oft með alvarlegum afleiðingum. 

Ég skora á fólk að hlýða á einstaklega fræðandi viðtal við Þórð í Sjónmáli. Einnig er öllum frjálst að hlýða á erindi Þórðar á morgun, á málþingi á vegum Líffræðifélags Íslands og Líffræðistofu HÍ. Erindið verður flutt á ensku.

Þrír aðrir líffræðingar flytja fyrirlestur á málþinginu, þau Sigríður R. Franzdóttir, Ólafur E. Sigurjónsson og Guðrún Valdimarsdóttir.

 

Guðrún birti einmitt nýlega rannsókn á stofnfrumum og hjartaþroskun, sem fjallað er um á vef HÍ.

Hópur vísindamanna og nemenda við Lífvísindasetur Háskóla Íslands undir forystu Guðrúnar Valdimarsdóttur, lektors í lífefnafræði við Læknadeild, fékk á dögunum birta grein í marsútgáfu hins virta vísindarits Stem Cells þar sem varpað er ljósi á það hvaða boðferlar í stofnfrumum úr fósturvísum manna leiða til þess að þær sérhæfast í hjartafrumur. Rannsóknin er liður í því að auka skilning manna á því hvernig hægt yrði að nýta fjölhæfar stofnfrumur til þess að græða skaddaðan hjartavef....

Guðrún og samstarfsfólk hennar hyggst halda áfram rannsóknum á sérhæfingu stofnfruma og beina nú sjónum sínum að myndun æðarþelsfruma. Vefir líkamans eru háðir blóði til vaxtar og viðhalds og æðaþelið er nauðsynlegt til blóðflæðis. „Við höfum tvenns konar markmið fyrir augum. Við viljum annars vegar geta aukið æðamyndun í tilvikum ýmissa æðasjúkdóma og hins vegar viljum við koma í veg fyrir of mikla æðamyndun til þess að geta stöðvað æxlisvöxt,“ segir Guðrún. Hún bætir við að tilraunir á músum, þar sem ákveðin gen hafa verið slegin út og eru þar af leiðandi ekki tjáð, sýni að fjölskylda vaxtarþátta, svokölluðu TGFbeta-fjölskylda, stjórnar miklu um þroskun fruma hjarta- og æðakerfis. „Við ætlum að skoða hvort við getum stjórnað sérhæfingu stofnfruma í  æðaþelsfrumur með því að breyta boðleið TGFbeta-fjölskyldunnar innan frumunnar. Þessi rannsókn byggist að sjálfsögðu á rannsóknarstyrkjum sem við erum algerlega háð í okkar vinnu,“ segir Guðrún að lokum.

Málþing um sameindalíffræði og stofnfrumur - dagskrá.

Sjónmál 5. mars 2014 Krabbameinsfrumur nýta sér stofnfrumur

Frétt á vef HÍ.is 5. mars 2014  Varpa ljósi á þroskun stofnfruma í hjartafrumur

Anne Richter ofl. BMP4 Promotes EMT and Mesodermal Commitment in Human Embryonic Stem Cells via SLUG and MSX2 2014 STEM CELLS Volume 32, Issue 3, pages 636–648, March 2014


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband