Leita í fréttum mbl.is

Þrír foreldar og erfðalækningar

Erfðalækningar eru á teikniborðinu, og hafa verið prófaðar í nokkrum tilfellum. Þær fela í sér að gera breytingar á erfðaefni einstaklinga, til að lækna þá af sjúkdómi eða til að fyrirbyggja sjúkdóm.

Þær tilraunir sem gerðar hafa verið, hafa verið til að reyna að lækna sjúkdóm.

Enn hefur ekki verið farið í að breyta erfðasamsetningu fólks, til að fyrirbyggja sjúkdóm.

Það kann að breytast. Eins og við höfum fjallað um hér (sjá pistla neðst), skaða ákveðnar stökkbreytingar starfsemi hvatbera í frumum. Hvatberar eru orkuverksmiðjur líkamans, og bera í sér stutta litninga sem eru með nokkra tugi gena. Bróðurpartur erfðaefnis okkar er annars geymt í kjarnanum (heildar fjöldi gena í okkur er um 25.000).

Andstætt öðrum genum, erfast gen hvatbera eingöngu frá móður. Ástæðan er sú að sæðisfrumur bera í sér lítið annað en einlitna kjarna, en eggið er stappfullt af hvatberum - afrit þeirra sem móðurinn hefur. Ef karlmaður þjáist af sjúkdómi, sem sprettur af galla í genum hvatberans, þá þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því að börn hans fái sjúkdóminn. En ef kona er með galla í hvatberageni, þá er öruggt að afkvæmi fái stökkbreytinguna.

Slíkt er hægt að lækna með erfðalækningum. Tilraunir Shoukhrat Mitalipov og félaga með rhesusapa hafa sýnt að hægt er að búa til þriggja foreldra apa, með einföldum tilfæringum.

Í glasafrjóvgunum er hægt að sprauta sæði inn í egg, og koma þannig þroskun í gang. Það er einnig hægt að fjarlægja kjarna úr eggjum með einföldum aðferðum.

Í þeirri aðferð sem nú er í þróun og umræðu, væri hægt að  setja saman sæði föður, kjarna úr eggi móður með gallaðan hvatbera og heilbrigt egg. Eggið væri ekki með galla í hvatbera litningnum og heilbrigða hvatbera, en búið væri að fjarlægja úr því kjarnann. (það verður að fjarlægja hann, því að þrílitna fóstur þroskast ekki eðlilega!).

Nú er þessi aðferð til erfðalækninga á göllum í hvatbera til umræðu hjá Bandarísku matar og lyfjastofnunninni (FDA) og hjá breskum stjórnvöldum.

Eins og fram kemur í umfjöllum Rúv, vekur þessi þróun upp spurningar um erfðalækningar almennt og erfðabreytingar á ungviði til að fyrirbyggja sjúkdóma og/eða breyta ásýnd eða eiginleikum fólks. Hér verður það ekki rætt í þaula, en vísað í umfjöllun RÚV:

Niðurstöður úttektar breskra stjórnvalda á aðferðinni voru á þá lund að hún væri að öllum líkindum hættulaus og æskileg, þótt frekari rannsókna væri enn þörf. Háværar raddir í fjölmiðlum ytra hafa lýst áhyggjum af því að þetta marki upphaf þess að fólk krukki í erfðaefni barna sinna eftir geðþótta, með ófyrirsjáanlegum siðferðislegum afleiðingum. Þá hefur sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að börn getin með þessari tækni muni ekki geta leitað upplýsinga um konuna sem lagði til hvatberana vakið deilur.

Þrýstihópar segja að þetta geti skaðað sjálfsmynd barnanna. Vísindamenn segja á hinn bóginn að mikilvægara sé að forða börnum frá þjáningarfullum og jafnvel banvænum sjúkdómum, auk þess sem hvatberaerfðaefnið sé örsmár og vel aðgreindur hluti af heildar-erfðaefni mannsins.

Ítarefni.

Arnar Pálsson | 28. ágúst 2009 Api með þrjá foreldra

Arnar Pálsson | 26. október 2012 stofnfruma með þrjá foreldra

Arnar Pálsson | 28. júní 2013  Barn með þrjá foreldra

Rúv 7. ágúst 2014. Deilt um þátt „þriðja foreldris“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf að lækna fólk af þeirri firru að allir verði að eignast líkamleg, líffræðileg afkvæmi. Fólki finnst ekki síður vænt um ættleidd börn, og það myndi gagnast milljónum barna mikið að þeir sem ekki geti átt börn tækju þau að sér, en alltof margir halda í bábiljuna að maður eignist ekki "eigið" barn nema barn með sama DNA og hunsa hærri og æðri þætti þess að vera foreldri, sem er að bera áfram menningu, visku og kærleika til annars manns, en ekki það að gefa honum erfðaefni sitt. Hvað maður sem er getur gefið erfðaefni sitt fróandi sér yfir klámefni í dönskum sæðisbanka. Það getur ekki hver sem er verið faðir eða móðir. Milljónir barna eiga enga foreldra og vísindin eiga ekki að viðhalda ójafnvægi og misskiptingu í heiminum með að koma óhóflega til móts við þá sem vilja eiga "eigin" börn sama hvað það kostar samfélagið í peningum og heiminn í heild.

Texas (IP-tala skráð) 7.8.2014 kl. 16:19

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Texas

Þetta er ansi viðkvæmt efni líka, eins og ég fékk að reyna á viðræðu við fólk sem þjáist af ófrjósemi.

Fólk upplifir sársauka af mörgum ástæðum, og ein þeirra ófrjósemi.

Mig grunar að sá sársauki sé meiri hjá konum en körlum, en getur verið mjög skemmandi fyrir sálarlífið. Þetta er sannarlega djúpgreypt þörf, en spurningin hvort að það sé okkar réttur að eignast börn!?

Annars finnst mér að íslenskt samfélag sé nokkuð sveiganlegt hvað varðar fjölskylduform og samsetningu. Börn fædd utan hjónabands  er sjaldnast látin líða, og margir alast upp hjá mömmu og ömmu án föðurs.

Ég held að samfélag okkar myndi taka börnum, sem læknuð hafa verið af hvatberagöllum, opnum örmum. 

En við sem samfélag ættum samt að spyrna við tilhneygingum til að hanna börn, hvort sem það er útlit eða andlegt atgervi.

Að mínu viti er þarna víðfemt grátt svæði, sem við þurfum að kanna með opnum huga og árvekni.

Arnar Pálsson, 7.8.2014 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband