Leita í fréttum mbl.is

Rannsóknir á sauðfé bættu skilning á HIV

Fjallað var um erindi og rannsóknir Halldórs Þormar á Bylgjunni og í Fréttablaðinu.

Halldór Þormar var ráðin til Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, til að prófa tilgátur um að mæði og visna væri orsökuð af veirusýkingum. Honum og samstarfsmönnum tókst að staðfesta tilgáturnar og um leið afla mikilvægrar þekkingar á eðli hæggengra veirusjúkdóma, en þekktasta veiran í þeim flokki er HIV. Erindið tilheyrði nýrri fyrirlestraröð sem kallast vísindi á mannamáli.

Fréttin í Fréttablaðinu (21. janúar 2015 Rannsóknir á sauðfé bættu skilning á HIV):

Tímamótarannsóknir íslenskra vísindamanna á veirusjúkdómum í sauðfé stuðluðu að auknum skilningi manna á alnæmisveirunni HIV, og nýtast enn til þess að varpa ljósi á líffræði HIV og alnæmis.

Þetta kom m.a. fram í hádegisfyrirlestri Halldórs Þormar, prófessors emeritus í frumulíffræði við Háskóla Íslands, í gær. Þar sagði Halldór frá rannsóknum við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum sem sýndu fram á að sauðfjársjúkdómarnir illvígu visna og mæði væru sprottnir af afbrigðum af sama sjúkdómsvaldi, mæði-visnuveirunni (MVV).

Halldór rakti þá ólíkindasögu þegar hingað til lands var flutt karakúlfé, upprunnið í Úsbekistan, til kynbóta árið 1933 með þeim afleiðingum að fimm fjárpestir skutu rótum og ollu miklu tjóni. Þessa sögu þekkja margir og þá ógn sem sauðfjárbúskap í landinu stafaði af henni.

Í einföldustu mynd má segja að tekist hafi að uppræta sjúkdómana með skipulögðum niðurskurði sem stóð fram yfir 1950.

Síður eru rannsóknir á sjúkdómunum þekktar sem voru í höndum íslenskra vísindamanna frá upphafi og til þessa dags; ekki síst Björns Sigurðssonar, fyrsta forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands, Halldórs og fleiri, sem prófuðu þá tilgátu, og sönnuðu, að visna væri veirusjúkdómur. Framhaldsrannsóknir sýndu einnig að visnu- og mæðiveirur væru afbrigði af sömu veirunni. Síðar kom í ljós að sú veira er náskyld hinni alræmdu HIV-veiru sem veldur alnæmi í fólki.

Spurður hvort vísindamenn, sem fyrstu árin börðust gegn HIV-veirunni, hafi þekkt til verka íslenskra vísindamanna svarar Halldór því til að svo hafi vissulega verið, þótt annað hafi verið í forgrunni þeirra vinnu. Skyldleikinn komi vel fram í heiti veirunnar á meðal vísindamanna.

Í hádegisfréttum Bylgjunar - Halldór Þormar, prófessor emeritus í frumulíffræði, flytur erindi í Háskóla Íslands.

Mynd af Halldóri Þormar er úr safni Keldna, ártal óljóst.

Thormar H. The origin of lentivirus research: Maedi-visna virus. Curr HIV Res. 2013 Jan;11(1):2-9.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér hefði nú þótt við hæfi í þessari færslu, að geta um rannsóknir Margrétar Guðnadóttur á visnu, en þær hafa skipað henni í fremstu röð vísindamanna og borið hróður Háskóla Íslands um víðan völl.

http://www.hi.is/frettir/margret_gudnadottir_heidursdoktor_vid_hi

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 21.1.2015 kl. 16:02

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Kári fyrir góða ábendingu.

Margrét, Halldór, Níels Dungal, Guðmundur Gíslason, Björn Sigurðsson og ótaldir fleiri eiga þátt í þessari merku sögu.

Margrét var einmitt einn af heiðursgestunum á þriðjudaginn, þegar Halldór flutti erindi sitt. Að erindinu loknu, og til að svara spurningu úr sal, fékk Halldór hana til að segja stuttlega frá sínum nýjustu rannsóknum með mæði-visnu mótefni sem hún og samstarfsmenn hennar hafa þróað.

Arnar Pálsson, 22.1.2015 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband