Leita í fréttum mbl.is

Allir skipta máli – dýrin líka! – Dr. Jane Goodall á Íslandi í júní

Dr. Jane Goodall, ein merkasta og ástsælasta vísindakona heims er væntanleg hingað til lands í júní á þessu ári.

Linda Pétursdóttir og Guðrún Pétursdóttir skrifa grein (Allir skipta máli – dýrin líka!)

 

Allir skipta máli – dýrin líka! segir Jane Goodall sem varð manna fyrst til að lýsa því hvernig simpansar nota áhöld, ræðast við, og sýna ótvíræðar og fjölbreyttar tilfinningar. Þeir faðmast og kyssast, klappa hver öðrum á bakið, fara stundum í fýlu og eru afbrýðissamir og heimtufrekir ef sá gállinn er á þeim – rétt eins og við!

Jane Goodall hefur varið langri starfsævi í að rannsaka dýr og berjast fyrir velferð þeirra um allan heim. Þessi ástsæla vísindakona kemur hingað til lands í júní og heldur fyrirlestur sem opinn verður öllum í Háskólabíói miðvikudaginn 15. júní kl 17. Hún er einstakur fyrirlesari sem heillar áheyrendur á öllum aldri. Það er því upplagt að taka börnin, afa og ömmu með í Háskólabíó þennan eftirmiðdag.

Jane Goodall var aðeins 26 ára þegar hún lagði upp í fyrsta leiðangurinn til að fylgjast með simpönsum í Gombe-þjóðgarðinum í Tanzaníu. Hún hafði ekki formlega háskólamenntun á þeim tíma, en hún hafði brennandi áhuga á dýrum og elskaði Afríku. Frá blautu barnsbeini hafði hana dreymt um að fá að fylgjast með dýrum í þeirra eðlilega umhverfi og þegar æskuvinkona hennar bauð henni að heimsækja sig í Kenýa, fékk Jane tækifæri til að láta drauminn rætast.

Í Nairobi fann hún vinnu hjá þekktum mannfræðingi, Lewis Leakey, sem rannsakaði uppruna mannsins með uppgreftri fornleifa en einnig með rannsóknum á atferli apa. Fram að því höfðu slíkar rannsóknir ekki borið mikinn árangur, því rannsóknahóparnir gáfu sér ekki nægan tíma til að ná árangri og voru auk þess svo fjölmennir að þeir trufluðu dýrin. Leakey sá að þessi unga kona hafði það sem til þurfti, brennandi áhuga, endalausa þolinmæði og kjark til að vera ein á ferð í frumskóginum. Það var þó ekki óhætt að hafa hana aleina, svo hann bauð henni að velja sér ferðafélaga. Hvern valdi Jane? Mömmu. Auðvitað!

Þann 16. júlí 1960 steig fjögurra manna hópur frá borði smábáts við strönd Tanganyka-vatns, mæðgurnar, veiðivörður þjóðgarðsins og kokkur. Þau slógu upp tjaldbúðum fyrir margra mánaða dvöl í skóginum, sambandslaus við umheiminn nema þegar karlarnir sigldu eftir vistum og skilaboðum. Jane fann fljótt hóp simpansa, sem hún fylgdi eftir næstu ár. Fyrir sólarupprás á hverjum morgni var hún komin í námunda við þá, lét lítið fyrir sér fara, og færði sig hægt og hægt nær þeim. Þeir vöndust henni, sáu að ekkert var að óttast, en samt tók það heilt ár að fá að komast í hundrað metra fjarlægð frá hópnum. Að öðru ári loknu voru þeir orðnir svo vanir henni að þeim var sama þótt hún kæmi nálægt þeim, og stundum gáðu þeir meira að segja hvort hún væri nokkuð með banana. Loks var svo komið að hún gat blandað sér í hópinn – hún var reyndar mjög lágt sett, eiginlega neðst í goggunarröðinni, en hún fékk að vera með.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband