Leita í fréttum mbl.is

Streita, IL-6 og einkavæðing

Álag eða streita (stress) er forvitnilegt líffræðilegt fyrirbæri, sem getur haft áhrif á þroskun, lífslíkur og æxlunargetu í mörgum lífverum. Álag getur verið margskonar, t.d. hiti og kuldi, eitruð efni, eða það að vera eltur af úlfahópi í gegnum skóg að nóttu.

Hér er spurt um hver séu áhrif streitu á líkamstarfsemi hjá mannfólki. 

Rannsóknin sem rætt er um í fréttinn á mbl.is, BBC og birt var í European Heart Journal skoðaði rúmlega 10000 opinbera starfsmenn. Metið var álag og skoðaðar voru nokkrar líf- og læknisfræðilegar breytur, svo sem líkur á hjartaáfalli. Aðal atriðið hér er sýnastærðin sem tryggir töluvert tölfræðilegt afl og það að sjálfboðaliðum var fylgt eftir yfir 12 ára tímabil (að meðaltali), þannig að hægt var að meta langtíma áhrif.

Eldri rannsóknir hafa tekið á þessum spurningum, og fundið að streita eykur styrk á vissum boðefnum (eins og t.d. Interleukin 6 og fibrinogen). Þessi boðefni geta verið stöðug (haft áhrif yfir langan tíma) og breytt starfsemi margra frumugerða og viðkomandi vefja. Að auki hafa þau verið bendluð við hjartasjúkdóma.

Hin nýja rannsókn sýnir að streita er bendluð við aukna hættu á hjartasjúkdómum (p gildin eru 0.01, sem er formlega marktækt miðað við alfa = 0.05). Það er reyndar sameiginlegt niðurstöðunum rannsóknarinnar að p-gildin eru oftast á milli 0.05 og 0.005. Ef tölulegt gildi á p er tekið sem mælikvarði á marktækni (tölfræðingar eru ekki sammála um þessa túlkun) þá er hægt að álykta að þessar niðurstöður séu ekki mjög sterkar. Það er þvi vel mögulegt að þessar ályktanir verði hraktar síðar.

Einnig eru tveir aðrir forvitnilegir punktar ræddir í frétt BBC. Í fyrsta lagi var hægt að meta fyrri ályktanur um að streita tengdist stöðu einstaklinga innan vinnustaðar (yfirmenn, millstjórnendur og undirmenn - vinnustaðirnir voru hvítflippa, lítið um likamlega vinnu). Það eru engar vísbendingar um að undirmenn séu undir meira álagi en aðrir.

Næsta skref í rannsókn þessa hóps er að kanna hvort að einkavæðing hafi áhrif á stress og þá aftur líffræðilega eiginleika. Tilgátan er að einkavæðing auki álag og streitu, kannski ekki jafn mikið og skemmtiskokk með hungruðum úlfahóp, en samt nóg til að draga úr lífslíkum. 

Þetta er að hluta pólitískt mál, þar sem tekist er á um m.a. skilvirkni opinberra stofnanna og þjóðfélagslegan ávinning af einkavæðingu þeirra. Faraldsfræðingar og líffræðingar hafa e.t.v. engan sérstakan áhuga á að blanda sér í þessa umræðu, en þeir verða samt að axla ábyrgð eins og vísindafólk sem starfar við rannsóknir á loftslagi og jarðeðlisfræði hafa gert í umræðu um hnattrænar loftslags breytingar. 

Næst verður rætt um frumur. 


mbl.is Stressandi starf breytir líkamsstarfseminni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Jo man - relax man :o)

Haraldur Rafn Ingvason, 24.1.2008 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband