Leita í fréttum mbl.is

Eltið erfðabreyttu gulrótina

Í dag var tilkynnt að Vísindamenn við plöntuerfðabreytingardeild Texas A&M hefðu útbúið erfðabreytta gulrót (sjá t.d. pistill hjá BBC). Það sem vekur athygli er að þessi gulrót getur bundið meira kalk en venjulegar gulrætur, sem skilar sér í 41% meiri upptöku á kalki hjá þeim sem neyta þeirra.

Þessar niðurstöður, sem koma til með að birtast í grein eftir Jay Morris og félaga í PNAS eru forvitnilegar fyrir margra hluta sakir. 

Í fyrsta lagi, hin næringarfræðilega spurning er hversu mikið af kalki er hægt að fá úr gulrótum. Samkvæmt aðalhöfundinum, þá er "dagsþörf á kalki um 1000 milligröm, og úr 100 gramma gulrót fæst um 60 milligröm af kalki, en einungis 42% þess er líkamanum aðgengilegt" (í lauslegri þýðingu, sjá frumtexta “The daily requirement for calcium is 1,000 milligrams, and a 100 gram serving of these carrots provides only 60 milligrams, about 42 percent of which is absorbable,”).

Þannig að jafnvel þótt að viðkomandi borði 500 grömm af gulrótum á dag, þá mun það ekki skila nema 125 milligrömmum af kalki (sem miðað við 1000 milligramma dagsþörf - tala sem má rýna í nánar - er 12,5% af dagsþörf). Það er náttúrulega borin von að ætla að borða erfðabreyttar gulrætur til þess að uppfylla dagsþörf af kalki. Lausnin sem Morris og félagar er sú að erfðabreyta fleiri matvælum til að auka kalk hlutfall þeirra (sem sagt meira fyrir þá að gera).

Að auki má spyrja hvert sé kalkhlutfall gulrótarafbrigðisins sem var notað í rannsókninni. Búast má við að hægt sé að finna gulrótarafbrigði sem sé með hærra, e.t.v 40% hærra, hlutfall kalks en afbrigðið sem erfðabreytt var. Hvers vegna að standa í einhverri flókinni tilraunalíffræði ef þú getur bara sett niður annað fræ? Í nytja plöntum og dýrum eru oftast til hundruðir ef ekki þúsundir afbrigða, sem hægt er að nyta í gamal dags ræktun og ná svipuðum árangri og með erfðabreytingu (fyrir eiginleika eins og kalk hlutfall, sem eru viðkomandi lífveru eiginlegir. Hér verður ekki rætt um aðra eiginleika).

Mikið af þessari umræðu snýst um mikilvægi mjólkurafurða fyrir vesturlandabúa. Það er augljóst að hlutar mannkyns hafa aðlagast kýrmjólkurneyslu, eins og meltingu mjólkursykurs. Mannkynið og forfeður okkar komust vel af á grænfóðri, ávöxtum og kjeti, en spurning hvort að mjólkurþambandi meðlimir okkar treysti minna á upptöku á kalki úr grænmeti og annari fæðu. Það er forvitnileg spurning á mörkum þróunarfræði og næringarfræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Eftir að hafa horft á þessa mögnuðu mynd er ég tortryggin á flest

Georg P Sveinbjörnsson, 15.1.2008 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband