Leita í fréttum mbl.is

Doktorsvörn, áhrif eiturefna á krækling

Úr tilkynningu
"Doktorsvörn í líffræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands

Í dag, föstudaginn 18. apríl fer fram doktorsvörn við
raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Halldór Pálmar Halldórsson,
líffræðingur, doktorsritgerð sína “Cellular and physiological
biomarker responses to pollutants in native and transplanted mussels
(Mytilus edulis L.) in Iceland”. Andmælendur eru dr. John Widdows,
prófessor, Plymouth Marine Laboratory, Englandi og dr. Kristín
Ólafsdóttir, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands.
Dr. Lárus Thorlacius, deildarforseti raunvísindadeildar, stjórnar
athöfninni sem fer fram í sal N-132 í Öskju – náttúrufræðahúsi,
Sturlugötu 7 og hefst klukkan 14.00.

Ágrip
Á undanförnum árum hefur notkun á líffræðilegum mælikvörðum
(bíómarkerum) aukist við mat á mengun sjávar. Með líffræðilegum
mælikvörðum er átt við margvíslegar ástandsmælingar á lífverum, sem
gefa til kynna álag af völdum mengunar, svo sem skemmdir á líkamsvef,
raskaða starfsemi fruma eða líffæra eða jafnvel vansköpun.
Líffræðilegir mælikvarðar gefa þannig til kynna almennt mengunarálag
eða álag af völdum ákveðinna mengandi efna og eru mikilvægir til
stuðnings greiningum á styrk mengandi efna.
Í doktorsverkefninu voru nokkrir líffræðilegir mælikvarðar metnir í
kræklingi nærri íslenskum hafnarsvæðum, en þar eru ýmis olíusambönd,
t.d. PAH efni, þungmálmar og efni úr botnmálningu skipa, oft í miklu
magni. Beitt var frumulíffræðilegum (mat á skemmdum á einþáttabrotum
erfðaefnisins, DNA viðbætur, o.fl.), lífeðlisfræðilegum (hraði
öndunar, síunarhraði tálkna og hjartsláttur), auk lífefnafræðilegum
mælikvörðum (framleiðsla á málmþíónum, o.fl.)
Í ljós kom að við hafnarsvæði er umtalsvert álag á krækling af völdum
mengandi efna. Álagið kemur fram í skemmdum á erfðaefni kræklingsins,
bæði séð í aukinni tíðni einþáttabrota og í DNA viðbótum, þar sem
olíusambönd tengjast við erfðaefni, auk þess sem tilvist mengandi
efna hefur áhrif á hjartslátt kræklingsins og öndun hans. Fæðuupptaka
reyndist lítil vegna lamaðra bifhára. Lagt var mat á það hversu hratt
þetta gerist hjá heilbrigðum kræklingi sem var fluttur á hafnarsvæði.
Niðurstöður rannsóknanna sýna að líffræðilegir mælikvarðar í
kræklingi eru gagnlegir til að kanna ástand sjávar á norðurslóðum.
Líklegt er að álag af völdum olíusambanda muni aukast með aukinni
skipaumferð á norðurslóðum í framtíðinni og þessar aðferðir gera
kleift að vakta slíkt álag.

Hlutar verkefnisins voru unnir í samvinnu við rannsóknarhópa frá
Háskólanum í Stokkhólmi, Háskólanum á Flórens og Institue of Marine
Science, Feneyjum. Í doktorsnefnd voru dr. Jörundur Svavarsson,
prófessor við Háskóla Íslands, dr. Åke Granmo, prófessor við
Gautaborgarháskóla og Kristineberg Marine Research Station og dr.
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsóknirnar voru styrktar af Rannís og af Rannsóknasjóði Háskóla
Íslands."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband