Leita í fréttum mbl.is

Úr Svínadal eða Neanderdal

Þróunartré mannsins er eins og runni, með mörgum greinum. Reyndar á bara ein þeirra núlifandi fulltrúa, tegund sem nefnist Homo sapiens en hinar tegundinar, margar og fjölbreyttar hafa dáið út á milljónum ára. Sú tegund sem dó síðast út er kennd við Neanderdal, eftir u.þ.b. 35.000 ára gömlum leifum sem fundust þar (uppi eru vísbendingar um 10.000 ára gamla dvergmenn, sem enn er rökrætt um). Runnahugmyndin skilar sér ágætlega í mynd af ættartré og landfræðilegri legu mannapa úr kennslubók Barton og félaga (mynd af vefíðu bókarinnar, http://www.evolution-textbook.org/).

Skyldleiki okkar við útdauða frændur og frænkur, hefur lengstum verið rakinn með samanburði á beinagrindum og eiginleikum þeirra. Samanburður okkar við lifandi skyld"apa" er auðveldari, eftir að sameindalíffræðin gerði okkur kleift að einangra gen og ákvarða röð basa í hverju geni. Slíkur samanburður afsannaði þá tilgátu að górillur væru okkar næstu frændur, og renndi sterkari stoðum undir þá tilgátuna um skyldleika okkar og simpansa.

Frekari framfarir á þessu sviði og leiðir til að einangra erfðaefni úr steingerfðum leifum, t.d. beinum og tönnum, skapa ný tækifæri. Til dæmis er hægt að meta skyldleika okkar við útdauða mannapa, og var fyrst horft til Neanderthalsmannsins. Við  höfum áður velt slíkum samanburðarrannsóknum fyrir okkur, t.d. spurningunni um kynblöndun tegundanna. Ástæðan fyrir því að þetta efni er tekið upp aftur er sú að Svante Pääbo, sem ásamt, Johannes Krause og Ed Green leiðir raðgreiningu á erfðamengi Neandertalsmannsins mun halda erindi hérlendis í vikunni.

Erindið verður miðvikudaginn 23. apríl, kl.10, í fyrirlestrarsal Íslenskrar Erfðagreiningar, Sturlugata 8, 101 Reykjavík.

Rannsóknir á mannöpum verða óhjákvæmilega mannhverfar, og í þessu tilfelli er hætt við að greind, sérstöðu og yfirburðum mannkyns verði hampað. Samt er okkur hollast að rifja upp að þessi apategund er hluti af náttúrunni og lútir sömu takmörkunum og lögmálum og aðrar lífverur.

Sjá að auki ágrip úr fréttatilkynningu

"Til þess að komast að því hvað það er að vera mennskur, er gagnlegt að rannsaka þá lifandi tegund sem er skyldust manninum, þ.e.a.s. simpansinn. Sú tegund sem er náskyldust manninum í raun og veru, Neandertalsmaðurinn (Homo neanderthalensis), dó út fyrir u.þ.b. 35 þúsund árum, en hana þekkjum við bara af steingerðum beinum og steinverkfærum sem varðveist hafa í jarðlögum Evrópu og vestur Asíu. Í júlí 2006 hóf hópur vísindamanna frá Bandaríkjunum og Þýskalandi umfangsmikla rannsókn með það markmið að raðgreina erfðamengi Neandertalsmannsins, þar sem notað var erfðaefni sem einangrað var úr fornum beinum. Tilgangur rannsóknarinnar var ekki eingöngu að upplýsa um þróunarfræðilegan skyldleika manna og Neandertalsmanna, heldur líka að komast að því hvort erfðafræðilegur munur á þessum náskyldu tegundum geti varpað nýju ljósi á þróun þess líffæris sem gerir manninn svo einstakan, heilann. Á miðvikudagsmorgun gefst okkur einstakt tækifæri til að hlusta á þá vísindamenn sem leitt hafa þessa rannsókn, útskýra markmið hennar, helstu niðurstöður og framtíðarhorfur."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Saell,

Takk kaerlega fyrir skemmtilega sídu.  Thar sem ég kemst ekki á fyrirlesturinn í dag (bý erlendis) vaeri gaman ef thú gaetir skrifad smá úrdrátt hér á síduna :)

Med fyrir fram thokk,

Kristín Hildur

Kristín (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:03

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Kristín

Takk fyrir, ég skal reyna að rita litla samantekt fyrir lok vikunnar. Erindið var ljómandi skemmtilegt og ég lærði töluvert, en þarf aðeins að melta efnið og meta í stærra samhengi, fyrir pistilinn.

Arnar Pálsson, 23.4.2008 kl. 13:09

3 identicon

Já skiljanlega :)

Kristín (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 06:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband