Leita í fréttum mbl.is

Lesa DNA acaattaaga ccgcgcagga...

Tuttugasta og fyrsta öldin er öld upplýsinga, ef ekki upplýsingar! Líffræðingar hafa einangrað fjölda gena og raðgreina nú heilu erfðamengin á vikum eða mánuðum.

Nú var tilkynnt að sælgætisframleiðandinn Mars hyggist raðgreina erfðamengi kakóplöntunnar Theobroma Cacao, (sjá t.d. vísir.is og Washington Post). Það sem vísir.is kallar DNA-kóða er í raun erfðamengi, þ.e. erfðaefni lífverunnar sem samanstendur af DNA þráðum (einum eða fleirum). Líklega er um hráa þýðingu að ræða. Í tengslum við fréttina er vert er að árétta að erfðamengi nokkura plantna hafa þegar verið raðgreind, fyrst mengi Arabidopsis thaliana, sem er er óásjáleg planta mikið notuð í erfða og þroskunarfræði. Einnig hefur erfðamengi eins afbrigðis hrísgrjóna verið raðgreint (afbrigðin eru rúmlega 70.000) en kannski ofmælt að segja að ræktun hafi verið kollvarpað.

Eins og staðan er í dag 7 júlí 2008 hafa erfðamengi 23 heilkjörnunga verið raðgreind (að meira og minna leyti, ekki farið nánar í hér!). Rúm fjögur hundruð eru í farvatninu, og búast má við að þessar tölur skipti þúsundum eftir nokkur ár.

Við erum samt einungis rétt byrjuð að kroppa í toppinn á erfðabreytileika lífríkisins. Enginn veit hversu margar tegundir heilkjarna lífvera eru til á jörðinni, en fjöldinn er metinn á milli 10 og 100 milljónir. Að auki er venjan að raðgreina bara einn einstakling hverrar tegundar, en mikill munur getur verið á erfðaefni jafnvel náskyldra einstaklinga, vegna nýrra stökkbreytinga og endurröðunar litninga.

Ef við ígrundum bakteríur og veirur er fjölbreytileikinn mun meiri. Nú hafa erfðamengi rúmlega 700 baktería og fornbaktería (Archea) verið raðgreind, meðal annars nokkrir stofnar af E. coli með mismunandi sýkingarmátt.

Greining á samsetningu erfðamengjanna og DNA röð genanna hefur undirstrikað ályktanir þróunarfræðinga um skyldleika lífvera. Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, en einnig hjálpað mikið við að afsanna tilgátur um skyldleika ákveðinna tegunda. Slík gögn sýndu til dæmis endanlega fram á að nánustu ættingjar mannkyns væru simpansar og afsönnuðu þá hugmynd að górillur væru mest skyldar manninum af núlifandi prímötum.

Röðin í fyrirsögn er úr Leafy geninu úr kakóplöntunni, svona sem smá forsmekkur af erfðamenginu.  Augljóslega þarf að gera heilmikla líffræði til að skilgreina hvernig erfðamengin starfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband