Leita í fréttum mbl.is

Surtsey á lista heimsminjaskrá Unesco

Sem pjakkur lá ég dáleiddur yfir bókum um gosin í Surtsey og Heimaey, rýndi í hverja mynd og þreifaði á hraundröngunum eins og ég byggist við að steinarnir væru enn heitir. Síðar lærði maður að meta hversu lánsamlega gosið fór í Eyjum, að enginn skyldi farast, og hina dásamlegu tilraun sem Surstey er.

Þar er hægt að fylgjast með náttúrulegri framvindu og landnámi lífvera á glænýju landi. Í heimi þar sem áhrifa mannkyns eru sífellt sterkari er sjaldgæft að finna slíka gersemi þar sem hægt er að geta fylgst með náttúrunni óáreittri. Vissulega eru náttúruleg lögmál enn að verki, í líkömum okkar, vistkerfum stórborga og sjávar, sem og sífelldri þróun tegundanna, en maðurinn skiptir alltaf meira og meira máli.

Mynd af vef Surtseyjar félagsins "Njóli í máfavarpi" (Ljósm. Borgþór Magnússon, júlí 2002).

Sem líffræðingur með áhuga á genum, þroskun og þróun hefur Surtsey verið utan áhugasviðsins. Vera má að hægt sé að gera athyglisverðar landnáms rannsóknir þar, sérstaklega á erfðabreytileika landnemaplantna sem fyrstar námu land. E.t.v. þrifust fyrst afbrigði sem áttu auðveldar uppdráttar í lausri gosösku, en með þéttari gróðuþekju breytist valþrýstingurinn og önnur afbrigði eða jafnvel tegundir gætu náð yfirhöndinni.

Óspillt vistkerfi og landsvæði skipta ekki bara máli fyrir fræðilegar bollaleggingar. Ímyndum okkur þann dag er mannkynið uppgötvar að það er ekki einn blettur á jörðinni sem er ekki mótaður af mönnum. Maðurinn hluti af náttúrunni, ekki yfir hana hafinn, og gerir best að átta sig á þvi og skilja hana betur. Þörfin er ekki einungis fagurfræðileg eða andleg, framtíð okkar sem tegundar og menningarheimsins sem við höfum skapað hangir á spýtunni.

Surtsey er komin á heimsminjaskrá Unesco, skálum í hraunbolla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband