Leita í fréttum mbl.is

Berlín kvödd - síðasta ráðstefnan?

Frekari tíðindi af erfðafræðiþinginu í Berlín. Seinni hluti ráðstefnunar gaf hinum fyrri ekkert eftir. Tveir kunningjar frá Íslenskri erfðagreiningu fluttu erindi. Auggie Kong lýsti hvernig nota má erfðaupplýsingar frá hundruðum þúsunda breytilegra staða í erfðamenginu, til að skilgreina endurröðunar atburði og litningagerðir (svo kallaðar setraðir). Það er mjög mikilvægt að skilja setraðir (e. haplotypes) því þær segja manni hvaða stökkbreytingar hanga saman á litningabútum. Ef ein af slíkum stökkbreytingum lendir í kynfrumu, eru miklar líkur á að aðrar stökkbreytingar á sömu setröð fylgi einnig. Daníel (sem var reyndar kallaður Dave af gosanum sem kynnti hann) gerði grein fyrir kortlagningu á litagenum í manninum. Genagallar sem valda breytingum á litum hafa verið mikið notaðir í erfðafræði, fyrsta fluga Morgans var með hvít augu í stað rauðra, Castle og Wright unnu með arfgengar breytingar í lit felds og svo mætti lengi telja. Forvitnilegasta niðurstaða Daníels og félaga er sú að freknur eru líklega af tveimur gerðum, ef ekki fleirum. Freknur myndast vegna misdreifðingar litarefna í húð, og það er hægt að búa til mismunandi líkön um hvernig slíkt getur komið til.

Annars var margt sniðugt á dagskránni. Framúrskarandi erindi um erfðir og þróun ónæmiskerfis baktería, yfirlit um óstöðuga litningaenda í Trypanosóm frumdýrum, innlimaðir litningar innanfrumusýkilsins Wolbachia í ávaxtaflugum. Ég kem örugglega til með að draga þessi viðfangsefni og önnur upp á þessum vettvangi og í kennslunni.

Ráðstefnur sem þessar eru hugsaðar til þess að hvetja fræðilega vinnu og framfarir. Því fyrr sem bættur skilningur (ný kenning eða fall eldri tilgátu) skilar sér út í fræðisamfélagið, því markvissara verður hið vísindalega starf. Vinna út frá úr sér gengnum hugmyndum er einungis til óþurftar.  En  það má einnig spyrja hversu margar þurfa ráðstefnurnar að vera til að skila þessum ávinningi, og jafnvel, hvort að þær séu nauðsynlegar á öld rafrænna samskipta?

Kanadískur vísindamaður, Philippe H. sem vinnur að aðferðum til að greina skyldleika djúpt í þróunartrjám, heldur því fram að við gætum sparað heilmikið púður með því að draga úr fjölda funda og stækkað þá. Hann notaði síðustu 3 mín á erindi sínu í að ræða þessar spurningar, sem hann hefur einnig komið á prent í Trends in Genetics (2008 Jun;24(6):265-7) undir fyrirsögninni

    "Less is more: decreasing the number of scientific conferences to promote economic degrowth."

Vissulega verða vísindamenn eins og aðrir að vera meðvitaður um umhverfisáhrif gjörða sinna og lífstíls, þetta á ekki einungis við um svokallaðar gróðurhúsalofttegundir! Ráðstefnur er vísindunum bráðnauðsynleg og verða að duga svo lengi sem ekki hefur verið fundin upp sýndarveruleikaumhverfi fyrir ráðstefnur af þessu tagi. Símafundir virðast bara virka fyrir smáa hópa, þannig að vandamálið er enn til staðar. Sá sem leysir það gæti sparað veröldinni milljarða og dregið úr neikvæðum áhrifum millilandaflugs á mannverur. Ég þori ekki að lofa að ég myndi sleppa tuttugasta og fyrsta erfðafræðiþinginu í Japan 2013 jafnvel þótt slikur búnaður væri kominn í gagnið. Mig langar nefnilega að heimsækja Naruo Nikoh vin minn á heimaslóðir. Þegar allt kemur til alls þrífast vísindamenn líka á mannlegum samskiptum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband