Leita í fréttum mbl.is

Simon Conway Morris og samhliða þróun

Simon Conway Morris hefur rannsakað marga af elstu steingervðu dýrum sem finnast á jörðinni. Skrif hans vöktu fyrst athygli mína þar sem hann var að gagnrýna hugmyndir Stephen J. Gould. Gould leiddi rök að því að fjölbreytileiki grunnforma ("bodyplan") hefði verið mjög mikill á upphafstíma fjölfruma lífs, og að því að ef lífið myndi gerast aftur, væri fjarri því tryggt að samskonar liðdýr og hryggdýr myndu ná yfirráðum á jörðinni (sjá "wonderful life"). Conway-Morris leggur hins vegar höfuðáherslu á samhliða þróun ("convergence"), og heldur því fram að samskonar lífverur myndu þróast aftur og aftur (ef við gætum t.d. fylgst með lífinu á jörðinni þróast 10000 sinnum).

Inntakið í skoðun Goulds er að þróun sé ekki fyrirsjáanleg, þ.e. við vitum að bráðin mun þróast og finna leiðir til að sleppa undan afræningjanum, en við vitum ekki hvernig. Bráðin gæti falið sig (með felubúning), gert sig óæta (myndað eitur), hlaupið af sér afræningjan (með löngum fótum), varist afræningja (með kjafti eða skel).

Conway-Morris bendir á að margir eiginleikar þróast endurtekið, straumlínulaga form sjávardýra hefur þróast ítrekað, í óskyldum hópum eins og fiskum, mörgæsum, hvölum og selum. Einnig finnast dæmi um samhliða þróun á sameindasviðinu, núna síðast í hemóglóbín genum gæsa og þorska.

Mistök Conway-Morris felast í því að hann er tilbúin að alhæfa út frá nokkrum tilfellum, og gerir því skóna að samhliða þróun sýni að það séu dýpri lögmál að verki. Sem er náttúrulega hræðilega döpur rök.

Conway-Morris fetar sig lengra út á hálan ís og heldur því fram að andlegir vitsmunir tegundar okkar hafi verið þróunarfræðilega óumflýjanlegir. Það er ef líf þróast 10000 sinnum (t.d. á 10000 mismunandi plánetum), myndi vitiborinn maður þróast á öllum plánetunum. Loks brestur ísinn og hann virðist tilbúinn að meðtaka ónáttúrulegar skýringar á efnisheiminum, alheiminum og lífinu:

Ef alheimurinn er í raun afurð rökvís Huga og þróun er einungis leitarvél, sem leiðir til samkenndar og meðvitundar sem gerir okkur kleift að uppgötva grunndvallar atriði alheimsins

Með hans orðum:

If, however, the universe is actually the product of a rational Mind and evolution is simply the search engine that in leading to sentience and consciousness allows us to discover the fundamental architecture of the universe

Ath. Samkennd er ekki besta þýðingin á sentience!

Hér er Conway-Morris tilbúin að ræða um alheimin sem afurð rökvísrar veru, huga sem notar þróun til að skapa menn. Þetta er ný sköpunarsaga, jafn óprófanleg og gagnslaus og aðrar óvísindalegar hugdettur. Fallið er hátt hjá Conway-Morris, því rannsóknir hans á steingervingum voru ágætar. 

Vísindin treysta sem betur fer ekki á að vísindamenn hafi rétt fyrir sér í öllu, Conway-Morris getur stuðlað að nýrri þekkingu í steingervingafræði, en síðan kafnað í eigin steypu þegar spurningin berst að uppruna mannsins. Arthur Russel Wallace, sem setti fram þróunarkenninguna samhliða Darwin var forfallinn spíritisti. Kannski að vísindamenn tapi hlutlægninni þegar rannsóknirnar fara að snúast um eiginleika mannsins, vitundina og greindina. E.t.v. ættum við ráða nokkra klóka páfagauka til að rannsaka manninn.

Simon Conway-Morris verður til viðtals í vísindaþætti Sögu milli kl 17 og 18 í dag. Sjá einnig á Stjörnufræðivefnum.

Ítarefni:

Grein Simon Conway-Morris í the Guardian Darwin was right. Up to a point

Gagnrýni PZ Myers á Conway-Morris á Pharyngula.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff. Óskaplega fannst mér þetta léleg grein hjá honum (í Guardian). Það er eins og hann hafi skrifað í belg og biðu og sleppt því að lesa yfir greinina. Svo setur hann upp nokkra strámenn og kveikir í þeim og æpir svo GODDIDIT!

Alltaf leiðinlegt að sjá trúaráróður frá vísindamanni þar sem ID liðið á eftir að nota þetta þangað til þau deyja út.

Harpa (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband