Leita í fréttum mbl.is

Crick og Watson, Wilkins og Franklin

Laugardaginn 28 febrúar 1953 náðu Francis Crick og James Watson að setja saman líkan af  byggingu erfðaefnisins, DNA. Þeir sýndu hvernig tveir DNA þræðir pöruðust, með tengjum á milli basa (G og C annars vegar og A og T hins vegar), og mynduðu stigul (gorm) eða "helix" eins og það heitir upp á engilsaxnesku. DNA helixinn er fyrir löngu orðinn að heimsþekktu tákni (svona rétt eins og krossinn, McDonaldsmerkið og pottur/sleif) og er eflaust eitt sterkasta tákn líffræðinnar. dna

Linus Pauling hafði snemma árs 1953 sett fram tilgátu um byggingu DNA sem reyndist vera röng. Það ku hafa ýtt við Crick og félögum, og hvatt þá til dáða. Keppnisandi kemur líka að góðu gagni í vísindum. Grein Watsons og Crick var birt á vormánuðum 1953 í tímaritinu Nature, hún er knöpp, merkilega hógvær og læsileg. 

Svo forvitnilega vill til að Linus var fæddur 28 febrúar. Það hlýtur að hafa verið örlítið sérkennilegt fyrir hann að frétta að Crick og Watson hafi leyst gátuna á þeim degi. Rétt er að geta þess að Pauling var enginn aukvisi í vísindum, hann byrjaði á rannsóknum í eðlisfræði en síðan hneygðist hann til líffræðilegri rannsókna (í ónæmisfræði, erfðafræði og lífefnafræði). Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1954 fyrir rannsóknir á efnatengjum, sem samkvæmt honum sjálfum var leið nefndarinnar til að verðlauna hann fyrir margar veigamiklar uppgötvanir.

Crick, Watson og Maurice Wilkins deildu Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1962 fyrir uppgötvun á byggingu DNA.

Eins og við minntumst á í fyrri færslu þá mun Guðmundur Eggertsson gera framlagi Crick og watsons skil í fyrirlestri í marsmánuði. 

Mynd er af síðunni Right handed DNA hall of fame.

Ítarefni af síðu History Channel.

Fréttablaðið gat uppgötvunar Crick og Watsons á tímamótasíðunni bæði í fyrra og í ár.

Í blaðinu frá 21 febrúar 2008 stendur (sem er augljóslega röng dagsetning).

Fræðimennirnir James atson og Francis Crick uppgötva samsetningu DNA-sameindarinnar.

Rétt er að segja að þeir uppgötva byggingu DNA sameindarinnar.

Í ár lendir fréttin á réttum degi, og fyrirsögnin tilgreinir byggingu: Watson og Crick leystu gátuna um byggingu DNA-sameindarinnar.

Þennan dag árið 1953 tilkynntu þeir James D. Watson og Francis Crick að þeir hefðu leyst gátuna um byggingu DNAsameindarinnar. Uppgötvunina byggðu þeir að stórum hluta á athugunum Rosalind Franklin sem bentu til þess að DNA-sameindin væri gormlaga. Fyrir uppgötvun sína fengu þeir félagar Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1962. DNA er erfðaefni allra lífvera.
DNA-sameindir litninganna skiptast í starfseiningar sem eru kallaðar gen. Þær eftirmyndast með mikilli nákvæmni í hverri frumukynslóð þannig að hver afkvæmisfruma fær nákvæmlega eins DNA, það er að segja sams konar gen og foreldrisfruman. Arfgengar breytingar á erfðaefninu eru nefndar stökkbreytingar. DNA (deoxyribonucleic acid) hefur á íslensku verið kallað DKS sem stendur fyrir deoxýríbóasakjarnsýra. (skáletur er okkar)

 

Þessi pistill er alveg ágætur, nema hvað erfðafræðin er ekki á fyllilega valdi blaðamannsins. Í fyrsta lagi eru litningar úr DNA, þannig að orðfærið "DNA-sameindir litninganna" er ónákvæmt. Í öðru lagi þá væri eðlilegra að tala um frumuskiptingu, erfðaefnið er eftirmyndað áður en fruma skiptir sér, og báðar frumurnar sem af skiptingunni hljótast eru með eins erfðaefni. Eftirmyndunin er mjög nákvæm, en eins og rétt er frá sagt í greininni, verða stundum breytingar í DNA sameindum sem kallast stökkbreytingar. Sumar stökkbreytingar hafa áhrif á starfsemi gena, prótína og jafnvel lífvera.

Rosalind Franklin vann með Maurice Wilkins og tók myndir af DNA kristöllum, en henni tókst ekki að búa til rétt líkan af byggingu erfðaefnisins. Hún lést fyrir aldur fram og ég veit ekki hvort það hefur verið útkljáð hvort að hún hefði átt meiri rétt á Nóbelsverðlaununum en Maurice.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vigdís Stefánsdóttir

Rak augun í þessa grein og var að hugsa það sama og þú skrifaðir. Takk fyrir það:)

Vigdís Stefánsdóttir, 28.2.2009 kl. 22:14

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Vigdís

Ágætt að fá staðfestingu á að þetta væri ekki bara mín sérviska. Takk sömuleiðis fyrir innlitið.

Arnar Pálsson, 3.3.2009 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband