Leita í fréttum mbl.is

Endurnýjun hjartans

Það er almennur sannleikur að hjartað er viðkvæmt fyrir skemmdum og flestir telja að hjartavöðvafrumur geti ekki skipt sér og endurnýjað þennan lífsnauðsynlega vef.

Í ljós kemur að flestir hafa rangt fyrir sér, þar sem rannsókn leidd af Dr. Jonas Frisen við Karólinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi sýnir að hjartað endurnýjast. En það gerist mjög hægt. Samkvæmt niðurstöðum og líkönum þeirra endurnýjast um eitt prósent vöðvafruma hjartans árlega í 25 ára einstaklingum, en síðan hægir á. Í 75 ára einstaklingum endurnýjast um hálf prósent hjartafruma árlega.heart_Science_review

Mynd af vef Science MARK ALBERHASKY/ALAMY

Nicolas Wade gerir þessum rannsóknum dásamlega skil í föstudagsblaði NY Times, undir fyrirsögninni Heart Muscle Renewed Over Lifetime, Study Finds.

Niðurstaðan er mjög athyglisverð, og gefur okkur betri sýn á hjartað og þær skemmdir sem það verður fyrir. Það er sérstaklega mikilvægt að átta sig á því að hjartað býr yfir endurnýjunarmætti, en að sá máttur er takmarkaður.

Að auki verðum við að geta aðferðarinnar sem Frisen og samstarfsmenn beittu. Venjulega er hægt að skoða endurnýjun í vefjum með því að gefa tilraunadýrum geislamerkta basa, sem innlimast í erfðaefni þegar frumur eftirmynda erfðaefni sitt í aðdraganda skiptingar. Slíkar tilraunir er vitanlega ekki hægt að gera í mannfólki. Frisen og félagar nýttu sér þá staðreynd að kjarnorkutilraunir framkvæmdar á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar, voru í raun "náttúrulega manngerð" geislamerkingar tilraun. Með því að skoða hlutfall geislavirks kolefnis í erfðaefni hjartavöðva einstaklinga sem fæddir voru fyrir, meðan og eftir að kjarnorkutilraunirnar fóru fram tókst þeim að sýna fram á endurnýjun hjartafrumanna. 

Frumheimildin lýsir þessu í smáatriðum, sérstaklega hvernig hópurinn þurfti að flokka frumur eftir gerðum og DNA magni (25% hjartafruma tvöfalda nefnilega erfðaefni sitt en skipta sér ekki).

Frumheimild

 

Evidence for Cardiomyocyte Renewal in Humans Olaf Bergmann et al Science 3 April 2009: Vol. 324. no. 5923, pp. 98 - 102

Ítarefni

DEVELOPMENT BIOLOGY: Turnover After the Fallout eftir Charles E. Murry and Richard T. Lee Science 3 April 2009: Vol. 324. no. 5923, pp. 47 - 48


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Sem sagt að ónýt hjartafruma endurnýjar sig sem ónýt hjartafruma.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 3.4.2009 kl. 14:36

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ef þú átt við að ónýt hjartafruma sé dauð, þá endurnýjast hún ekki. Mér fannst forvitnilegast að læra hversu mismunandi erfðasamsetning hjartavöðvafrumnanna getur verið.

Arnar Pálsson, 3.4.2009 kl. 15:20

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég er ekki að spotta þig. Ef að það er ör á hjartanu, afhverju endurnýjar örvefurinn sig þá sem örvefur en ekki sem vöðvavefur? Er það vegna erfðasamsetningar örvefsins?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.4.2009 kl. 10:02

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Kristján

Fyrirgefðu ef ég svaraði stuttaralega, ég fattaði ekki alveg hvert þú varst að fara.

Oftast þegar kransæðar stíflast eða skemmd myndast á hjartanu, sem leiðir til dreps þá fylla aðrar frumur upp í sárið. Þessar nýju niðurstöður sýna að vöðvafrumur hjartans hafa ekki getu til að fylla í slík skörð, sérstaklega ef þau eru stór. Ef ég man rétt þá fyllast slík ör af bandvef (mikið af collagen þráðum og slíku en fáum frumum), sem getur náttúrulega ekki slegið eins og hjartavöðvafrumur.

Arnar Pálsson, 4.4.2009 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband