Leita í fréttum mbl.is

Fósturvísir var það heillin

Orð skipta máli, Neil Amstrong lenti á tunglinu ekki túninu. 

Fósturvísir er afurð frjóvgaðs eggs, sem náð hefur að skipta sér og myndað a.m.k. kímblöðru.

Erfðavísir er gamaldags nafn á geni. 

Gen og fósturvísir eru ekki sami hluturinn.

Í frekar hraðsoðinni endursögn tjáir hinn nafnlausi penni moggans okkur að Kýpverski frjósemislæknirinn Panayiotis Zavos sé að taka fyrstu skrefin til klónunar mannvera. Þetta á hann að hafa gert með því að einangra kjarna úr frumum einstaklinga og láta þá renna saman við egg úr kúm (sem kjarninn hafði verið fjarlægður úr - sjá færslu Magnúsar Karls um klónun). Eftir kjarnaflutninginn hafi eggjunum síðan verið komið fyrir í legi. Reyndar hafi engin þungun orðið, og þar sem rannsókirnar eru ekki kynntar í vísindalegu tímariti er ákaflega litið af upplýsingum um tilraunina og niðurstöður hennar. Þetta verður ekki raki í smáatriðum hér en vert vert er að minnast á tvö atriði.

Í fyrsta lagi er alls ólíklegt að erfðaefni mannsins geti starfað í kúaeggi, t.d. þarf að mynda um 1500 mismunandi prótín í kjarna og flytja þau inn í hvatberann sem er ættaður úr kúnni. Alls óvíst er hvort mannaprótínin geti starfað eðlilega með kúaprótínum í hvatberanum, hvað þá annarsstaðar í frumu eða fóstri.

Í öðru lagi finnst mér sú hugmynd að klóna látna ættingja, börn eða aðra, hreint skelfileg. Eins og Josephine Quintavalle bendir réttilega á myndi slíkt leggja mjög sérkennilegar byrðar á herðar barnsins, hver vill alast upp vitandi það að hann sé með sama erfðaefni og Jörundur Hundadagakonungur?

Vissulega er gaman að eiga börn og kenna þeim, en það er líka nóg af fólki í heiminum sem þarfnast athygli, ástar og umhyggju. Eigum við ekki að byrja á þeim áður en við leggjum út í 100 milljón króna hátæknifósturvísaorgíu til að fullnægja löngun okkar í erfingja eða slá á söknuð vegna ástvinamissis?

Ítarefni.

Frétt Steve Connor fyrir The Independent, Fertility expert: 'I can clone a human being'

Og í styttri útgáfu, frétt Julia Reid á Sky News, Could Cloning Bring Dead Girl Back To Life? sem var í raun þýdd orðrétt af mbl.is.

Þáttur um efnið verður sýndur á Discovery.
mbl.is Bjó til erfðavísi úr látnu barni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessar útskýringar, þetta er það besta við bloggið, þeir sem hafa sérþekkingu á ákveðnum sviðum geta leiðrétt eða bætt við fréttir.

 Hvernig er það annars? Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólki finnst svona óhugnanlegt að vera klónuð útgáfa af einhverjum öðrum?, hver er t.d. munurinn á því og bara að vera tvíburi? Hvaða sérkennilegar byrðar á herðar barnsins eru það að vera eins og einhver annar umfram það að vera eins og systkyni sitt.

Tódi (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 00:15

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Tódi

Ætli það sé ekki þrýstingur frá "foreldri" sem er hvað mest ógnvekjandi. Og jú, margar núlifandi manneskjur hafa þurft að sitja undir mjög sérkennilegum þrýstingi frá uppalendum sínum.

Vitanlega yrði persónuleikinn aldrei nákvæmlega eins, og barnið myndi aldrei muna neitt úr lífi hins látna. En ímyndaðu þér ef "foreldrið" er sífellt að minna þig á það sem "forfaðir" þinn gerði og gerði ekki.

Annars held ég að líffræðilegu rökin gegn klónun séu einnig mjög sterk. Frumur eldast og ef þú klónar gamlan geithafur, mun kiðið bera frumur sem eru eldri en ella. Það getur leitt til margskonar vandamála sem draga úr lífsgæðum hvort sem þú ert geit eða maður.

Arnar Pálsson, 23.4.2009 kl. 10:29

3 identicon

Hmm... ég hélt nú að það væri sannað að manna-frumukjarnar gætu starfað í kúaeggi.  Eða voru það músa-frumukjarnar?  Kannski er þetta ekki birt enn, en ég hef farið á fyrirlestur hér í Cambridge hjá breskum vísindamönnum sem stunda slíkt. 

Ég reyndar held að hvatberar séu færðir á milli um leið og þetta er gert og kúa-hvatberunum er eytt.  Man ekki lengur hvernig.  Við kjarnaflutning mun það víst nær ávallt vera raunin að það fylgi með hvatberar frá gjafa-frumunni.

Þær tilraunir sem ég vísa til hér eru hannaðar til þess að forðast það að nota egg eða fóstur úr mönnum til þess að búa til mannkyns-fósturvísastofnfrumur í meðferðarskyni, ekki til þess að klóna einstakling.

Ég er sammála þér með siðferðisspurningar á bak við þessar tilraunir.  Hins vegar held ég að það sé ekki hægt að banna þær. 

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 19:07

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Erna

Takk fyrir þetta innslag, af praktískum aðstæðum þá verður eiginlega að flytja hvatberana með. 

Önnur sker sem þetta gæti steytt á væru samskipti mRNA mannsins við ríbósóm kúarinnar, og auðvitað aflétting sérhæfingar í kjarnanum.

Ég held að það sé hægt að banna þær, því ef þú ætlar að reyna að búa til mannveru á þennan hátt, og miklar líkur séu á að hún verði vansköpuð eða erfðafræðilega gömul (með auknum líkum á krabbameinum og hrörnunarsjúkdómum) þá held ég að við verðum að slá loku fyrir. 

Við bönnum efni sem valda fósturskaða, og ættum að banna "meðferðir" sem myndu búa til brengluð fóstur.

Arnar Pálsson, 24.4.2009 kl. 09:47

5 identicon

Þið eruð rugluð.

nær væri að lóga þá einhvað af þessum munaðarleysingjum ef það er of mikið af þeim.

ekkisvocrazy (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 14:13

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Sérkennilegt orð, munaðarleysingjar. Munaður vísar nútildags til veraldlegra gæða, ekki foreldra.

Arnar Pálsson, 27.4.2009 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband