Leita í fréttum mbl.is

Nánar um rangfærslur um erfðabreytingar

Fyrir helgi birtum við bréf Ólafs S. Andréssonar til Umhverfisráðherra, þar sem hann ræddi rangfærslur Krisínar Völu Ragnarsdóttur um erfðabreyttar lífverur. Kveikjan er beiðni ORF líftækni um að fá að rækta utandyra erfðabreytt bygg, í þeim tilgangi að einangra úr þeim prótín.

Nú hefur Ólafur, ásamt Zophoníasi Jónssyni og Eiríki Steingrímssyni ritað bréf þar sem einstök atriði opins bréfs Kristínar Völu eru hrakin, með fræðilegum röksemdum. Þeir setja fram heimildir sem hrekja ákveðin atriði í bréfi hennar (t.d staðhæfingu um að erfðabreyttar lífverur dragi úr viðgangi hunangsflugna) , og útskýra fleiri grundvallaratriði sem virðast vera rót miskilnings Kristínar Völu.

Opið bréf vegna opins bréfs fræðasviðsforseta við HÍ

Háskóli Íslands nýtur mest trausts allra stofnana á Íslandi og þegar vísindamenn Háskólans tjá sig um mál sem varða vísindi og tækni er mark á þeim tekið. Þeir eru jú sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum og þjálfaðir í að beita vísindalegri aðferð við greiningu mála en sú aðferðafræði felst í því að kynna sér viðfangsefnin vel áður en þeir tjá sig um þau.

Kristín Vala Ragnarsdóttir jarðefnafræðingur og forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands hefur ritað opið bréf til Umhverfisstofnunar og umhverfisráðherra vegna umsóknar ORF Líftækni um útiræktun erfðabreytts byggs. Við sjáum ekki betur en að bréfið sé ritað í krafti akademískrar stöðu hennar fremur en sem persónuleg skoðun. Þar sem í bréfi hennar eru margar rangfærslur og alvarlegur misskilningur um líffræði- og erfðafræðileg efni  teljum við mikilvægt að koma leiðréttingum á framfæri.

Í grófum dráttum má skipta ónákvæmni og misskilningi Kristínar Völu í þrennt: 1) Hvernig erfðabreytta byggið hefur áhrif á ímyndaðan neytanda. 2) Hvernig bygg dreifist í umhverfi sínu. 3) Hvernig bygg æxlast.

Um áhrif erfðabreytts byggs á ímyndaðan neytanda.

Í bréfi sínu segir Kristín Vala: "Hafa krabbameinsáhrif genbreytta byggsins verið athuguð? Hvað með ofnæmisáhrif?" Hún segir einnig: "Framleiðsla á vaxtarþáttum eins og IGF-1 og áhrif þeirra á lífríkið í kring hefur ekki verið kannað. Hvaða áhrif hafa þessir þættir á skordýr, fugla (ef þeir komast í gegnum netin) og bakteríur? Fyrirhugað er að plægja niður stráið strax að aflokinni uppskeru - hvaða áhrif hefur það á skordýr og gerla í jarðveginum? Eitthvað af korni verður einnig eftir á tilraunaakrinum þegar uppskeru er lokið og það er mögulegt að fuglar, mýs og e.t.v. smádýr komist í þetta korn í litlum mæli og éti það. Þessi mögulegu áhrif hafa ekki verið könnuð. Athuga þarf hegðun og fjölda skordýra - hefur það verið gert?"

Byggið sem hér um ræðir er ræktað til framleiðslu vaxtarþátta til notkunar í iðnaði. Hér er því ekki um að ræða ræktun til manna- eða dýraeldis. Það er því engin ástæða til að óttast krabbameinsáhrif eða ofnæmisáhrif í mönnum því það verða einfaldlega engir neytendur að bygginu. Jafnvel þótt einhverjir neytendur væru að bygginu eru krabbameinsvaldandi eða ónæmisvaldandi áhrif engin því byggið, og vaxtarþættirnir þar með, myndi sundrast í meltingarvegi neytendanna eins og næringarefni úr öðrum sambærilegum matvælum. Prótein sem framleidd eru í lífverum með aðferðum líftækninnar eru í engu frábrugðin öðrum próteinum lífverunnar og eru meðhöndluð á nákvæmlega sama hátt og önnur prótein í meltingarvegi dýra. Vaxtarþættir eins og IGF-1 eru framleiddir í öllum dýrum, í mismiklum mæli eftir frumugerð, þroskaferli og ástandi lífverunnar. Margir vaxtarþættir svo sem IGF-1 hafa mikla tegundasérhæfni og eru því ekki líklegir til að hafa áhrif á aðrar lífverur en upprunategundina, í þessu tilviki manninn. Okkur er því ekki ljóst af hverju framleiðsla á slíkum þáttum í korni byggsins ætti að hafa einhver sértök áhrif á lífríkið í kring.

Vaxtarþættirnir eru inni í korninu og smitast ekki út í umhverfið. Áhrif á fugla verða engin því ef þeir éta kornin eru vaxtarþættirnir meltir eins og önnur prótein og jafnvel þótt þeir kæmust í blóð fuglanna hefðu þeir ekki áhrif. Sama á við um bakteríur. Áhrif á aðrar plöntur í umhverfinu verða engin og bakteríur brjóta próteinin niður á þann öfluga hátt sem þeim einum er mögulegt. Benda má á að bakteríur brjóta niður hræ flestra lífvera. Í öllum þeirra eru gen sem skrá fyrir vaxtarþáttum og frumur sem framleiða viðkomandi vaxtarþætti.

Bakteríur sem brjóta niður hræ dýra, skordýra eða plantna hafa um milljónir ára brotið niður vaxtarþætti og gen þeirra án þess að nokkur hætta hafi hlotist af því fyrir umhverfið.

Dreifing byggs í umhverfi sínu

Kristín Vala fullyrðir ýmislegt um dreifingu byggs. Hún segir "Hve langt geta fræ og genbreytt efni hreifst á vindasömu Suðurlandi? Það er þekkt að sandrok frá Sahara hefur áhrif á lífríki Karabíahafsins (bæði sandurinn sjálfur og gerlar sem berast með sandkornunum). Sandur og frjókorn berast upp á jökla Íslands. Það er því fáránlegt að segja að þau geti ekki borist nema nokkra metra með vindi. Ætibyggrækt á Rangárvöllum (og víðar) getur því verið í hættu. Þetta þarf að kanna betur." Kristín Vala heldur áfram og segir: "Gera þarf athuganir á genmengunaráhrifum um árabil. Ég var að heyra í dag að gerðar hafa verið útiathuganir á Hvanneyri. Hve langar voru tilraunirnar á Hvanneyri? Hvað var athugað annað en víxlun við ógenbreytt bygg?"

Staðreyndin er sú að sérstaklega hefur verið rannsakað hvernig bygg dreifist í roki á Íslandi. Þetta kemur fram í Riti LBH nr. 1, Ný tækni við byggkynbætur. Rannsóknin sem hér er vísað til var reyndar ekki gerð á Hvanneyri, heldur í Gunnarsholti. Byggkornið er þungt og dreifist einungis stuttar vegalengdir. Skv. rannsókninni sem ritið greinir frá er hámarks vegalengdin sem kornið dreifist 25 metrar og langmest af því korni sem fauk af axi í hávaðaroki fór skemur en 5 metra. Einfaldar leiðir eru því til að takmarka dreifingu byggs, jafnvel í miklu roki. Jafnvel þótt byggfræ dreifist út fyrir akur er nær óhugsandi að plantan geti þrifist þar enda þarf hún verulega umönnun. Auk þess er í ræktun ORF Líftækni gert ráð fyrir að skera byggið allnokkru fyrir fullan fræþroska, þegar mest er af IGF-1 í fræinu. Fræið fýkur ekki auðveldlega af axinu fyrr en það hefur þroskast, og óþroskuð fræ geta ekki spírað þótt þau séu plægð niður í jarðveginn. Um æxlun byggsins er fjallað hér að neðan.

Kristín Vala fullyrðir ennfremur: "Það þarf að kanna áhrif nýrra innrásartegunda. Vistkerfi sem fer úr böndunum er ekki unnt að snúa til baka. Slík krísa yrði verri en bankahrunið 2008."Okkur er ekki ljóst hvað átt er við með "innrásartegundir". Bygg er ekki náttúruleg tegund í íslenskri flóru en hefur verið ræktuð á Íslandi frá örófi alda og með góðum árangri undanfarin ár. Byggið vex ekki villt í náttúrunni, því verður að sá og hlúa að til að það vaxi og gefi af sér korn. Bygg er því ekki hægt að skilgreina sem "innrásartegund". Ekki þarf að fjölyrða um fullyrðingarnar um vistkerfi sem ekki snýr til baka og krísu sem yrði verri en bankahrunið 2008, enda eru þetta staðhæfingar án vísindalegs stuðnings.

Æxlun hins erfðabreytta byggs

Í bréfi sínu spyr Kristín Vala: "Hefur verið athugað hvort genbreytt bygg víxlast with melgresi?

Bygg og melgresi eru sitt hvor grastegundin og engin dæmi eru til um víxlfrjóvgun þessara tegunda við náttúrulegar aðstæður. Slíkar víxlfrjóvganir mundu ótvírætt leiða til ófrjórra afkvæma enda eru þessar tegundir með mismunandi fjölda litninga (bygg er tvílitna en melgresi er fjöllitna) og því munu frumuskiptingar ekki ganga upp á eðlilegan hátt. Á Íslandi þrífast engar tegundir sem eru svo skyldar byggi að víxlfrjóvgun geti átt sér stað. Villibygg getur reyndar æxlast við melgresi en ræktað bygg (Hordeum vulgare) eins og það sem hér um ræðir ekki. Ræktað bygg er að langmestu leyti sjálffrjóvga. Frævan frjóvgast af frjói úr fræflum í sama blómi, og blómið opnast ekki fyrr en að lokinni frjóvgun. Fræflarnir fella frjóið í lokuðu blómi og þótt frjóið kæmist út úr því eru grannblómin lokuð og hleypa því ekki inn. Frjókornin eru þar að auki skammlíf. Dreifing erfðaefnis milli plantna á þennan hátt er því afar ólíkleg og engir blendingar fundust í ofangreindri rannsókn Landbúnaðarháskólans, þrátt fyrir ítarlega leit.

Þetta bendir til að víxlfrjóvgun sé svo sjaldgæf, ef hún gerist yfirleitt, að ekki þurfi að hafa áhyggjur af henni. Því má svo bæta við að þótt svo ólíklega vildi til að byggplanta sem ber IGF-1 erfðabreytingun næði að frjóvga aðra byggplöntu og það fræ væri notað til frekari ræktunar, myndi minnkuð hæfni þeirrar plöntu nær örugglega leiða til þess að náttúrulegt val og genarek hreisuðu breytinguna úr stofninum.

Ýmis önnur atriði

Auk þessara meginathugasemda fullyrðir Kristín Vala ýmislegt sem við höfum ekki fundið staðfest í leitum í gagnagrunnum. Til dæmis segir hún: "Nýlegar rannsóknir sýna til dæmis að það sé mögulegt að býflugur séu að hverfa á þeim svæðum sem genbreyttar lífverur eru ræktaðar, vegna þess að þær verða ófrjóar."

Við höfum ekki fundið neinar vísindagreinar sem staðfesta þetta og væri athyglisvert að sjá hvaða heimilda og rannsókna Kristín Vala er að vísa til. Þvert á móti, þá hafa verið birtar fjölmargar rannsóknir þar sem býflugur hafa haft greiðan aðgang að frjókornum erfðabreyttrar repju, maís eða bómullar án þess að hægt væri að greina slæm áhrif enda þótt frjókornin innihéldu gen sem skrá fyrir Bt lirfueitri (Duan o.fl. 2008).

Kristín Vala segir einnig: "Á Íslandi er matvara ekki enn merkt þegar um genbreyttar lífverur er að ræða. Þess vegna verða matvörur frá bændabýlum í kringum tilraunareitinn grunsamlegar og hætta er á að fólk vilji ekki neyta þeirra. Vegna þess að gögn eru ekki nægileg er möguleiki á mengun matvæla og fóðurs í nágrenni tilraunareitanna."

Af ofangreindu ætti að vera ljóst að matvörur frá bændabýlum nærri tilraunareitnum eru ekki í neinni hættu af viðkomandi tilraun. Erfðabreyttar lífverur eru ekki hættulegar sem slíkar þótt ýmsir vilji að svo sé og eyði talsverðum tíma í að koma þeirri skoðun sinni á framfæri. Vert er að taka fram að ORF Líftækni fékk leyfi til sambærilegrar afmarkaðrar útiræktunar á erfðabreyttu byggi árin 2003 og 2005. Niðurstaða meirihluta ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur er vönduð og vísindalega unnin enda allt sem bendir til að tilraunin sem ORF Líftækni stefnir að sé hættulaus fyrir menn, skepnur og umhverfið. Það er því mjög miður að forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs H.Í. taki þátt í því að dreifa rangfærslum og misskilningi sem kynda undir vanþekkingu og hindurvitnum.

Að lokum viljum við taka það fram að við eigum engra hagsmuna að gæta í þessu máli og erum ekki og höfum aldrei verið eigendur, starfsmenn eða ráðgjafar fyrirtækisins ORF Líftækni.

Ólafur S. Andréssson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ

Eiríkur Steingrímsson, prófessor, Læknadeild HÍ

Zophonías Jónsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Duan JJ, Marvier M, Huesing J, Dively G, Huang ZY (2008) A Meta-Analysis of Effects of Bt Crops on Honey Bees (Hymenoptera: Apidae). PLoS ONE 3(1): e1415. doi:10.1371/journal.pone.0001415

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband