Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Áhrif mannsins á gróðurlendi

Í dag mun Sverrir Aðalsteinn Jónsson flytja fyrirlestur um rannsókn á gróðurfari í Fljótsdalshéraði. Hann notaði jarðfræðilegar aðferðir til að skoða breytingar sem orðið hafa á síðustu 2000 árum, og kanna hvort að maðurinn eða breytingar á veðurfari hafi skipt meira máli varðandi breytingar á gróðulendi. Þetta sýnir hvernig hin mismunandi svið raunvísinda geta nýtast til að svara vísindalegum spurningum. Rannsóknin var unnin undir handleiðslu Ólafs Ingólfssonar, jarðfræðings, en spurningin er í raun líffræðileg eða umhverfisfræðileg, hvað hefur áhrif á útbreiðslu og viðgang gróðurs.

Rannsóknina vann Sverrir sem meistaraverkefni við Jarðfræðideild HÍ og er fyrirlesturinn hluti af vörn hans. Erindið hefst kl 14:00 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip má nálgast hér, það er einnig endurprentað hér að neðan.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla gagna sem gætu skýrt gróðurfarssögu Fljóts­dalshéraðs síðastliðin 2000 ár og kanna orsakir hnignunar skóga héraðsins. Rannsóknin var gerð á tveimur mismunandi gagnasöfnum. Í fyrsta lagi var gerð nákvæm rannsókn á öllum sagnfræðilegum heimildum um gróðurfar og veðráttu á Austurlandi frá landnámi. Í öðru lagi var gerð frjókornarannsókn á sýnum úr setkjarna er tekinn var úr tjörn innan Hallorms­staðarskógar. Sá kjarni spannar um það bil 2000 ár.

Setið í kjarnanum var einsleitt vatnaset er innihélt mörg öskulög. Öskulagatímatal var útbúið fyrir kjarnann og við það notuð sex þekkt öskulög. Niðurstöðum frjókornarannsóknarinnar var skipt upp í sex kafla (zones) og hver þeirra táknaði mismunandi gróðurfarsaðstæður. Þessir kaflar voru síðan notaðar til túlkunar gróðurfarssögu svæðisins. Við landnám var svæðið um­hverfis tjörnina þakið skógi, en skógurinn hörfaði hratt eftir landnám. Á 15. öld sótti skógurinn fram á ný og var frekar gróskumikill allt fram á miðja 18. öld en þá hörfaði hann hratt. Þessi hörfun hélt áfram allt til upphafs 20. aldar þegar skógurinn var friðaður.

Áhrif mannsins virðast hafa skipt sköpum hvað varðar ástand skógarins eftir landnám en veðurfar virðist hafa haft minni áhrif.

Leiðbeinendur: Ólafur Ingólfsson, prófessor, og Dr. Ólafur Eggertsson

Prófdómari: Dr. Egill Erlendsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband