Leita í fréttum mbl.is

Sveiflur í náttúrulegum stofnum

Við nám í líffræðinni þá kveikti vistfræðin aldrei neinn áhuga hjá mér. Vitanlega var mér umhugað um umhverfið og náttúruna, arfleið úr sveitinni eða MH, nema hvorutveggja sé. Samt fannst mér þær  spurningar vistfræðinnar bara óspennandi.

Blessunarlega hef ég þroskast, og þótt það sé ólíklegt að ég leggi genin mín á hilluna kann ég í það minnsta að meta hversu flókin og margslungin vistkerfi eru. Ef manni finnst fruman margslungin, þá eru vistkerfi mörgum sinnum flóknari og erfiðari viðfangs. Sérstaklega þar sem það er mjög erfitt að gera tilraunir með vistkerfi á sama hátt og við getum gert tilraunir með einangraðar frumur eða vefi.

Síðustu viku hafa þrjár rannsóknir og vaktanir á stofnum við Ísland komist í fréttirnar, vegna þess að stofnar eru að sveiflast.

Í fyrsta lagi er erfðasamsetning þorsksins að breytast, þar sem valið er gegn arfgerð sem heldur sig á grunnsævi.

Í öðru lagi er lundastofninn í mikilli niðursveiflu, hann hefur minnkað um  25% frá 2005 samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Suðurlands.

Í þriðja lagi er rjúpnastofninn i uppsveiflu um allt land, eins og skýrt var frá í fréttum RÚV og tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Sveiflur í stofnstærð eru eðlilegur hluti af vistkerfum. Vistkerfi og náttúran er aldrei í "jafnvægi" eins og stundum er fullyrt. Náttúran er í besta falli í stöðugu ástandi, en það þýðir t.d. að stofnstærð hangi á einhverju meðal bili, en að stöðug endurnýjun sé í vistkerfinu. Nýjir einstaklingar inn, aðrir út, heilmikið reipitog milli einstaklinga innan tegunda og á milli afræningja, bráðar, sýkla, hýsla og frumframleiðenda.

Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að vistkerfin eru hverful, og að við byggjum okkar nýtingu á stofnum á bestu þekkingu um vistkerfin og lífverurnar. Íslenska þjóðin mun ekki svelta ef rjúpna eða lundastofnarnir hrynja þá er mjög mikilvægt að við göngum ekki frá þorskstofninum, því annars höfum við ekki efni á jeppunum okkar, gosdrykkjabaðkarinu og áskriftinni að belgíska boltanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mér finnst sem líffræðingi alltaf jafn sérkennilegt að tala um hrun þegar dýrastofnar fara í gegnum náttúrulega sveiflu.

Hvernig er það hefur þú séð rannsóknarskýrslu um lundastofninn í Eyjum? Ég hef ekki séð hana þrátt fyrir eftirgrennslan. Mér finnst Dr. Erpur vera að mála skrattann á vegginn s.s. að tala um rányrkju og níðast á stofni í sömu mund og hann segir að veiðarnar skipti ekki höfuð máli.

Eitt í lokin, nú veistu að þorskurinn stundar sjálfsrán - hvað minnkar þorskstofninn við það að 3 ára og eldri þorskur étur einn minni þorsk á ári og hvað þá á mánuði.

Sigurjón Þórðarson, 11.6.2009 kl. 19:03

2 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Lundastofninn er nú samt nokkuð sterkur þrátt fyrir þetta mikla áfall undanfarin fjögur ár. Þá er þetta langlífur fugl og ætti að geta rétt úr kútnum EF og ÞEGAR fæðuskilyrið batna. Þessi sílisskortur hefur einnig mikil áhrif á  aðra svartfugla og kríu svo eitthvað sé nefnt. Fæðuskortur er einnig ástæða þess hve sílamáfar hafa verið ágengir hér á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár.

Sílið er líka mikilvæg fæða ýmissa fisktegunda s.s. þorsks og stærri dýr eins og hrefna éta helling af því.

Það eru því margir sem bera skarðan hlut frá borði þegar sandsílið klikkar - sér í lagi þegar það gerist ítrekað eins og nú er raunin.

Haraldur Rafn Ingvason, 11.6.2009 kl. 19:58

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

En á þá að veiða hann meðan við bíðum eftir að stofnin hjarni við?

Gísli Ingvarsson, 11.6.2009 kl. 22:09

4 Smámynd: Páll Jónsson

Jæja, líffræði rokkar, leyfi sérfræðingunum að svara póstunum.

Páll Jónsson, 12.6.2009 kl. 01:09

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Allir.

Varðandi lundann, þá hef ég ekki séð skýrslu um málið og á vefsíðu náttúrustofunnar fann ég ekki nýlegt efni um málið. E.t.v. verður maður að yfirvinna símahræðsluna og hringja í Erp.

Lundinn er í raun mjög öflugur stofn, og ég veit ekki hversu mikill hluti stofnsins er veiddur á ári. Erum við að veiða 0,1% eða 10% af stofninum á ári? Stofninn er í hættu erlendis, en mér finnst ólíklegt annað en að okkur takist að viðhalda honum hér. 

Náttúrufræðistofnun var aftur á móti með ítarlega skýrslu aðgengilega á vefsíðu sinni.

Varðandi sjálfsrán þorsksins, þá veit ég ekki til þess að það hafi verið metið nákvæmlega hérlendis. En ég er ekki sérfræðingur í fiskifræði, og það væri gott ef fagmenn legðu lóð á skálar hér.

Arnar Pálsson, 12.6.2009 kl. 10:03

6 Smámynd: Páll Jónsson

Mér finnst þó frekar sorglegt ef ég fer á mína aðra þjóðhátíð og aftur kemur í ljós að lundi er varla í boði.

En auðvitað er stofninn miklu mikilvægari en græðgin í mér... Núuppsprottinn vafi hjá mér um kjötát nær hins vegar ekki til villtra dýra sem við eru skynsamlega veidd svo ég held í vonina.

Páll Jónsson, 12.6.2009 kl. 23:21

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Von er góð, reyktur lundi ennþá betri.

Arnar Pálsson, 14.6.2009 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband