Leita í fréttum mbl.is

Langtíma sveiflur í þorskstofninum

Í þorskstofninum við Ísland má finna töluverðan erfðabreytileika. Hvergi er hann þó meiri en á Pan I  geninu, þar sem tvær megin gerðir A og B eru þekktar. Gerðirnar eru mjög ólíkar og vísbendingar um að þær haldist við í stofninum í fleiri hundruð þúsund ef ekki milljónir ára.

Einar Árnason og félagar sýndu nýlega fram á að AA gerðirnar halda sig á grunnsævi, á meðan BB eru mun algengari í djúpinu. Þeir arfblendnu AB finnast bæði í djúpi og grunnsævi. Þetta samband er með því sterkasta sem sést milli arfgerðar og umhverfisþáttar í náttúrunni, (sjá mynd úr grein þeirra félaga í Plos One færsla, frumheimild).

Ástæðan virðist vera sú að BB gerðin stundi lóðrétt far, þar sem fiskarnir kafa niður á mikið dýpi á milli þess sem þeir dvelja í grynnri sjó. Þessi arfgerð hlýtur sem sagt að gera fiskunum kleift að þola mikið dýpi, þannig að líklegast er að genið hafi áhrif á starfsemi sundmagans eða einhverja aðra þætti þrýstingsjöfnunar.

Guðrún Marteinsdóttir og Klara Jakobsdóttir hafa unnið einstaka rannsókn á sveiflum í tíðni Pan I gensins síðustu 60 ár. Vísindagrein um rannsóknina er ekki komin út en Guðrún ræddi þær þó í grófum dráttum í Speglinum þriðjudaginn 16 júní 2009 (viðtalið hefst nokkurn vegin um miðbik þáttarins).

Ég hvet fólk til að hlusta á viðtalið sem er bæði fróðlegt og skemmtilegt. Guðrún virðist hallast að því að veiðar hafi haft afgerandi áhrif  á tíðni A og B gerðanna í þorskinum, en er ekki jafn svartsýn á horfur stofnsins og Einar, Kristján og Ubaldo. Enginn þeirra umhverfisþátta sem þau hafa rannsakað geta útskýrt breytingarnar í tíðni A gerðanna, en þótt ekki sé hægt að útiloka að þær séu vegna óþekktra eða óskilgreindra umhverfisþátta.

Ítarefni: Vefsíða rannsóknarhóps Guðrúnar Marteinsdóttur: www.marice.is

Leiðrétting, í fyrstu útgáfu var talað um lárétt far í þriðju málsgrein, það er auðvitað lóðrétt. Jóhannesi er þökkuð ábendingin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aflabrestur og aflahrotur skiptust á í öllum þeim árbókum sem við þekkjum. Og þó höfðum við um aldir ekki önnur veiðarfæri en handfæri og sóttum ekki fisk nema á grunnmið. Árið 1774 veiddi stærsta skip okkar samtals 269 fyrir Norðurlandi á sumarvertíð!

Allt jafnaði þetta sig nú þá þó engum svæðum væri lokað.

Árni Gunnarsson, 17.6.2009 kl. 11:08

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Og út frá þessari staðreynd eigum við að leggja fiskveiðistjórnunarkerfinu og leyfa hverjum sem vill að veiða hvað sem þeir vilja.

Arnar Pálsson, 17.6.2009 kl. 11:55

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Æ, æ Arnar  þessar pælingar Guðrúnar Marteinsdóttur láta kannski voða vísindalega út fyrir fréttamenn sem vita ekkert um líffræði. Hún hefur verið reglulegur gestur með alls kyns pælingar s.s. um stóru eggin sín og strauma og nýlíðun.

Í viðtalinu var að heyra að vöxtur og kynþroski væru ákvarðaðir af erfðum en allir bændur vita að báðir þessir lífeðlisfræðilegu þættir eru langt frá því að vera óháðir fæðu og umhverfi.  Það hefur ekki komið fram hvaða þáttum AA og BB og AB á að vera að stýra en það virðast vera dregnar víðtækar ályktanir.

Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að horfast í augu við að nýliðun er gjarnan lítil þegar vöxtur er lítill og að með því að draga úr veiðum þá eru  meiri líkur á því að minna æti sé fyrir hvern og einn og það dragi úr vexti.

Sigurjón Þórðarson, 17.6.2009 kl. 20:17

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bætt fóðrun í uppvexti folalda og unghrossa hefur orðið metnaður allra þeirra bænda sem stundað hafa hrossarækt undanfarin 20-30 ár.

I dag hafa sýningarhross okkar og reiðhestastofninn náð þeirri stærð sem var nánast óþekkt fyrir þann tíma. Ég hef ekki handbærar tölur um þetta en þekki nokkuð til málsins. Ef skoðuð er ættrakning þeirra kynbótahrossa sem koma til dóms í dag má glöggt sjá að t.d. hæð á herðakamb hefur aukist svo á tveim og þrem ættliðum að ætla mætti að um tvo ólíka stofna væri að ræða. Þarna hefur orðið alger bylting jafnt í vaxtarhraða sem fullri stærð.

Það er ekki hægt að styrkja fiskistofna sem skortir æti með því að fjölga einstaklingunum sem berjast um ætið. Það er ekki hægt að styrkja soltinn lundastofn með því að draga úr veiðum á lundanum. Og það er ekki ráðlegt fyrir heylausan bónda að  setja öll lömb á vetur. Þetta er einfaldasta staðreynd allra þessara fræða um eflingu stofnanna í lífríkinu.

Árni Gunnarsson, 17.6.2009 kl. 23:01

5 identicon

Ég rak augun í þær fréttir að mögulega væri verið að veiða þorskstofninn undir drep. Vegna mismunandi erfðaþátta tveggja afbrigða.

Það mátti skilja af fréttinni að ekki væri seinna vænna en að gjörbreyta veiðiháttum okkar.

Ég spyr: Eru þetta ný tíðindi? Hafa Íslendingar ekki einfaldlega sótt í þorskinn, þar sem hann gafst best?

----

Sigurði Þórðarsyni og hans vangaveltum um að best sé að veiða lunda, má svara á eftirfarandi vegu:

Samkvæmt honum (og prelátanum Kristni Péturssyni) virðist reglan vera þessi:

Ef mikið er um fugla (eða fiska), þá er best að veiða sem mest af þeim.

Ef lítið er um fugla (eða fiska), þá er best að veiða sem mest af þeim.

Þvílík speki...

Jóhann (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 00:39

6 identicon

Meinarðu ekki lóðrétt far?

Jóhannes (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 13:48

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Sigurjón

Í viðtalinu var að heyra að vöxtur og kynþroski væru ákvarðaðir af erfðum en allir bændur vita að báðir þessir lífeðlisfræðilegu þættir eru langt frá því að vera óháðir fæðu og umhverfi.

Orðið er mótað, ekki ákvarðað. Ég hef rætt í þaula á þessum síðum að erfðir eru ekki alsráðandi, heldur skipti samspil erfðaþátt, umhverfis og lífsögu einstaklingsins öllu máli.

Hvort þorskur er AA, AB eða BB ákvarðar ekki neitt, en virðist gefa hverjum einstaklinga mismunandi hæfileika. Vera má að AA þorskar reyni að kafa í djúpið, en geti það ekki vegna einhverra lífeðlisfræðilegra takmarkana.

Guðrún er ekki bara með pælingar. Hún hannar tilraunir, safnar gögnum og dregur sínar ályktanir út frá þeim. Hún hefur leitað að fylgni milli umhverfisþátta og sveifla í tíðni Pan I gerðanna, en enga marktækna fylgni fundið. Það afsannar ekki þá hugmynd að sveiflurnar séu bara tilkomnar vegna umhverfisbreyta, en rennir engum stoðum undir hana heldur. 

Arnar Pálsson, 18.6.2009 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband