Leita í fréttum mbl.is

Maur, maur, maur, maur, maur...

Yfirmaður minn í Chicago, Marty Kreitman, sagði okkur einu sinni sögu af samræðum sem hann átti við Ed Wilson, hinn mikilsvirta náttúrufræðing. Wilson sagði að líffræðingar hefðu þrjár leiðir til vinna sér inn orðspor.* Ein leiðin er að verða mesti sérfræðingur heims í einhverju ákveðnu, t.d einni tegund maura, og harsla sér síðan æ stærri völl í trausti þess orðspors (þetta er leiðin sem Wilson fór). Önnur leiðin er sú að beita nýrri tækni á vandamál sem fólk hefur staðið ráðþrota gagnvart. (Þetta var leið Martys, sem beitti tækni til raðgreininga fyrstur manna á erfðaefni einstaklinga innan tegunda). Þriðja leiðin er sú að uppgötva eitthvað virkilega nýtt, kannski tegund, kannski gen, en ef þú ert virkilega góður (heppinn) líffræðilegt fyrirbæri eða lögmál.

Þriðja leiðin er vitanlega erfiðust. Margir birta fjöldi vísindagreina og sópa inn risastyrkjum en uppgötva aldrei neitt.

Kveikjan af þessari hugvekju er viðtal í New York Times, A Conversation With Bert Hölldobler Insects Succeeding Through Cooperation, tekið af CLAUDIU DREIFUS. Bert Hölldobler er einmitt samstarfsmaður Ed Wilsons, og saman gáfu þeir út doðrantinn Maurar (ANTS). Bókin er alger gersemi, í sama gæðaflokki og Fuglar, Perlur og Hálendið í náttúru Íslands. antstheonion061209_864115.jpg Myndin er af vefsíðu The Onion, sem er ekki alveg jafn alvarlegur miðill og New York Times.

Hölldobler, þýskur dýrafræðingur af Goethes-náð flutti erindi í Chicago eitt árið sem ég var þar. Hann lýsti rannsóknum sínum á maurum. Félagsskordýr eru alveg mergjuð fyrirbæri, þar vinna saman systur og bræður, í búi sem móðir þeirra er drottning. Einstaklingarnir eru aðskiljanlegir, þú getur greint muninn á hverjum maur, en þeir eru samt hluti af einhverju stærra. Félagsskordýr hafa verið notuð sem líkön til að rannsaka samvinnu og samhjálp, eins og þegar maurar leggja slóð fyrir bræður sína í átt að fæðuuppsprettu. Hölldobler lýsti því t.d. hvernig maurarnir ramba á réttar greinar á tré með því að hlera eftir þvi hvar aðrir maurar eru að saga laufblöð.

Í viðtalinu í NYTimes lýsir hann því líka hvernig tvö mauraveldi takast á, og í sumum tilfellum ráðast hermaurar úr einu búi, inn í annað bú og drepa drottninguna. Þeir stela síðan lirfum og bera inn í sitt bú. Erfðafræðin staðfestir að maurarnir stunda þannig þrælhald. Það held ég að sé meiriháttar uppgötvun, kannski þessi Hölldobler hafi unnið sér inn orðspor?

* Mín fyrstu orð voru "slá í gegn" en það nær ekki inntakinu alveg, þótt það undirstriki auðvitað þá staðreynd að margir fara út í vísindi af metnaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband