Leita í fréttum mbl.is

Tilurð tegunda

Næstkomandi laugardag munu Peter og Rosemary Grant halda erindi um finkurnar á Galapagos (13:00 laugardaginn 29 ágúst, í hátíðarsal HÍ - aðalbyggingu). Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwin (sjá darwin.hi.is). Þar verður gefið yfirlit um fjölbreytileika tegundanna, útbreiðslu þeirra og þróun. Rannsóknir Grant hjónanna eru innblásin af þróunarkenningunni og hafa þau fylgst með náttúrulegum breytingum á samsetningu finkustofna á nokkrum eyjum klasans. Þau takast við eina af lykilspurningunum þróunarfræðinnar "hvernig verða tegundir til?"

Darwin og Wallace settu fram hugmyndina um náttúrulegt val, sem byggir á þremur grunnforsendum. Breytileika milli einstaklinga, arfgengi þessa breytileika og mishraðri æxlun eða mismiklum lífslíkum. Að auki er barátta fyrir lífinu, mismunandi einstaklingar eru misgóðir í að takast á við þrautir lífsins (borða fræ, finna maka, sinna ungum). Af þessu leiðir að samsetning stofns mun breytast með tíð og tíma, finkur með venjulega gogga munu öðlast stærri og harðari gogga í kjölfar breytinga á stærð fræja. Stofninn þróast.

Tilurð tegunda er ein af ráðgátum þróunarfræðinnar. Almennt er talið að tegundir myndist greiðlega í kjölfar landfræðilegrar uppskiptingu stofna, við svokallaða sérsvæða tegundamyndun (allopatric speciation). Annar möguleiki er að tegundir verði til án landfræðilegrar einangrunar, eða vegna  samsvæða tegundamyndunar (sympatric speciation). Samsvæða tegundamyndun er þó álitin af mörgum mjög ólíkleg. Samt eru til nokkur forvitnileg dæmi sem benda til þess að tegundir geti myndast úr einum stofni á einu landsvæði. Þróunarfræðingarnir og hjónin Peter og Rosemary Grant við Princeton háskóla munu ræða um rannsóknir sínar í erindi sem þau nefna “Samsvæða tegundamyndun meðal fugla”.

Hinn fyrirlesturinn verður kl 10:00 laugardaginn 29 ágúst, í stofu 132 í Öskju. Erindið er öllum opið og verður flutt á ensku.

Að gefnu tilefni: Athugið að um er að ræða tvo fyrirlestra, einn um sérhæfðara efni kl 10:00  og annan yfirgripsmeiri kl 13:00.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Hvort er fyrilesturinn klukkan 13:00 á laugardaginn og þá í hátíðarsal Háskóla Íslands, eða klukkan 10:00 á laugardaginn og þá í stofu 132 í Öskju? Hið fyrrnefnda stendur efst í tilkynningunni en hið síðarnefnda neðst.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.8.2009 kl. 13:56

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Um er að ræða tvo fyrirlestra, annar kl 10 og hinn 13

Arnar Pálsson, 26.8.2009 kl. 14:36

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk fyrir að skýra þetta út! Vona að ég komist.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.8.2009 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband