Leita í fréttum mbl.is

Erindi: vörn gegn veirum

Á morgun föstudaginn 9 október fer fram doktorsvörn um varnir gegn veirum. Stefán Ragnar Jónsson hefur rannsakað ensímið APOBEC3, sem stuðlar að niðurbroti RNA erfðaefnis t.d. úr retroveirum. Veiran hefur varnir gegn árásum þessa prótíns, sem er prótínið Vif, sem stuðlar að niðurbroti á APOBEC prótínum. Algengt er að finna slíka þróunarlega togstreitu á milli varna hýsils og vopnabúrs veira og sýkla.

Aðalleiðbeinandi Stefáns er Valgerður Andrésdóttir sameindaerfðafræðingur, sem vinnur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesturinn verður í Öskju (stofu 132) kl 14:00. Sjá nánar á vef HÍ og úrklippu úr fréttatilkynningu hér að neðan:

Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda af-aminasa sem einungis er að finna í spendýrum. Mörg þessara próteina geta hindrað retróveirur með því að af-aminera cýtósín í úrasil í erfðaefni veirunnar meðan á víxlritun stendur. Lentiveirur, m.a. HIV hafa þróað mótsvar við þessu, próteinið Vif (virion infectivity factor) sem stuðlar að niðurbroti APOBEC3 próteina. Í þessu verkefni voru APOBEC3 gen og prótein klaufdýra (nautgripa, kinda og svína) klónuð og virkni og sértækni þeirra athuguð. APOBEC3 prótein klaufdýra gátu hindrað eftirmyndun HIV-1 og reyndust ónæm fyrir áhrifum Vif próteins HIV-1.

Raðgreining erfðamengja manna og músa hefur leitt í ljós mikinn mun í fjölda APOBEC3 gena milli dýrategunda, frá einu í músum til sjö í mönnum. Leitað var í DNA söfnum sem innihéldu litninga DNA klaufdýra og APOBEC3 gen þessara tegunda fullraðgreind. Reyndust kindur og nautgripir hafa þrjú APOBEC3 gen en svín tvö. Þessar niðurstöður benda til þess að sameiginlegur forfaðir klaufdýra hafi haft þrjú APOBEC3 gen og þriðja genið hafi tapast snemma í þróun suidae ættkvíslarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband